Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2009 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Losun koltvísýrings í siglingum

Stýrihópur sem samgönguráðherra skipaði á síðasta ári til að fylgjast með þróun mála varðandi losun koltvísýrings í siglingum hefur skilað ráðherra áfangaskýrslu. Hópurinn telur mikilvægt að Íslendingar fylgist vel með vinnu innan ESB og Alþjóða siglingamálastofnuninni um mögulega setningu viðskiptakerfis á losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda í siglingum.

Losun koltvísýrings í siglingum - forsíða skýrslu
CO2 í siglingum

Stýrihópinn skipa Gunnlaugur Stefánsson, sem er formaður hans, Högni Kristjánsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu, Jóhann Guðmundsson, skrifstofustjóri í samgönguráðuneyti, Hermann Guðjónsson siglingamálastjóri og Stefán Einarsson, sérfræðingur í umhverfisráðuneyti. Eiríkur Bjarnason, verkfræðingur í samgönguráðuneyti, var verkefnisstjóri og með hópnum störfuðu einnig Jón Bernódusson, verkfræðingur hjá Siglingastofnun, og Sigurbergur Björnsson, fulltrúi samgönguráðuneytisins í Brussel.

Skipan stýrihóps um losun koltvísýrings í siglingum kemur til í framhaldi af lokaskýrslu stýrihóps samgönguráðherra um losunarheimildir á koltvísýringi í flugi og fyrirhugað viðskiptakerfi Evrópusambandsins sem talið er ljóst að Ísland verði aðili að gegnum samninginn um evrópska efnahagssvæðið. Hópurinn telur að verði farin sú leið að fella siglingar undir svipað kerfi muni Ísland einnig falla undir það. Telja skýrsluhöfundar að siglingar og hugsanlega fiskveiðar muni falla undir viðskiptakerfið.

Í niðurstöðum stýrihópsins kemur fram að ekki liggi fyrir formlegar tillögur frá Alþjóða siglingamálastofnuninni eða Evrópusambandinu um hvernig staðið verður að samdrætti á losun koltvísýrings frá siglingum og fiskveiðum en ljóst að unnið sé að málinu. Allt bendi því til þess að Íslendingar komist ekki hjá því að taka upp tilskipun um viðskiptakerfi með losun á koltvísýringi frá skipum. Telur stýrihópurinn því mikilvægt að samgönguyfirvöld fylgist vel með málinu og taki þátt í undirbúningi eins og aðstæður frekast leyfi. Stjórnvöld þurfi að móta skýra stefnu og koma henni á framfæri við þær stofnanir sem um málið fjalla.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira