Hoppa yfir valmynd
9. september 2019 Utanríkisráðuneytið

Málstofa á morgun um þátttöku fyrirtækja í þróunarsamvinnu

Fulltrúar frjálsu félagasamtakanna sem standa að vitundarvakningunni "Þróunarsamvinna ber ávöxt" - Ljósm. Félag SÞ - mynd

Á morgun verður haldin málstofa um þátttöku fyrirtækja í þróunarsamvinnu. Málstofan er hluti af vitundarvakningunni Þróunarsamvinna ber ávöxt sem öll helstu íslensku félagasamtökin í mannúðarstarfi og alþjóðlegri þróunarsamvinnu standa að í samvinnu við utanríkisráðuneytið. Átakið hófst í morgun og stendur út alla vikuna. Markmið málstofunnar í fyrramálið er að kynna fyrir fyrirtækjum, stórum sem smáum, tækifæri og ávinning þess að styðja við alþjóðlega þróunarsamvinna.

Málstofan fer fram á Nauthóli á morgun, 10. september, frá kl. 9:00-11:30. Fyrirtæki á borð við Marel, Íslandsbanka, Te og kaffi og Áveituna á Akureyri koma til með segja frá reynslu sinni af þátttöku í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Á málstofunni verður jafnframt myndband frumsýnt sem fjallar um ýmis samstarfstækifæri fyrirtækja og félagasamtaka sem starfa á þessum vettvangi.

Að mati forsvarsmanna Þróunarsamvinnu ber ávöxt geta íslensk fyrirtæki lagt þung lóð á vogarskálar þróunarsamvinnu. „Með heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun er gert skýrt ákall eftir þátttöku fyrirtækja í brýnustu verkefnum á heimsvísu, sem eru meðal annars loftlagsaðgerðir ásamt útrýmingu hungurs og fátæktar í öllum sínum birtingarmyndum. Með því að leggja til þekkingu, búnað, vinnuafl eða fjármuni hafa mörg fyrirtæki breytt lífskjörum fjölda fólks, víðs vegar um heiminn,“ segir í kynningartexta um málstofuna.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra flytur opnunarávarp en fyrsta erindið er flutt af Hrund Gunnsteinsdóttur framkvæmdastjóra Festu og kallast „Ásetningur fyrirtækja að gera heiminn a betri stað.“ Þá ræðir Viktoría Valdimarsdóttir sérfræðingur hjá ábyrgum lausnum um ávinning fyrirtækja af þróunarsamvinnu. Stella Samúelsdóttir framkvæmdastýra UN Women segir frá samstarfstækifærum fyrirtækja og félagasamtaka í þróunarsamvinnu og Sigurlilja Albertsdóttir sérfræðingur hjá utanríkisráðuneytinu kynnir samstarfssjóð við atvinnulíf um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þá verða sagðar reyslusögur fyrirtækja af þátttöku í þróunarsamvinnu.

Fundarstjóri er Logi Bergmann Eiðsson.

Að átakinu standa Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Rauði Krossinn, UN Women, UNICEF, SOS barnaþorpin, Barnaheill, ABC barnahjálp, Kristniboðssambandið, Hjálparstarf kirkjunnar, Sól í Tógó, ásamt utanríkisráðuneytinu.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

8. Góð atvinna og hagvöxtur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum