Hoppa yfir valmynd
3. maí 2013 Dómsmálaráðuneytið

Siðmennt skráð fyrsta lífsskoðunarfélagið

Lífsskoðunarfélagið Siðmennt verður fyrst slíkra félaga til að hljóta skráningu hjá innanríkisráðuneytinu sem lífsskoðunarfélag. Breyting á lögum um skráð trúfélög nr. 108/1999 tók gildi 30. janúar á þessu ári og er markmið breytingarinnar að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga á við skráð trúfélög. Lögin heita nú lög um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög.

Bjarni Jónsson, Hope Knútsson, Ögmundur Jónasson og Ragnhildur Hjaltadóttir fagna skráningu Siðmenntar sem lífsskoðunarfélags.
Bjarni Jónsson, Hope Knútsson, Ögmundur Jónasson og Ragnhildur Hjaltadóttir fagna skráningu Siðmenntar sem lífsskoðunarfélags.

Hope Knútsson, forstöðumaður Siðmenntar, tók við bréfi frá Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra við athöfn í ráðuneytinu í dag þar sem skráning Siðmenntar sem lífsskoðunarfélag er staðfest. Ráðherra sagði þetta tímamót: ,,Það eru tímamót nú þegar Siðmennt öðlast viðurkenningu sem lífsskoðunarfélag. Fyrsta lífsskoðunarfélagið sem fær þá viðurkenningu. Ef til vill verða þau mörg. Ef til vill verða þau fá. Allt er undir innihaldinu komið. Siðmennt hefur sýnt og sannað í verkum sínum að það er traustsins vert og rís undir þeirri ábyrgð að vera nærandi afl til góðs.” Hope Knútsson sagði Siðmennt hafa unnið að þessu máli í 13 ár og haft þetta sem aðalverkefni þann tíma: ,,Við teljum að með skráningunni í dag sé Ísland að stíga nýtt framfaraskref í mannréttindamálum. Síðustu ár hefur margt verið gert á sviði mannréttinda.”

Hope Knútsson og Ögmundur Jónasson skrifa undir skjöl varðandi skráningu Siðmenntar sem lífsskoðunarfélags.Ögmundur Jónasson lagði fram á Alþingi lagafrumvarp um breytingu á lögunum um trúfélög í september 2012 og var það samþykkt í ársbyrjun 2013. Markmið lagabreytingarinnar er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum trúfélaga og lífsskoðunarfélaga. Allir einstaklingar skulu vera jafnir að lögum óháð trúar- eða lífsskoðunum. Heimilt er nú að skrá lífsskoðunarfélög líkt og trúfélög að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Við skráningu öðlast lífsskoðunarfélög þau réttindi og skyldur sem skráð trúfélög njóta samkvæmt lögum. Markmið lagabreytingarinnar er einnig að tryggja jafnrétti foreldra barns við ákvörðun um til hvaða skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi barn skuli heyra en samkvæmt áður gildandi lögum skal barn við fæðingu talið heyra til sama skráða trúfélagi og móðir þess.

Bjarni Jónsson, Hope Knútsson, Ögmundur Jónasson og Ragnhildur Hjaltadóttir fagna skráningu Siðmenntar sem lífsskoðunarfélags.

Skilyrði fyrir skráningu lífsskoðunarfélags er að félagið byggist á veraldlegum lífsskoðunum, miðar starfsemi sína við ákveðin siðferðisgildi og mannrækt og fjallar um siðfræði eða þekkingarfræði með skilgreindum hætti. Enn fremur er það skilyrði skráningar trúfélags eða lífsskoðunarfélags að félagið hafi náð fótfestu, starfsemi þess sé virk og stöðug, tilgangur þess stríði ekki gegn lögum, góðu siðferði eða allsherjarreglu og að í félaginu sé kjarni félagsmanna sem taka þátt í starfsemi þess og styðja lífsgildi félagsins í samræmi við kenningar þær sem félagið er stofnað um. Þá er það skilyrði að félagið sjái um tilteknar athafnir, svo sem útfarir, giftingar, skírnir eða nafngjafir og fermingar eða aðrar hliðstæðar athafnir.

Siðmennt var í dag skráð sem fyrsta lífsskoðunarfélagið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum