Hoppa yfir valmynd
12. desember 2012 Utanríkisráðuneytið

Fimm íslenskir sérfræðingar vinna með Palestínumönnum

Fimm íslenskir sérfræðingar starfa nú á vegum íslenskra stjórnvalda í Mið-Austurlöndum hjá stofnunum Sameinuðu þjóðanna sem veita Palestínumönnum aðstoð. Starf sérfræðinganna er í samræmi við þá áherslu stjórnvalda að Íslendingar taki beinan þátt í alþjóðlegri aðstoð við Palestínumenn.

Íslensk stjórnvöld hafa aðstoðað yfirvöld í Palestínu vegna viðbúnaðar við afleiðingum jarðskjálfta. Sólveig Þorvaldsdóttir, sérfræðingur í viðlagastjórnun og fyrrverandi forstjóri Almannavarna, fór til starfa á skrifstofu Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP) í Ramallah í síðustu viku í því skyni. Þetta er í annað sinn sem Sólveig heldur til starfsdvalar á þessu svæði, en á síðasta ári kostuðu íslensk stjórnvöld starf hennar, sem fólst í því að gera tillögur að uppbyggingu almannavarna í Palestínu í samvinnu við palestínsk yfirvöld og Samræmingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum í Jerúsalem (OCHA). Í framhaldinu var þremur Palestínumönnum boðið til Íslands til að taka þátt í námskeiði um  viðbúnaðarstjórnun við Háskóla Íslands og verður það verkefni þeirra að færa þá þekkingu til landa sinna með aðstoð Sólveigar og stuðnings frá Íslandi á næstu mánuðum.

Íbúum á Gazasvæðinu hefur verið veittur stuðningur með starfi Margrétar Ragnar Hafsteinsdóttur hjúkrunarfræðings og sérfræðings í heilsugæslu síðustu tvö árin. Eftir hlé vegna átakanna síðustu vikur fór Margrét Rögn aftur til starfa á Gaza, m. a. til að vinna að mannúðarmálum og úttekt á ástandinu.
Margrét hefur starfað að mæðra- og ungbarnavernd á vegum Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), en mikil þörf hefur verið talin á að bæta hag  þeirra. UNICEF hefur m. a. verið í samstarfi við heilbrigðisráðuneyti Palestínu og hafa vonir staðið til að heimamenn taki við þeim verkefnum sem hún hefur undirbúið með þeim síðustu misseri. Tilgangi aðstoðarinnar telst náð þegar heimamenn geta sjálfir mætt sínum áskorunum um heilbrigðis- og félagslega þjónustu og stýrt framþróun þeirra.

Á árinu 2012 hafa einnig starfað þrír Íslendingar á skrifstofum Flóttamannahjálparinnar fyrir Palestínumenn, UNRWA,  í Amman, Beirút og Jerúsalem, þau Finnbogi Rútur Arnarson, Ágúst Flygenring, og Ragnheiður Kolsöe.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira