Hoppa yfir valmynd
14. ágúst 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Endurnýjun sjúkrabílaflotans raungerist – 25 nýir bílar

Formleg afhending nýrra sjúkrabíla Rauða krossins á Íslandi fór fram í dag. Þar með raungerist endurnýjun sjúkrabílaflotans í samræmi við samkomulag Sjúkratrygginga Íslands og Rauða krossins á Íslandi frá 11. júlí á liðnu ári.

„Þetta er stór dagur sem markar tímamót í þjónustu við landsmenn á sviði sjúkraflutninga og skiptir jafnframt miklu máli fyrir þá sem sinna þessu mikilvæga verkefni“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Efnt var til útboðs um bílakaupin og átti fyrirtækið Fastus tilboðið sem skoraði hæst og var tekið. Bílarnir 25 eru af tegundinni Mercedes Benz Sprinter. Þeir eru stórir og rúmgóðir sem tryggir sjúklingum góðar aðstæður, auðveldar sjúkraflutningamönnum að sinna þeim um borð og eykur þannig öryggi þjónustunnar. Í útboðinu var áhersla lögð á að nýir bílar myndu uppfylla ströngustu kröfur sérfræðinga varðandi öryggi, aðbúnað og vinnuumhverfi.

Fyrstu fimm sjúkrabílarnir voru afhentir föstudaginn 17. júlí. Síðan þá hafa nýir bílar komið til landsins í hverri viku og er gert ráð fyrir að þeir verði allir komnir til landsins í september.

Smíði sjúkrabíla kallar á mikinn undirbúning og góð samskipti á milli allra sem að ferlinu koma. Skipaður var vinnuhópur til undirbúnings útboðsins og eftir að samningur við seljanda var undirritaðu , tók hluti hópsins virkan þátt samskiptum við byggingaraðila í Póllandi, ásamt fulltrúa Rauða krossins á Íslandi. Pólski framleiðandinn B.A.U.S. AT sá um smíði og nauðsynlegar breytingar á bílunum en Askja, umboðsaðili Mercedes Benz á Íslandi, mun annast þjónustu við bílana eftir að þeir koma til landsins.

Undirbúningur útboðs vegna kaupa á 25 sjúkrabílum til viðbótar er komið vel á veg.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum