Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Leiðrétting á rangfærslum um greiðslur lífeyrisþega; engar endurkröfur

Alþingishúsið
Alþingishúsið

Leiðrétting Alþingis á mistökum sem urðu þegar breytingar voru gerðar á lögum um almannatrygginga 25. október sl. munu ekki hafa neinar afleiðingar í för með sér fyrir lífeyrisþega, líkt og ranglega er haldið fram í yfirlýsingu sem ASÍ sendi frá sér í gær. Engar ofgreiðslur hafa átt sér stað og engan þarf að krefja um endurgreiðslur.

Alþingi gerði sl. haust breytingu á lögum um almannatryggingar sem laut m.a. að einföldun bótakerfisins. Með lagabreytingunni voru bótaflokkar sameinaðir. Einnig voru frítekjumörk vegna tekna ellilífeyrisþega sameinuð, þannig að ekki skipti máli hvort um væri að ræða atvinnutekjur, greiðslur úr lífeyrissjóðum eða fjármagnstekjur.

Meginreglan samkvæmt lögum um almannatryggingar er sú að allar tekjur lífeyrisþega hafa áhrif á útreikning bóta. Frá því eru þó undantekningar, þar sem um er að ræða greiðslur úr séreignalífeyrissparnaði og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga.

Við lagasetningu Alþingis urðu þau mistök að greiðslur úr lífeyrissjóðum féllu í flokk með fyrrnefndum undantekningum í tiltekinni lagagrein. Vilji löggjafans var engu að síður skýr og framkvæmd laganna hefur verið í samræmi við fyrrgreinda meginreglu við útreikninga á greiðslum til lífeyrisþega. Í gær samþykkti Alþingi svo breytingu á lögunum sem fellur að meginreglunni og framkvæmd laganna.

Eins og að framan greinir hafa engar ofgreiðslur átt sér stað og lífeyrisþegar verða ekki fyrir neinum óþægindum af þessu máli.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum