Hoppa yfir valmynd
28. október 2022 Utanríkisráðuneytið

Íslenskir hjálparstarfsmenn til aðstoðar í Pakistan

Tveir íslenskir hjálparstarfsmenn, Ólafur Loftsson og Orri Gunnarson, taka nú þátt í vatnshreinsiverkefni í Pakistan á vegum almannavarna Norðurlanda en kröftugar rigningar undanfarna mánuði hafa valdið þar einhverjum mestu flóðum í manna minnum. Hátt í tíu milljón manns hafa hrakist á flótta og hátt í tvö þúsund farist.  

Íslensku hjálparstarfsmennirnir eru hluti af ellefu manna sérhæfðri sveit Norðurlandabúa sem hefur aðsetur í Khipro, í Sindh héraði, um 350 kílómetra norðaustur af höfuðborginni Karachi. Þar sinna þeir færanlegri vatnshreinsistöð sem flutt var á staðinn frá Danmörku. Hreinsaðir eru 60 til 80 þúsund lítrar af vatni á dag sem síðan er annað hvort afhent heimafólki eða dreift á sérstaka vatnspósta í nágrenninu. Stöðin framleiðir um 60 til 70 þúsund lítra af hreinu vatni daglega, en það dugir sem drykkjarvatn fyrir tíu til tuttugu þúsund íbúa. 

Samtímis leggja hjálparstarfsmennirnir heimafólki lið við endurnýjun og viðhald búnaðar sem fyrir var á flóðasvæðunum. Þannig er leitast við að tryggja að heimafólk hafi áfram aðgang að hreinu vatni þegar danska neyðarstöðin verður flutt á brott, en hún þarf að vera til reiðu ef sambærilegt neyðarástand skapast annars staðar. 

Skortur á hreinu vatni er bráðdrepandi fylgifiskur flóða á heitum svæðum. Vatnselgurinn mengar hefðbundin vatnsból og þau verða gróðrastía fyrir hvers konar bakteríur og smitsjúkdóma. 

Enn hafast milljónir við í neyðarbúðum á flóðasvæðunum, þrátt fyrir að nú hafi loksins dregið úr tíu vikna linnulitlu úrhelli sem hófst í ágúst síðastliðnum. Vatn, sem safnast hefur fyrir, hefur enn ekki fundið sér farveg  og því eru heilu byggðarlögin enn umflotin.

  • Íslenskir hjálparstarfsmenn til aðstoðar í Pakistan - mynd úr myndasafni númer 1
  • Íslenskir hjálparstarfsmenn til aðstoðar í Pakistan - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

6. Hreint vatn og hreint
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum