Hoppa yfir valmynd
15. ágúst 2019 Innviðaráðuneytið

Bundið slitlag á nýjum vegi í Berufirði lokar hringnum

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, klippa borða og opna nýjan vegarkafla í botni Berufjarðar. Þeim til aðstoðar var Anna Jóna Eðvarðsdóttir frá Hvannabrekku í Berufirði. - mynd

Nýr vegarkafli í botni Berufjarðar var opnaður með viðhöfn í gær. Með þessum áfanga er Hringvegurinn nú allur lagður með bundnu slitlagi. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, klipptu á borða af þessu tilefni og opnuðu vegarkaflann formlega. Ráðherra afhjúpaði einnig skjöld sem komið verður fyrir á áningarstað í Berufirði til minningar um þann áfanga að bundið slitlag hefur verið lagt allan hringinn.

Nýi vegurinn er 4,9 km langur og styttir hringveginn um 3,6 km, þar af liggur um 1 km yfir sjó og um leirur. Ný brú í Berufjarðarbotni er steinsteypt, 50 m löng og 10 m breið.

Við opnun vegarins óskaði Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar Austfirðingum og öllum Íslendingum til hamingju með þennan merka áfanga. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flutti einnig ávarp og minntist merkra tímamóta þegar hringnum var lokað með nýrri brú á Skeiðarársandi fyrir 45 árum og að nú hafi tekist að ljúka þeim áfanga að leggja bundið slitlag allan hringinn. Ráðherra sagði margar stórar samgönguframkvæmdir framundan en fyrr um daginn kynnti hann niðurstöður skýrslu um jarðgangakosti á Austurlandi.

Sá áfangi sem við fögnum hér í dag leggur grunn að nýrri framtíð Austfirðinga og allra landsmanna. Með tilfærslu Hringvegar niður á Firði jókst ekki aðeins öryggi vegfarenda á veturna þar sem láglendisvegur kemur í stað fjallvegar um illfæra heiði, heldur  varð aðeins þessi stutti vegkafli án bundins slitlags eftir og því stöndum við hér í dag og gleðjumst,“ sagði Sigurður Ingi.

  • Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, afhjúpar skjöld Vegagerðarinnar til minningar um þann áfanga að Hringvegurinn er nú allur með bundnu slitlagi. - mynd
  • Hringvegurinn er 1.322 km eftir nýjustu framkvæmdir í Berufirði.. - mynd
  • Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum