Hoppa yfir valmynd
1. október 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Sjúkratryggingar Íslands

Sjúkratryggingar Íslands, sjúkratryggingastofnun, tekur til starfa í dag, miðvikudaginn 1. október. Markmið Sjúkratrygginga Íslands og viðfangsefni er að semja um og kaupa heilbrigðisþjónustu. Á þetta við um þann þátt sem áður var á hendi samninganefndar heilbrigðisráðherra ásamt samningum við sjúkrahús, heilsugæslustöðvar og aðra aðila sem veita þjónustu á heilbrigðissviði. Ætla má að umfang þessara samninga nemi um 100 milljörðum króna á árinu 2010. Stofnunin heyrir undir heilbrigðisráðherra og annast framkvæmd sjúkratrygginga. Sjúkratryggingar Íslands (SJTR) starfa samkvæmt lögum nr. 112/2008 um sjúkratryggingar sem taka gildi í dag, 1. október 2008.

Stofnunin heldur utan um sjúkratryggingar þeirra sem sjúkratryggðir eru í landinu og er ætlað að stuðla að jöfnum aðgangi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Jafnframt er markmiðið að stuðla að rekstrar- og þjóðhagslegri hagkvæmni í heilbrigðisþjónustu og tryggja hámarksgæði þjónustunnar eftir því sem frekast er unnt. Þá er það einnig markmið laganna að styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu og kostnaðargreina þá heilbrigðisþjónustu sem veitt er.


Hlutverk Sjúkratrygginga Íslands er að:

  • annast framkvæmd sjúkratrygginga
  • semja um heilbrigðisþjónustu
  • annast kaup á vöru og þjónustu sem henni ber að veita
  • greiða fyrir heilbrigðisþjónustu sem veitt er samkvæmt lögum og samningum
  • hafa eftirlit með gæðum og árangri starfsemi þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu samkvæmt samningum
  • sinna öðrum verkefnum sem henni eru falin samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða ákvörðun ráðherra.

 

Stjórn og forstjóri Sjúkratrygginga Íslands

Forstjóri Sjúkratrygginga Íslands verður fljótlega skipaður en umsóknarfrestur um stöðuna rann út 15. september sl.  Forstjóri er skipaður af heilbrigðisráðherra til fimm ára í senn. 

Stjórn Sjúkratrygginga Íslands er skipuð af heilbrigðisráðherra.  Formaður stjórnar er Benedikt Jóhannesson. Aðrir stjórnarmenn eru Magnús Árni Magnússon, varaformaður, Katrín Helga Hallgrímsdóttir, Arna Lára Jónsdóttir og Þórir Haraldsson.  Stjórnin hefur m.a. það hlutverk að marka skipulag og stefnu Sjúkratrygginga Íslands.


Þjónusta

Sjúkratryggingar Íslands og Tryggingastofnun ríkisins reka sameiginlega afgreiðslu, þjónustu og upplýsingagjöf við viðskiptavini sína. 

Þjónustumiðstöð er staðsett á fyrstu hæð á Laugavegi 114. Þar er öll almenn afgreiðsla.  Hjálpartækjamiðstöð er staðsett að Smiðjuvegi 28 í Kópavogi.  Utan Reykjavíkur eru 25 umboðsskrifstofur hjá sýslumannsembættum.

Upplýsingar um málaflokka sem falla undir Sjúkratryggingar Íslands verður fyrst um sinn að finna á vef Tryggingastofnunar ríkisins, www.tr.is. 

Nánari upplýsingar:



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum