Hoppa yfir valmynd
20. júní 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Lækkun kostnaðar vegna apótekslyfja 7,8% milli ára

Kostnaður Sjúkratrygginga Íslands vegna apótekslyfja lækkaði um 7,8% milli áranna 2012 og 2013 eða um rúmar 690 milljónir króna. Ástæðurnar eru einkum lækkun lyfjaverðs vegna tilkomu nýrra samheitalyfja og verðendurskoðunar lyfjagreiðslunefndar og tímabundin lækkun kostnaðar vegna nýja lyfjagreiðsluþátttökukerfisins sem tók gildi í maí árið 2013. Kostnaður sjúkratrygginga vegna S-merktra lyfja, þ.e. vandmeðfarinna lyfja sem notuð eru til sérhæfðrar meðferðar, jókst aftur á móti um 8,6% milli ára, eða 505 milljónir króna.

Í skýrslu Sjúkratrygginga Íslands; Lyfjakostnaður sjúkratrygginga 2013 má sjá upplýsingar um lyfjakostnað sjúkratrygginga eftir lyfjaflokkum árin 2011–2013, upplýsingar um lyfjanotkun á sama tímabili og upplýsingar um kostnaðarsömustu lyfjaflokkana.

Notkun metýlfenídatlyfja (mæld í þúsundum skammta, DDD)Eins og undanfarin ár er kostnaður sjúkratrygginga mestur vegna tauga- og geðlyfja, eða um 3 milljarðar króna, og lyfjanotkun hefur jafnframt aukist mest í þessum flokki. Engu að síður lækkaði kostnaður vegna þessara lyfja um um 362 milljónir króna milli áranna 2012 og 2013. Notkun þunglyndislyfja jókst milli ára um 8% og notkun meýlfenidats jókst um 13%.

Ef S-merkt lyf eru frátalin er kostnaður sjúkratrygginga langmestur vegna metýlfenidatlyfja, þ.e. lyfja sem notuð eru við ofvirkni og athyglisbresti (ADHD). Notkun metýlfenidatslyfja eykst ár frá ári og hjá öllum aldurshópum en þó mest meðal fullorðinna. Kostnaður sjúkratrygginga vegna metýlfenidatlyfja nam 686 milljónum króna árið 2013.

Kostnaður Sjúkratrygginga Íslands vegna apótekslyfja nam 8.218 milljónum króna árið 2013 og 6.387 milljónum króna vegna S-merktra lyfja. Samtals nemur kostnaðurinn 14.605 milljónum króna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum