Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 46/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 6. febrúar 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 46/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU19090054

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 24. september 2019 kærði maður sem kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Pakistan (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. september 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 7. nóvember 2018. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun þann 20. ágúst 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 5. september 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 24. september 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 8. október 2018 ásamt fylgigagni. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd þann 9. janúar 2019 ásamt talsmanni sínum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna kynhneigðar sinnar.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi heldur því fram í greinargerð að hann sé fæddur og uppalinn í [...], [...], í [...] héraði í Pakistan. Þar hafi hann verið búsettur þegar hann hafi lagt á flótta, fyrst innan lands og svo frá landinu. Kærandi hafi neyðst til að flýja heimaríki vegna kynhneigðar sinnar en hann sé samkynhneigður og hafi átt í ástarsambandi við annan dreng að nafni [...] í um tvö ár. Þeir hafi verið staðnir að verki er þeir hafi notið ásta eitt sinn í skólanum (e. madrasa) hvar þeir sóttu nám í íslömskum fræðum. Kveður kærandi einn trúarleiðtoganna (e. molvi) hafa komið að þeim og í kjölfarið hafi aðrir drengir komið að og beitt þá líkamlegu ofbeldi. Þeim hafi tekist að flýja og hafi þeir farið til borgarinnar Karachi. Fyrrnefndur trúarleiðtogi hafi tilkynnt hann og [...] til lögreglunnar sem hafi í framhaldinu ítrekað komið að heimili kæranda í leit að honum. Kærandi óttist lögregluna í heimaríki og það að vera fangelsaður, beittur ofbeldi og jafnvel tekinn af lífi. Þá geti hann ekki verið opinberlega samkynhneigður í heimaríki, líkt og hann hafi verið hér á landi, enda sé samkynhneigð bönnuð þar í landi.

Kærandi vísar í greinargerð sína til Útlendingastofnunar hvað varðar almennt ástand mannréttindamála í Pakistan. Hvað varðar stöðu samkynhneigðra einstaklinga í Pakistan bendir kærandi á að Útlendingastofnun hafi ítrekað veitt einstaklingum þaðan vernd á grundvelli kynhneigðar, nú síðast 19. september 2018, og beri heimildir ekki með sér að viðhorf í garð samkynhneigðra í Pakistan hafi tekið breytingum frá þeim tíma. Kynferðislegt samneyti tveggja einstaklinga af sama kyni sé glæpur í Pakistan, en pakistönsk hegningarlög kveði á um að refsing slíkra brota geti verið allt frá sekt til lífstíðarfangelsis. Umrætt ákvæði hafi verið sett til samræmingar við Sharía lög, sem kveði á um dauðarefsingar fyrir kynferðislegar athafnir utan hjónabands, þ. á m. samkynhneigðar athafnir. Þá sé Pakistan á meðal þeirra landa Sameinuðu þjóðanna þar sem hætta sé á dauðarefsingu vegna kynlífs samkynhneigðra einstaklinga. Samkynhneigðir einstaklingar gefi því sjaldan upp kynhneigð sína eða kyngervi í Pakistan. Litið sé á samkynhneigð sem synd í Pakistan og séu fordómar, áreiti, mismunun og ofbeldi gegn samkynhneigðum einstaklingum ríkjandi. Heimildir séu skýrar um að samkynhneigðir einstaklingar, sem verði fyrir hótunum eða ofbeldi af hálfu fjölskyldu sinnar eða samfélagsins, geti ekki leitað á náðir yfirvalda. Tilkynni þeir slíkan glæp til lögregla bregðist hún sjaldnast við. Þá nýti lögreglan sér gjarnan vitneskju um kynhneigð og/eða kynvitund einstaklings til að áreita, hóta og kúga fé af viðkomandi, eða jafnvel krefjast kynferðislegra greiða.

Kærandi vekur athygli á því að það séu ekki til staðar lög í Pakistan sem veiti vernd gegn mismunun á grundvelli kynhneigðar eða kynvitundar. Auk þess hafi réttindi samkynhneigðra til sambúðar, hjónabands eða ættleiðingar ekki verið viðurkennd. Þá vísar kærandi til þess, í dæmaskyni um þá óvild og hið fjandsamlega viðmót sem samkynhneigðir þurfi að búa við í Pakistan, að yfirvöld hafi í september 2013 lagt niður vefsíðu sem hafi verið vettvangur fyrir samkynhneigt fólk til að eiga í samskiptum og deila reynslu sinni. Þá hafi pakistanskir fjölmiðlar fjallað um morðingja, sem hafi í apríl 2014 játað að hafa orðið þremur samkynhneigðum mönnum að bana, sem ímynd réttsýninnar. Að síðustu vísar kærandi til þess að í september 2014 hafi Pakistan verið ein af fjórtán þjóðum sem hafi kosið gegn ályktun Sameinuðu þjóðanna um afnám mismununar gegn LGBTI einstaklingum.

Til stuðnings aðalkröfu sinni um alþjóðlega vernd vísar kærandi til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga en hann telji sig uppfylla skilyrði ákvæðisins um aðild að tilteknum þjóðfélagshópi, skv. skilgreiningu d-liðar 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, þar sem hann sé samkynhneigður einstaklingur frá Pakistan. Kærandi telur, m.a. í ljósi þess að hann hafi ekki notið aðstoðar lögfræðings eða túlks í viðtali hjá lögreglu, með öllu ótækt að Útlendingastofnun hafi látið upplýsingar úr lögregluskýrslu draga úr trúverðugleika hans. Þá telur hann fullljóst að ekki sé hægt að greina kynhneigð hans út frá því hvaða myllumerkjum og síðum hann fylgi (e. follow) á Instagram. Hann fylgi hinum ýmsu síðum á Instagram, þ. á m. síðum tileinkuðum samkynhneigðum, vegna þess að þar séu skemmtilegar myndir. Þá veki kærandi athygli á því að allur hugsanlegur vafi um kynhneigð hans skuli vera túlkaður honum í hag, enda hafi hann verið samkvæmur sjálfum sér í viðtölum hjá Útlendingastofnun og gert sitt besta til að svara persónulegum spurningum. Í því sambandi vísar kærandi til leiðbeininga Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um sönnunarkröfur í málum LGBTI umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Kærandi vísar einnig til leiðbeininga Flóttamannastofnunar um málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar, en þar komi m.a. fram að lög sem banni samkynhneigðar athafnir geti gert aðstæður samkynhneigðs fólks óbærilegar, jafnvel að því marki að þær teljist til ofsókna. Það að samkynhneigðir einstaklingar séu þvingaðir til að fela kynhneigð sína, m.a. að áeggjan yfirvalda, geti einnig talist til ofsókna. Með vísan til þess sem að framan er rakið um stöðu samkynhneigðra einstaklinga í Pakistan sé ljóst að einstaklingar í sambærilegri stöðu og kærandi eigi á hættu að sæta áreiti, mismunun og ofsóknum af hálfu samfélagsins og yfirvalda í Pakistan. Af framangreindu virtu telur kærandi ljóst að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki vegna samkynhneigðar sinnar. Þá telur kærandi að þeir sem hann óttist falli undir ákvæði a- og c- liða 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, enda beri heimildir með sér að bæði almenningur og yfirvöld í Pakistan geti staðið að baki ofsóknum á hendur samkynhneigðum.

Til vara heldur kærandi því fram í greinargerð að hann uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi óttist um öryggi sitt og frelsi verði honum gert að snúa aftur til Pakistan, en þarlend yfirvöld hafi hvorki getu né vilja til að veita kæranda vernd. Í greinargerð kemur fram að almennt öryggisástand í Pakistan sé mjög ótryggt og yfirvöld beiti pyndingum og brjóti á mannréttindum borgara sinna. Í greinargerð kveður kærandi að hann eigi á hættu að sæta illri meðferð, pyndingum og dauðarefsingu í Pakistan vegna kynhneigðar sinnar.

Til þrautavara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Viðvarandi mannréttindabrot eigi sér stað í Pakistan og yfirvöld veiti þegnum sínum ekki vernd gegn ofbeldisbrotum og glæpum. Með hliðsjón af því, og því sem að framan er rakið, telji kærandi ljóst að hann geti ekki treyst á vernd yfirvalda í heimaríki vegna þeirrar hættu sem hann sé í vegna samkynhneigðar sinnar. Þá telji kærandi ljóst að félagslegar aðstæður hans verði afar bágbornar neyðist hann til að snúa aftur til heimaríkis. Þar af leiðandi uppfylli hann skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og beri því að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Verði kæranda gert að snúa aftur til Pakistan telji hann jafnframt að það brjóti gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Í greinargerð gerir kærandi athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar og hvernig trúverðugleikamati hafi verið háttað í málinu. Fyrir hið fyrsta gerir kærandi alvarlega athugasemd við það að upplýsingar sem komi fram í lögregluskýrslu séu taldar grafa undan trúverðugleika kæranda hvað varðar kynhneigð hans. Kærandi bendir á að hann hafi ekki notið liðsinnis lögfræðings er lögregla hafi tekið af honum skýrslu og því sé ekki hægt að slá því á föstu að hann hafi verið að fullu meðvitaður um réttarstöðu sína. Þá gagnrýni hann að Útlendingastofnun hafi ekki tekið tillit til útskýringa hans á ástæðu hins meinta ósamræmis, þ.e. skorti á fullnægjandi túlkun, en verði að telja að aðgengi umsækjenda um alþjóðlega vernd að túlk sé grundvallar forsenda þess að þeir hafi fullnægjandi tækifæri til að tjá sig.

Í öðru lagi gerir kærandi athugasemd við þær ályktanir sem Útlendingastofnun virðist draga af skoðun á Instagram reikningi kæranda. Kærandi hafi gefið eðlilegar skýringar á því af hverju hann fylgi hinum ýmsu síðum á Instagram og sé það með öllu ótækt að upplýsingar sem þar megi finna séu taldar grafa undan trúverðugleika frásagnar hans um að hann sé samkynhneigður.

Í þriðja lagi gagnrýnir kærandi umfjöllun stofnunarinnar um skort á gagnaframlagningu frásögn kæranda til stuðnings. Kærandi sjái ekki hvernig það að tíu ár séu liðin frá því að hann flúði heimaríki geri það líklegra að hann búi yfir einhvers konar gögnum sem leggi grunn að málsástæðum hans. Þá ítrekar kærandi, með vísan til leiðbeiningarreglna Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um sönnunarbyrði í málum LGBTI einstaklinga, að það sé ekki alltaf mögulegt fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd að útvega sannanir fyrir kynhneigð sinni. Í þeim tilvikum beri ákvörðunaraðila að taka mið af framburði umsækjanda. Þá verði allur vafi að vera túlkaður umsækjanda í hag, hljómi frásögn hans trúverðug, nema góðar ástæður séu til annars. Kærandi telur ekki vera fyrir hendi neinar þær ástæður í málinu sem leitt geti til þess að vafi um trúverðugleika skuli túlkaður honum í óhag. Hann hafi verið samkvæmur sjálfum sér í viðtölum hjá Útlendingastofnun og gert sitt besta til að svara spurningum, sumum þeirra mjög svo persónulegum, skilmerkilega.

Kærandi mótmælir því mati Útlendingastofnunar að framburður hans, þ. á m. um kynhneigð, hafi verið óskýr og ónákvæmur. Frásögn hans um ástæður flótta hafi verið skýr og hafi hann svarað öllum þeim spurningum sem fyrir hann voru lagðar í viðtali samviskusamlega. Eigi hann því afar erfitt með að gera sér grein fyrir því hvernig stofnunin telji sér fært að slá því á föstu að hann sé ekki samkynhneigður út frá svörum hans. Í þessu sambandi veki kærandi athygli á því að yfirvöld verði að gæta fyllstu varúðar þegar trúverðugleiki er metinn í málum umsækjenda sem bera fyrir sig að tilheyra hópi LGBTI einstaklinga. Þá veki hann athygli á framlögðu bréfi frá formanni Samtakanna ´78. Jafnframt gagnrýni hann að Útlendingastofnun hafi lagt sönnunarbyrðina að fullu á hann og gert honum að sýna fram á kynhneigð sína. Það sé afar erfitt, ósanngjarnt og í andstöðu við framangreindar leiðbeiningarreglur Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Að öllu framangreindu virtu áréttar kærandi að hann geti ekki með nokkru móti fallist á niðurstöðu trúverðugleikamats Útlendingastofnunar. Hvetur hann því kærunefnd útlendingamála til að fella úr gildi ákvörðun stofnunarinnar og veita honum alþjóðlega vernd hér á landi í samræmi við það sem rakið er að framan.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram neitt sem væri til þess fallið að sanna á honum deili og yrði því leyst úr auðkenni hans á grundvelli trúverðugleikamats. Þegar hann hafi komið hingað til lands þann 7. nóvember 2018 hafi hann framvísað breytifölsuðu vegabréfi. Í skýrslutöku hjá lögreglu daginn eftir hafi kærandi greint frá því að hann hafi fengið vegabréfið hjá smyglara. Nafn hans væri [...] og fæðingardagur [...].

Það var mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi, með framlagningu breytifalsaðs vegabréfs, gegn betri vitund reynt að villa á sér heimildir fyrir íslenskum stjórnvöldum. Væri auðkenni kæranda því óljóst. Útlendingastofnun taldi á hinn bóginn, með vísan til þess að kærandi talar urdu, enga ástæðu til að draga í efa að hann sé pakistanskur ríkisborgari. Kærunefnd hefur ekki forsendur til að hnekkja mati Útlendingastofnunar á auðkenni kæranda og verður því lagt til grundvallar að kærandi sé pakistanskur ríkisborgari. Að öðru leyti er auðkenni kæranda óljóst.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Pakistan, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2018 Country Reports on Human Rights Practices: Pakistan (U.S. Department of State, 13. mars 2019);
  • Country Policy and Information Note. Pakistan: Background information, including actors of protection, and internal relocation (UK Home Office, júní 2017);
  • Country Policy and Information Note. Pakistan: Sexual orientation and gender identity or expression (UK Home Office, júlí 2019);
  • EASO Country of Origin Report – Pakistan Security Situation (EASO, október 2019);
  • Freedom in the World 2019 – Pakistan (Freedom House, 4. febrúar 2019);
  • Pakistan: Country Report (Asylum Research Consultancy, 18. júní 2018);
  • Pakistan: First Information Reports (FIRs) (2010-December 2013) (Immigration and Refugee Board of Canada, 10. janúar 2014);
  • Pakistan - Mänskliga rättigheter, demokrati och rättstatens principer: situationen per den 31 december 2018 (Utrikesdepartimentet, 18. júní 2019);
  • Pakistan: Treatment of sexual and gender minorities by society and authorities; state protection and support services available (2017-January 2019) (Research Directorate, Immigration and Refugee Board of Canada, 17. janúar 2019)
  • State of Human Rights in 2018 (Human Rights Commission of Pakistan, 16. apríl 2019);
  • The World Factbook: Pakistan (Central Intelligence Agency, 13. janúar 2020); 
  • World Report 2020 – Pakistan (Human Rights Watch, 15. janúar 2020);
  • Vefsíða lögreglu í Punjab (https://www.punjabpolice.gov.pk/igp_complaint_center_8787, sótt 8. október 2019);
  • Vefsíða Human Rights Commission of Pakistan (http://hrcp-web.org/hrcpweb/, sótt 24. janúar 2020);
  • Vefsíða: Office of the Ombudsman Punjab (http://www.ombudsmanpunjab.gov.pk/mandate, sótt 24. janúar 2020);
  • Stjórnarskrá Pakistan (http://na.gov.pk/uploads/documents/1333523681_951.pdf).

Samkvæmt ofangreindum gögnum er Pakistan sambandslýðveldi með tæplega 208 milljónir íbúa. Þann 30. september 1947 gerðist Pakistan aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi árið 2010 og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 2008. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1966 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2010. Þá fullgilti ríkið jafnframt samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1996, en ríkið hefur hins vegar ekki undirritað valfrjálsa viðbótarbókun við samninginn. Pakistan fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1990.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að þrátt fyrir að pakistönsk löggjöf banni handahófskenndar handtökur og varðhald, jafnframt sem lögin kveði á um rétt til að vefengja lögmæti handtöku fyrir dómi, þá sé spilling innan lögreglunnar vandamál í Pakistan. Spilling á lægri stigum lögreglunnar sé algeng og séu dæmi um að lögreglan þiggi mútur. Einstaklingar tilkynni um meinta glæpi eða brot til lögreglunnar með svokallaðri FIR skýrslu (e. first instance report). FIR skýrslan sé fyrsta skrefið við rannsókn sakamáls og sé hún oftast lögð fram af þriðja aðila þó svo að lögreglan hafi heimild til að gera slíka skýrslu sjálf. FIR skýrslan veiti lögreglunni heimild til að halda meintum brotamanni í gæsluvarðhaldi í 24 klukkustundir á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Hægt sé að leggja fram slíka skýrslu hjá lögreglumanni, á lögreglustöð og á vefsíðum ákveðinna lögregluembætta í Pakistan. Þá hafi lögreglan í Punjab sett upp rafrænt kvörtunarkerfi til þess að taka á móti kvörtunum almennra borgara sem telji lögregluna ekki hafa sinnt skyldum sínum. Kvörtunum vegna þess að FIR skýrsla hafi ekki verið skráð eigi að svara innan 72 klukkustunda.

Þrátt fyrir að pakistönsk lög kveði á um sjálfstætt dómskerfi, réttláta málsmeðferð og að enginn skuli sviptur lífi, eignum eða frelsi án dóms og laga bera gögnin með sér að dómskerfið hafi verið gagnrýnt fyrir spillingu. Spilling sé innan héraðsdómstóla en þeir séu afkastalitlir og undir þrýstingi frá auðugum og áhrifamiklum einstaklingum, einkum á sviði trúar- og stjórnmála. Þá kemur fram að þrátt fyrir að veikleikar séu í réttarkerfinu í Pakistan þá sé spilling refsiverð samkvæmt lögum, en ábyrgðarskrifstofa ríkisins (e. National Accountability Bureau (NAB)) hafi það hlutverk að útrýma spillingu í stjórnkerfum landsins með vitundarvakningu, forvörnum, rannsókn spillingarmála jafnframt sem skrifstofan ákæri í slíkum málum. NAB hafi heimild samkvæmt lögum að halda einstaklingum í 15 daga án þess að ákæra og mögulegt sé að framlengja varðhaldið með samþykki dómstóla. Synja megi einstaklingnum um leyfi til að ráðfæra sig við lögmann meðan á rannsókn standi. Þá sé ekki unnt að greiða tryggingu til að losna úr varðhaldi heldur sé það einungis ákvörðun formanns NAB að láta einstakling lausan.

Í ofangreindri skýrslu stofnunar sem veitir ráðgjöf varðandi flóttafólk (e. Asylum Research Consultancy) kemur fram að öryggisástandið í Pakistan sé breytilegt eftir landshlutum en heimahérað kæranda, Punjab, sé talið eitt af öruggustu héruðum landsins. Í framangreindum skýrslum kemur jafnframt fram að í heimahéraði kæranda, Punjab, sé starfandi umboðsmaður (e. Ombudsman Punjab) sem hafi m.a. það hlutverk að vernda rétt borgaranna gegn brotum opinberra starfsmanna og koma í veg fyrir spillingu. Umboðsmaðurinn geti tekið til skoðunar öll ætluð brot opinberra starfsmanna sem varði borgara landsins að undanskildum ætluðum brotum æðsta dómstólsins (e. High Court) og dómstóla sem vinni undir yfirstjórn hans.

Í framangreindum gögnum kemur fram að samkynhneigðar athafnir og aðrar ónáttúrulegar athafnir séu ólöglegar og refsiverðar samkvæmt 377. gr. pakistanskra hegningarlaga. Viðurlög vegna brota á ákvæðinu, sem innleitt var til samræmingar við ákvæði Sharíalaga um dauðarefsingu fyrir kynferðislegar athafnir utan hjónabands (Zina), séu sektir og allt frá tveimur árum til lífstíðar í fangelsi. Stjórnvöld í Pakistan ákæri sjaldan vegna brota á ákvæðinu en lögreglan hafi nýtt sér vitneskju um kynhneigð og/eða kynvitund einstaklings til að áreita, ógna, handtaka eða kúga fé af viðkomandi.

Þá kemur í framangreindum gögnum fram að litið sé á samkynhneigð sem synd í Pakistan og að LGBTI einstaklingar eigi á hættu að verða fyrir fordómum og ofbeldi af hálfu samfélagsins. Þá eigi þeir á hættu að vera afneitað af fjölskyldum sínum eða jafnvel myrtir til að halda heiðri fjölskyldunnar. Lögreglan bregðist yfirleitt ekki við í málum er varða LGBTI einstaklinga og geti LGBTI einstaklingar því ekki treyst á vernd lögreglu óttist þeir illa meðferð eða ofsóknir. Þá séu ekki til staðar lög í Pakistan sem veiti vernd gegn mismunun á grundvelli kynhneigðar eða kynvitundar. Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærunefnd hefur jafnframt litið til leiðbeininga Flóttamannastofnunarinnar er varða kröfur um alþjóðlega vernd á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar (Guidelines on International Protection No. 9: Claims to Refugee Status based on Sexual Orientation and/or Gender Identity within the context of Article 1A (2) of the 1951 Convention and/or its 1967 Protocol relating to the Status of Refugees, UN High Commissioner for Refugees, október 2012).Krafa kæranda um alþjóðlega vernd er byggð á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu, Pakistan, vegna þess að hann sé samkynhneigður og tilheyri minnihlutahópi vegna kynhneigðar sinnar. Til stuðnings málatilbúnaði sínum vísar kærandi til þess að Útlendingastofnun hafi ítrekað veitt einstaklingum frá Pakistan alþjóðlega vernd á grundvelli kynhneigðar, þá síðast 19. september 2019 í máli nr. 2018-00860.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun og í greinargerð sem kærandi lagði fram við meðferð málsins kvaðst kærandi hafa átt í leynilegu ástarsambandi í heimaríki við dreng að nafni [...] í eitt til tvö ár. Trúarleiðtogi (e. Molvi) í trúarskólanum þar sem þeir hafi sótt nám hafi komið að þeim er þeir nutu ásta og í kjölfarið hafi samnemendur þeirra komið og beitt þá líkamlegu ofbeldi. Þeim hafi tekist að flýja og hafi þeir farið til borgarinnar Karachi. Fyrrnefndur trúarleiðtogi hafi tilkynnt hann og [...] til lögreglunnar sem hafi í framhaldinu ítrekað komið að heimili kæranda í leit að honum.

Kærunefnd bauð kæranda í viðtal hjá nefndinni, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga, sem fór fram þann 9. janúar 2020. Aðspurður hvenær fyrstu kynni hans og [...] hafi verið kvað kærandi að það hafi verið í trúarskólanum þegar þeir hafi verið 16 til 17 ára. Hafi hann þá gert sér grein fyrir því að hann væri samkynhneigður. Síðar í viðtalinu kvað kærandi hins vegar að fyrstu kynni þeirra hafi verið í fyrsta eða öðrum bekk í grunnskóla þegar þeir hafi verið 6 til 7 ára. Þá var frásögn kæranda um það hvenær kynferðislegt samband þeirra hafi hafist í ósamræmi við frásögn hans í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 20. ágúst 2019. Í því viðtali greindi kærandi frá því að samband þeirra hafi byrjað árið 2008, þ.e. þegar hann var [...] ára að aldri. Í viðtali hjá kærunefnd bar kærandi því hins vegar við að það hafi verið 4 til 12 mánuðum eftir að þeir hafi lokið [...] bekk í grunnskóla, en kærandi hafi þá verið [...] eða [...] ára. Jafnframt var ósamræmi í svörum kæranda um aldur [...]. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að [...] væri [...] til [...] ára, þ.e. 3 til 4 árum yngri en kærandi. Af svörum kæranda í viðtali hjá kærunefnd þann 9. janúar 2020 má hins vegar ráða, eftir því hvaða svör kæranda er miðað við, að [...] sé annað hvort jafngamall og kærandi eða einu til einu hálfu ári yngri.

Þá var frásögn kæranda hjá kærunefnd af atburðum sem hafi gerst eftir að hann og [...] hafi komið sér undan samnemendum sínum í trúarskólanum enn fremur í verulegu ósamræmi við frásögn hans í viðtali hjá Útlendingastofnun. Í því viðtali greindi kærandi frá því að þeir hafi flúið til Karachi í sameiningu. Á leiðinni hafi kærandi fengið fregnir frá föður sínum, sem hafði hringt í ótilgreindan ferðafélaga kæranda, um að lögreglan hafi gert húsleit heima hjá þeim í leit að kæranda og tekið föður kæranda með sér að húsleit lokinni. Kærandi hafi verið tvo til þrjá mánuði í Karachi, en hann hafi einnig farið til Tyrklands til að fá gögn frá smyglara, verið einn til tvo mánuði í [...] og tvo til þrjá mánuði hér og þar, áður en hann hafi yfirgefið Pakistan í ágúst eða september 2010. Í viðtali hjá kærunefnd kvaðst kærandi hins vegar hafa tekist að flýja frá lögreglunni út um glugga á lögreglubifreið og hafi síðan ferðast til Karachi einsamall. Lögreglan hafi einnig handsamað [...] en hann viti ekki um afdrif hans því hann hafi ekki átt nein samskipti við hann eftir þetta atvik. Á leið sinni til Karachi hafi kærandi hringt í nágranna sinn sem hafi tjáð honum að lögreglan hafi leitað að honum á heimili hans. Lögreglan hafi yfirgefið heimili kæranda án þess að hafa nein afskipti af fjölskyldu hans. Hann hafi verið þrjá til sex mánuði í Karachi áður en hann fór til [...]. Þaðan hafi hann farið fótgangandi og með leigubílum til Tyrklands, í gegnum Íran, og hafi ferðin tekið hann um þrjá til fjóra mánuði. Samkvæmt framangreindu er um að ræða tvær atvikalýsingar á atburðum sem hafi gerst í kjölfar þess að komið hafi verið að honum og umræddum [...]. Þá er það mat kærunefndar að lýsing kæranda á ferðaleið hans í viðtali hjá nefndinni hafi verið með talsverðum ólíkindablæ. Kærunefnd telur að það misræmi sem hafi verið á frásögn hans hjá stjórnvöldum hér á landi sé verulegt. Hún varðar kjarna frásagnar hans sem og ferðleið hans frá Pakistan. Að mati kærunefndar dregur þetta verulega úr trúverðugleika framburðar kæranda.

Í viðtali hjá kærunefnd var kæranda gert grein fyrir því að nefndin hefði skoðað samfélagsmiðlareikninga hans, þ.e. þrjá Facebook reikninga og einn Instagram reikning. Aðspurður neitaði kærandi því að hann hafi líkað við (e. like) og skrifað athugarsemdir við (e. comment) við myndir af konum á samfélagsmiðlum. Síðar, eftir að honum voru sýnd skjáskot af ýmsum athugasemdum hans, þ. á m. einu þar sem hann spurði íslenska konu á Facebook hvort hún væri á lausu, og öðru þar sem hann skrifaði á Instagram að íslensk kona væri svo falleg og kynþokkafull, gekkst hann hins vegar við því. Hann hafi hins vegar ekki sent konunum skilaboð eða beðið þær um að vera vinir hans. Síðar, þegar kærandi var spurður af hverju hann hefði nánast einungis fylgt (e. follow) íslenskum stúlkum á Instagram þegar mál hans var til meðferðar hjá Útlendingastofnun, en fylgi í dag aðallega samkynhneigðum karlmönnum, kvaðst kærandi ekki nota umræddan reikning. Hann noti annan reikning, sem vinur hans hafi búið til, og geti sent nefndinni myndir því til sönnunar. Að mati kærunefndar benda gögn máls ekki til annars en að tilteknir reikningar á samfélagsmiðlum stafi frá kæranda, enda hefur hann ekki haldið öðru fram. Þá er þess að geta að nefndinni bárust ekki myndir af öðrum meintum Instagram reikningi kæranda.

Í viðtali hjá kærunefnd var kærandi enn fremur spurður hvort hann hafi einhverntímann stundað kynlíf með öðrum karlmanni en [...]. Kærandi kvað að frá því að hann yfirgaf Pakistan árið 2010 og þar til hann kom hingað til lands árið 2019 hafi hann ekki verið með neinum karlmanni. Í desember árið 2019 hafi hann hins vegar kynnst íslenskum karlmanni. Þeir hafi átt í samskiptum á WhatsApp og [...] heima hjá kæranda. Aðspurður kvaðst kærandi ekki muna nafnið hans þar sem íslensk nöfn séu svo flókin. Því hafi hann vistað nafn hans, til einföldunar, sem [...] í WhatsApp. Kærandi var beðinn um að leggja fram skjáskot af samskiptum hans við fyrrgreindan mann. Þann 13. janúar 2020. lagði kærandi fram skjáskot af samskiptum á WhatsApp við þrjá menn; [...], [...] og [...]. Í kjölfarið var kæranda boðið að koma með með síma sinn til skoðunar hjá kærunefnd. Þann 15. janúar s.á. var sími kæranda skoðaður með hans samþykki, n.tt. hugbúnaðarforritin WhatsApp, Facebook, Facebook Messenger og Instagram. Það er mat kærunefndar að gögn úr síma kæranda og samfélagsmiðlanotkun hans styðji ekki við frásögn hans af kynhneigð hans. Þá bendi athafnir hans á samfélagsmiðlum, þ. á m. að hann hafi, eftir að hann mætti til viðtals hjá Útlendingastofnun og var birt ákvörðun í máli sínu, byrjað að fylgja reikningum samkynhneigðra karlmanna á Instagram og hætt að fylgja reikningum hundruð kvenna. Kærunefnd telur þetta benda afdráttarlaust til þess að með þessu hafi hann verið að reyna að villa um fyrir stjórnvöldum í þeim tilgangi að hafa áhrif á úrlausn umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd hér á landi.

Af ofangreindu er ljóst að frásögn kæranda hefur tekið breytingum eftir því sem liðið hefur á meðferð máls hans fyrir íslenskum stjórnvöldum. Verulegt innra og ytra misræmi hefur verið í frásögninni og stangast framburður kæranda á við gögn úr síma hans og af samfélagsmiðlasíðum. Þá hefur kærandi engin gögn fært fram sem þykja til þess fallin til að styðja við frásögn hans af þeim atvikum sem hann hefur lagt til grundvallar umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd. Það er því mat kærunefndar að framangreint misræmi í frásögn kæranda og skortur á gögnum til stuðnings frásögn hans leiði til þess, heildstætt metið, að frásögn hans af atburðum og ástæðum flótta sé ótrúverðug og verði ekki lögð til grundvallar í málinu. Verður því ekki lagt til grundvallar að kærandi sé samkynhneigður og eigi á hættu að sæta ofsóknum í heimaríki af þeirri ástæðu. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi ástæðu til að óttast ofsóknir í heimaríki af öðrum ástæðum en þeim sem hann hefur tilgreint sjálfur.

Hvað varðar vísun kæranda til ákvörðunar Útlendingastofnunar sem hann telur sambærilega sínu máli þá tekur kærunefnd fram að forsendur og rökstuðningur ákvarðana Útlendingastofnunar eru ekki bindandi fyrir kærunefnd. Jafnframt telur kærunefnd, m.a. með vísan til niðurstöðu framangreinds trúverðugleikamats, að málsatvik og aðstæður aðila þess máls séu ekki sambærileg þeim aðstæðum sem eiga við í máli kæranda.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið, niðurstöðu kærunefndar um trúverðugleika kæranda, og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna, þ. á m. upplýsinga um aðstæður í Pakistan, framburðar kæranda, og annarra gagna sem hafa orðið til við meðferð máls hans fyrir stjórnvöldum, er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á slíkar aðstæður í heimaríki.

Kærandi ber fyrir sig að hann geti ekki treyst á vernd yfirvalda í heimaríki vegna þeirrar hættu sem hann er í vegna kynhneigðar sinnar. Þá bíði hans erfiðar félagslegar aðstæður þar í landi. Í ljósi ofangreinds trúverðugleikamats kærunefndar á frásögn kæranda um kynhneigð hans verður ekki talið að hann muni búa við erfiðar félagslegar aðstæður í heimaríki að þessu leyti.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.

Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 7. nóvember 2018 og sótti um alþjóðlega vernd þann sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                    Bjarnveig Eiríksdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum