Hoppa yfir valmynd
14. júní 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Íslenskur ráðherra í fyrsta sinn á fundi aðildarríkja samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, ásamt sendinefnd Íslands á fundinum.  - mynd

„Íslensk stjórnvöld hafa sett málefni fatlaðs fólks á oddinn,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, í ávarpi Íslands á aðildarríkjafundi Sameinuðu þjóðanna um stöðu málefna fatlaðs fólks, COSP-16, sem stendur yfir í New York. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskur ráðherra sækir aðildarríkjafundinn.

„Við skulum ekki bíða eftir að aðrir geri breytingar. Við skulum sjálf vera afl breytinga,“ sagði ráðherra þegar hann ávarpaði fundinn í gær fyrir hönd Íslands. Guðmundur Ingi undirstrikaði að fatlað fólki nyti ekki sömu mannréttinda og annað fólk. Það ætti við um allan heim. Þetta væri sorglegt, óviðunandi og þessu þyrfti að breyta. Aðildarríkin gegndu þar mikilvægu hlutverki.

Fram kom í máli ráðherra að í kortunum á Íslandi væri lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Til að tryggja farsæla innleiðingu samningsins væri nú unnið að gerð viðamikillar landsáætlunar í víðtæku samráði við sveitarfélög, félagasamtök og aðra hagaðila. 

Þá væri unnið að því að koma á fót sjálfstæðri mannréttindastofnun og fjölga fjölbreyttum atvinnutækifærum og hlutastörfum. Heildarendurskoðun á örorku- og endurhæfingarlífeyriskerfinu á Íslandi stæði auk þess yfir.

Ásamt ráðherra er allstór hópur Íslendinga á fundinum, þ.m.t. réttindagæslumaður fatlaðs fólks, formenn bæði ÖBÍ réttindasamtaka og Þroskahjálpar auk fleira starfsfólks samtakanna og ungmennafulltrúar sömu samtaka. Ungmennafulltrúarnir tóku m.a. þátt í hliðarviðburði sem Ísland og Norræna ráðherranefndin héldu í sameiningu um þróun stafrænna lausna fyrir fatlað fólk. Á hliðarviðburðinum lögðu ungmennafulltrúarnir sérstaka áherslu á mikilvægi þess að ungt fatlað fólk séu virkir þátttakendur í mótun framtíðarinnar.

Tvíhliða fundur með erindreka aðalritara Sameinuðu þjóðanna

Á dagskrá ráðherra í dag eru tvíhliða fundir, meðal annars með Mariu Soledad Cisternas Reyes, sérlegum erindreka aðalritara Sameinuðu þjóðanna um fötlun og aðgengi.

Ísland stóð í gær fyrir vel sóttum hliðarviðburði í samstarfi við Norrænu ráðherranefndina. Tilefnið er áhersla Íslands á formennskuári sínu í Norrænu ráðherranefndinni á stafrænar lausnir fyrir fatlað fólk. Viðburðinum var streymt í gegnum UN Web TV og má nálgast upptökuna á vefnum.

Aðildarríkjafundinum lýkur á morgun, fimmtudaginn 15. júní.

Sjá einnig:

Guðmundur Ingi Guðbrandsson ásamt Sunnu Dögg Ágústsdóttur, ungmennafulltrúa Þroskahjálpar á fundinum, og Eiði Welding, ungmennafulltrúa ÖBÍ réttindasamtaka.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum