Hoppa yfir valmynd
20. júní 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 315/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 20. júní 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 315/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19050018

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 7. maí 2019 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. maí 2019, um að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. d-liður 1. mgr. 55. gr. og 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Með kærunni er þess óskað að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 70. gr. laga um útlendinga verði samþykkt. Til vara er þess krafist að málinu verði vísað aftur til Útlendingastofnunar til frekari rannsóknar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli vistráðningar með gildistíma frá 4. janúar 2016 til 10. desember 2016. Kærandi fékk síðar útgefið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara með gildistíma frá 17. janúar 2017 til 17. janúar 2018. Þann 4. desember 2017 sótti kærandi um endurnýjun þess leyfis. Kærandi og maki hennar fóru í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 8. júní 2018. Með bréfum Útlendingastofnunar, dags. 29. janúar 2019 og 5. febrúar 2019, var kæranda tilkynnt um að grunur hefði vaknað hjá stofnuninni um að til hjúskapar hennar og maka hefði hugsanlega verið stofnað til málamynda. Var kæranda veittur frestur til að leggja fram gögn eða andmæli.

Þann 15. mars 2019 barst Útlendingastofnun greinargerð frá kæranda. Með bréfi, dags. 8. apríl sl., óskaði stofnunin eftir frekari upplýsingum frá kæranda og þá var kæranda veittur frestur til að leggja fram gögn eða andmæli. Þann 15. apríl sl. barst Útlendingastofnun greinargerð frá kæranda. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. maí 2019, var umsókn kæranda um endurnýjun á dvalarleyfi synjað. Umboðsmaður kæranda móttók ákvörðunina þann 2. maí 2019. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 7. maí 2019 og þann 29. maí sl. barst greinargerð frá kæranda ásamt fylgiskjölum. Kærunefnd óskaði eftir frekari gögnum frá Útlendingastofnun þann 5. júní sl. og bárust þau degi síðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var m.a. komist að þeirri niðurstöðu að þar sem kærandi hefði ekki veitt réttar upplýsingar um ættingja sína hér á landi í tengslum við umsókn sína um dvalarleyfi vegna hjúskapar hefði hún af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögum um útlendinga, sbr. b-liður 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Af þeirri ástæðu var það mat Útlendingastofnunar að kærandi uppfyllti ekki það grunnskilyrði dvalarleyfis sem kveðið er á um í d-lið 1. mgr. 55. gr. laganna.

Þá komst stofnunin jafnframt að þeirri niðurstöðu að skilyrðum 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga væri fullnægt í máli kæranda, en rökstuddur grunur væri um að til hjúskapar kæranda og maka hennar hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla kæranda dvalarleyfis hér á landi. Vísaði stofnunin m.a. til þess að af viðtölum við kæranda og maka hennar mætti ráða að þau þekktu ekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvors annars og þá hefði maki kæranda skilið við fyrrverandi maka sinn hér á landi rétt eftir að sá síðarnefndi hafi öðlast íslenskan ríkisborgararétt. Var umsókn kæranda því synjað samkvæmt 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda eru gerðar margvíslegar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar. Meðal annars tekur kærandi fram að stofnunin hafi í hinni kærðu ákvörðun talið að kærandi hafi ekki veitt réttar upplýsingar um ættingja sína hér á landi í tengslum við meðferð umsóknar sinnar um dvalarleyfi. Hafi stofnunin því komist að þeirri niðurstöðu að kærandi hafi, af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi, gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögum um útlendinga, sbr. b. lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Því hafi stofnunin talið að kærandi uppfyllti ekki grunnskilyrði dvalarleyfis, sbr. d-lið 1. mgr. 55. gr. laganna. Kærandi telji að þessi niðurstaða Útlendingastofnunar eigi ekki við rök að styðjast og vísar m.a. til þess að inntak og notkun hugtaka eins og „ættingi“, „systir“ eða „frænka“ sé ekki það sama í íslensku tungumáli og [...] tungumáli. Þá hafi kærandi veitt umbeðnar skýringar til Útlendingastofnunar eins fljótt og auðið var. Ennfremur hafi tiltekin eyðublöð hjá Útlendingastofnun ekki falið í sér nægjanlegar leiðbeiningar.

Jafnframt telur kærandi að ekki geti komið til beitingar b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga í máli hennar nema um sé að ræða upplýsingar sem hafi mikilvæga þýðingu fyrir málið. Því sé ekki til að dreifa í máli kæranda. Vísar kærandi í þessu samhengi m.a. til lögskýringargagna við ákvæðið og úrskurðarframkvæmdar norsku kærunefndar útlendingamála. Þá telur kærandi að Útlendingastofnun hafi brotið gegn andmælarétti sínum, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með því að taka ekki fram í bréfum stofnunarinnar til kæranda, dags. 5. febrúar 2019 og 8. apríl sl., að ákvörðun í málinu kynni að vera reist á ákvæðum d-liðar 1. mgr. 55. gr. og b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Kærandi telji að gera verði ríkar kröfur til málsmeðferðar í máli sínu enda varði það stjórnarskrárvarin réttindi, m.a. rétt til fjölskyldulífs. Þá mótmælir kærandi þeirri niðurstöðu Útlendingastofnunar að skilyrði 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga hafi verið uppfyllt í máli sínu, þ.e. að rökstuddur grunur hafi verið til staðar um að til hjúskapar kæranda og maka hennar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla kæranda dvalarleyfis.

Kærandi leggur m.a. áherslu á að með ákvæði 70. gr. laga um útlendinga hafi verið lögfest réttindi manna til friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu sem njóti verndar 71. gr. íslensku stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Við túlkun á 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga beri að beita þröngri lögskýringu og þá er jafnframt vísað til úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 83/2019. Kærandi hafni þeim sjónarmiðum sem rakin séu í ákvörðun Útlendingastofnunar um að til hjúskapar hennar hafi verið stofnað til málamynda og færir m.a. fram skýringar á fyrri hjúskaparsögu maka kæranda, að framkvæmd túlkunar í viðtölum hjá Útlendingastofnun hafi verið ábótavant, og að kærendur þekki nægilega vel til atvika og atburða úr lífi hvors annars. Þá geti það ekki skipt meginmáli við mat skv. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga hvort kærandi eigi tvö frændsystkini á Íslandi eða hvort kærandi og maki hennar hafi búið saman fyrir stofnun hjúskapar. Vísar kærandi m.a. til þess að þau hafi dvalið reglulega saman frá upphafi sambands síns, að þau hafi búið saman í þrjú ár frá giftingu og að í mörgum ríkjum, þ.m.t. [...], sé það venjan að fólk hefji ekki búskap fyrr en það hefur gengið í hjúskap.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Eins og að framan greinir lýtur mál þetta að synjun Útlendingastofnunar á umsókn kæranda um endurnýjun á dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara. Fjallað er um endurnýjun dvalarleyfis í 57. gr. laga um útlendinga en þar segir m.a. í 1. mgr. að heimilt sé að endurnýja dvalarleyfi að fenginni umsókn ef skilyrðum leyfisins er áfram fullnægt. Niðurstaða Útlendingastofnunar er annars vegar byggð á því að kærandi uppfylli ekki grunnskilyrði dvalarleyfis þar sem fyrir liggi atvik sem geti valdið því að henni verði meinuð landganga eða dvöl samkvæmt ákvæðum laganna, sbr. d-lið 1. mgr. 55. gr. laganna. Niðurstaða Útlendingastofnunar er jafnframt byggð á því að kærandi hafi ekki rétt til dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar þar sem rökstuddur grunur sé uppi um að til hjúskapar hennar og maka hennar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla slíks leyfis, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga.

Í d-lið 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga segir nánar tiltekið að eitt af grunnskilyrðum dvalarleyfis sé að ekki liggi fyrir atvik sem valdið geta því að útlendingi verði meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt öðrum ákvæðum laga þessara. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. að þau atvik sem geti leitt til synjunar séu ákvæðin um frávísun og brottvísun en þau koma fram í XII. kafla laga um útlendinga.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er byggt á því að fyrir liggi atvik sem gætu leitt til brottvísunar kæranda samkvæmt b-lið 1. mgr. 98. gr. laganna en ákvæðið tekur til einstaklinga sem eru án dvalarleyfis. Í ljósi orðalags d-liðar 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd eingöngu unnt að beita skilyrðum 98. gr. laga um útlendinga sem afleiddum grunnskilyrðum dvalarleyfis vegna umsókna einstaklinga sem eru án dvalarleyfis. Fyrir liggur að kærandi sækist eftir endurnýjun dvalarleyfis síns og er heimilt að dvelja hér á landi samkvæmt fyrra dvalarleyfi þar til endanleg ákvörðun um endurnýjun liggur fyrir, sbr. 2. mgr. 57. gr. laga um útlendinga. Verður því í máli þessu að líta til 1. mgr. 99. gr. laganna þar sem fjallað er um brottvísun útlendings sem hefur dvalarleyfi. 

Í a-lið 1. mgr. 99. gr. laganna segir að heimilt sé að vísa útlendingi úr landi ef hann hefur brotið alvarlega eða margsinnis gegn einu eða fleiri ákvæðum laga þessara eða af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögum þessum. Af gögnum málsins er ljóst að ekki hefur verið fullkomið samræmi í svörum kæranda við spurningum Útlendingastofnunar um ættingja hennar hér á landi. Kemur m.a. fram í yfirlýsingu frá kæranda sem hún setti fram í tengslum við upphaflega umsókn hennar um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, dags. 21. september 2016, að hún eigi ekki neina ættingja hér á landi. Aftur á móti kvaðst hún í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 8. júní 2018 eiga frænku og frænda á Íslandi.

Þótt kærandi hafi gefið efnislega rangar upplýsingar þegar hún kvað að hún ætti ekki ættingja hér á landi er það mat nefndarinnar að um sé að ræða svo smávægilegt atriði að ekki væri unnt að brottvísa henni á þeim grundvelli, sbr. jafnframt 3. mgr. 102. gr. laganna. Því er það niðurstaða nefndarinnar að d-liður 1. mgr. 55. gr. laganna standi því ekki í vegi fyrir að kæranda verði veitt dvalarleyfi á Íslandi vegna hjúskapar.

Kemur þá til skoðunar hvort kærandi uppfylli skilyrði 70. gr. laga um útlendinga um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar.

Í 1. málsl. 8. mgr. 70. gr. segir að sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis og ekki sé sýnt fram á annað svo að óyggjandi sé veiti það þá ekki rétt til dvalarleyfis. Í athugasemdum sem fylgdu 70. gr. frumvarps þess er varð að lögum um útlendinga er fjallað um ýmis sjónarmið sem geta komið til skoðunar við mat á því hvort stofnað er til hjúskapar í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis. Þar kemur m.a. fram að líta beri til þess hvort aðilar hafi búið saman fyrir stofnun hjúskapar, aldursmunar, hvort þeir tali tungumál hvor annars, þekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvor annars og hjúskaparsögu viðkomandi maka og hvort hún veki grunsemdir hvað þetta varðar.

Af ákvörðun Útlendingastofnunar verður ráðið að niðurstaða stofnunarinnar um rökstuddan grun um að til hjúskapar kæranda og maka hennar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis sé byggð á nokkrum atriðum. Til dæmis að kærandi og maki hennar hafi gengið í hjúskap fjórum mánuðum eftir að maki hennar skildi við fyrri maka, að kærandi hafi ítrekað leynt því fyrir íslenskum stjórnvöldum að hún ætti ættingja hér á landi, að kærandi og maki hennar hennar hefðu ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar, að maki kæranda hafi skilið að lögum við þáverandi eiginkonu sínu hálfu ári eftir að hún öðlaðist íslenskan ríkisborgararétt, og af viðtölum við kæranda og maka hennar mætti ráða að þau þekktu ekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvors annars.

Eins og að framan greinir er í athugasemdum sem fylgdu 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga m.a. vísað til þess að hjúskaparsaga geti vakið rökstuddan grun um að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis. Í máli þessu liggur fyrir að maki kæranda skildi að lögum við þáverandi eiginkonu sína um hálfu ári eftir að hún öðlaðist íslenskan ríkisborgararétt. Að mati nefndarinnar verða þó ekki dregnar mjög víðtækar ályktanir af þessu enda telur nefndin að sú staðreynd að hálft ár leið frá því að þáverandi eiginkona kæranda öðlaðist ríkisborgararétt og þar til þau skildu að lögum ekki benda með skýrum hætti til þess að orsakasamhengi hafi verið þar á milli. Þá telur kærunefnd að fyrir hönd kæranda hafi verið færðar fram trúverðugar skýringar á þeirri atburðarás sem leiddi til þess að maki kæranda skildi við fyrri eiginkonu sína og tók saman við kæranda.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er jafnframt vísað til þess að kærandi og maki hennar þekki ekki til einstakra atvika í lífum hvors annars. Þannig hafi þau í viðtölum hjá stofnuninni m.a. ekki getað útskýrt nákvæmlega hvað þau ættu sameiginlegt, þeim hafi ekki borið saman um hversu margir hefðu verið í brúðkaupi þeirra eða hvort nýársfagnaður sem þau kynntust í hefði verið haldinn fyrir utan höfuðborgarsvæðið eða innan marka þess. Þá hafi þeim ekki borið saman um hvort bónorðið hafi verið borið upp inni á heimili þeirra eða í bíl fyrir utan það og hvort þau hefðu gerst vinir á Facebook fyrir eða eftir brúkaupið. Af endurriti umræddra viðtala telur kærunefnd ljóst að kærandi og maki hennar hafi verið nánast samhljóða um ýmis atriði sem hafa meiri þýðingu fyrir líf þeirra, svo sem heimilishald, fjárhagsmálefni og áhugamál. Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að ekki verði dregin sú ályktun af gögnum málsins að kærandi og maki hennar þekki ekki til atriða eða atvika sem máli skipta í lífi hvors annars. Þá fær kærunefnd ekki séð að upplýsingagjöf frá kæranda um ættingja hennar hér á landi renni stoðum undir að til hjúskapar hennar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla henni dvalarleyfi hér á landi.

Þá leggur nefndin áherslu á að umsókn sú sem mál þetta lýtur að varðar endurnýjun á dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar. Ekki liggur annað fyrir í málinu en að kærandi og maki hennar hafi búið saman á meðan á gildistíma fyrra dvalarleyfis hennar stóð. Í því sambandi vísar nefndin í áðurnefnd svör kæranda og maka hennar í viðtölum hjá Útlendingastofnun og í bókun í dagbók lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 12. febrúar 2018, þar sem fram kemur að lögregluþjónar hafi heimsótt heimili þeirra þar sem þau hafi bæði verið heima og ekki annað hægt að sjá en að þau væru saman. Um þessa bókun er ekki fjallað um í ákvörðun Útlendingastofnunar þrátt fyrir að hún hafi verið á meðal gagna málsins og gerir kærunefnd við það athugasemd.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála að hjúskaparsaga maka kæranda og aldursmunur milli kæranda og maka hennar, sem samkvæmt gögnum málsins er ellefu ár, veki ekki nægar grunsemdir um að til hjúskaparins hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla kæranda dvalarleyfi, sbr. 8. mgr. 70. gr. og 1. mgr. 57. gr. laga um útlendinga. Verður því ekki talið að ákvæðin standi því í vegi að dvalarleyfi kæranda hér á landi verði endurnýjað.

Í ljósi framangreinds er ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the applicant’s case.

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                  Anna Valbjörg Ólafsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum