Hoppa yfir valmynd
20. apríl 2018 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra ræddi Brexit við Davis

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra átti fund með David Davis, ráðherra útgöngumála í bresku ríkisstjórninni, í London í gær þar sem þeir ræddu gang viðræðna Breta og Evrópusambandsins um Brexit og fóru yfir áhrif útgöngunnar á Ísland og önnur EES-EFTA ríki.

Á fundinum fagnaði utanríkisráðherra niðurstöðu leiðtogafundar ESB í síðasta mánuði þar sem leyst var úr því hvernig alþjóðasamningar ESB, á borð við EES-samninginn, gilda gagnvart Bretlandi á bráðabirgðatímabilinu svokallaða. Það hefst í mars á næsta ári þegar Bretar ganga formlega úr ESB. „Samkomulagið frá mars er afar mikilvægt fyrir Íslendinga og borgara annarra EES-EFTA ríkja þar sem það tryggir óbreytt ástand á millibilstímabilinu sem brátt gengur í garð. Þá er niðurstaðan ekki síður þýðingarmikil fyrir íslensk fyrirtæki sem flytja vörur og þjónustu til Bretlands. Í okkar huga er framtíðarfyrirkomulag á viðskiptum þessara ríkja eitt af þýðingarmestu utanríkismálum komandi tíma Ég greindi því Davis frá því á fundinum að Ísland væri þá og þegar reiðubúið til viðræðna og að í Brexit fælust tækifæri til að efla viðskiptasamband þessara vinaþjóða,“ sagði Guðlaugur Þór eftir fundinn.

Utanríkisráðherra hitti einnig Alan Duncan, ráðherra Evrópumála í breska utanríkisráðuneytinu, og ræddu þeir bæði öryggismál og málefni Brexit. Duncan þakkaði íslenskum stjórnvöldum sérstaklega fyrir þann ríka stuðning sem þau, ásamt fleiri vestrænum ríkjum, sýndu Bretum í kjölfar efnavopnaárásarinnar á Skripal-feðginin í Salisbury. Ráðherrarnir ræddu samstarf Breta og Íslendinga á sviði öryggismála, m.a. netöryggismál. Þá fóru ráðherrarnir yfir stöðu mála í Sýrlandi og viðbrögð alþjóðasamfélagsins við efnavopnaárás Sýrlandshers. „Það var mikill samhljómur í máli okkar og ljóst að hagsmunir okkar og Breta á sviði öryggis- og varnarmála fara saman og munu ríkin áfram rækta samstarfið á næstu misserum,“ sagði utanríkisráðherra.

Þá átti Guðlaugur Þór fund með Keir Starmer, þingmanni Verkamannaflokksins og skuggaráðherra útgöngumála, þar sem farið var yfir stöðu viðræðna ESB og Bretlands og stefnu Verkamannaflokksins í þessu mikilvæga máli. „Þetta voru hreinskiptar umræður og afar áhugavert að heyra hvernig breska stjórnarandstaðan nálgast þetta mikilvæga hagsmunamál.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira