Hoppa yfir valmynd
14. mars 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Vestnorrænir heilbrigðisráðherrar funduðu í Færeyjum

Heilbrigðisráðherrarnir Martha Abelsen, Sirið Stenberg og Svandís Svavarsdóttir kynna sér lyfjaframleiðslu í Produktionsapoteket - myndHeilbrigðisráðuneytið

Lyfjamál og mönnun heilbrigðisþjónustunnar voru þau málefni sem hæst bar á árlegum tveggja daga fundi heilbrigðisráðherra Íslands, Færeyja og Grænlands sem lauk í Færeyjum í gær. Ráðherrarnir ræddu meðal annars möguleika á samstarfi við menntun heilbrigðisstarfsfólks og mönnun heilbrigðisþjónustunnar.

 

Á fundum ráðherranna ræða þeir jafnan helstu áherslumál sín, viðfangsefni og áskoranir. Allir töluðu þeir um gildi forvarna fyrir heilbrigðiskerfi framtíðarinnar og hve mikilvægt er að vinna að markvissu forvarnarstarfi, bæði gagnvart einstaklingum og samfélaginu í heild.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði á fundinum frá þeirri vinnu sem lögð hefur verið í mótun heilbrigðisstefnu fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu í ráðherratíð hennar og gerði stuttlega grein fyrir stefnunni og helstu áherslum hennar. Martha Abelsen heilbrigðisráðherra Grænlands sagði frá samþættingu á sviði heilbrigðis- og félagsmála sem hefur verið áherslumál þar í landi. Sirið Stenberg heilbrigðisráðherra Færeyja fjallaði um uppbyggingarstarf á sviði sjúkrahússþjónustu og áætlun þar að lútandi sem verið er að innleiða og sagði frá undirbúningi að stofnun sérstaks embættis lýðheilsumála í Færeyjum.

Þjóðirnar þrjár standa að verulegu leyti frammi fyrir sambærilegum áskorunum á sviði heilbrigðismála. Lyfjamál, ekki hvað síst ört vaxandi útgjöld á því sviði vega þar þungt og sömuleiðis vandinn við að manna heilbrigðisþjónustuna með nægum fjölda menntaðs heilbrigðisstarfsfólks. Ráðherrarnir ræddu um að skoða þurfi nýjar lausnir til að bregðast við mönnunarvandanum og ræddu þar meðal annars um möguleika líkt og áður segir.

Meðan á Færeyjaheimsókninni stóð heimsóttu ráðherrarnir og fylgdarlið þeirra meðal annars Landssjúkrahús Færeyja í Þórshöfn og skoðuðu yfirstandandi byggingaframkvæmdir við sjúkrahúsið, auk þess að heimsækja Produktionsapoteket þar sem sagt var frá þeirri lyfjaframleiðslu sem fram fer í Færeyjum og framtíðarsýn Færeyinga á því sviði.

Næsti fundur ráðherrannan verður að ári í Grænlandi en í fyrra funduðu þeir hér á landi.

  • Fánar Íslands, Færeyja og Grænlands - mynd
  • Ráðherrarnir í Norðurlandahúsinu í Þórshöfn - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum