Hoppa yfir valmynd
19. ágúst 2002 Félagsmálaráðuneytið

Samþykkt nr. 11 um félagafrelsi landbúnaðarverkafólks

Samþykktir ILO sem Ísland hefur fullgilt


Samþykkt nr. 11 um félagafrelsi landbúnaðarverkafólks

    Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, saman komið til 3. þingsetu sinnar í Genf 25. október 1921 samkvæmt kvaðningu stjórnar Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, hefur ákveðið að gera í formi alþjóðasamþykktar ákveðnar tillögur um félagafrelsi landbúnaðarverkafólks, sem er undir 4. dagskrárlið þingsins, og því gerir það eftirfarandi samþykkt, sem nefna má Samþykkt um félagafrelsi landbúnaðarverkafólks 1921, og aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar geta fullgilt í samræmi við ákvæði stjórnarskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar:


1. gr.

     Hvert það aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem fullgildir þessa samþykkt, skuldbindur sig til þess að tryggja þeim, sem starfa við landbúnað, sama rétt til félagafrelsis og iðnverkamenn njóta og að afnema öll þau lagaákvæði eða önnur ákvæði, er takmarka þennan rétt að því er varðar þá, sem vinna í landbúnaði.


2. gr.

     Formlegar fullgildingar á þessari samþykkt, sem gerðar skulu eftir fyrirmælum stjórnarskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, skulu sendar framkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar.


3. gr.

     1. Samþykkt þessi gengur í gildi, þegar framkvæmdastjórinn hefur skráð fullgildingar tveggja aðildarríkja Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

     2. Hún skal þá einungis bindandi fyrir þau aðildarríki, sem látið hafa Alþjóðavinnumálaskrifstofuna skrá fullgildingar sínar.

     3. Síðan skal samþykktin ganga í gildi, að því er snertir hvert einstakt aðildarríki, um leið og fullgilding þess hefur verið skráð hjá Alþjóðavinnumálaskrifstofunni.


4. gr.

     Þegar, er fullgildingar tveggja aðildarríkja Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hafa verið skráðar hjá Alþjóðavinnumálaskrifstofunni, skal framkvæmdastjóri hennar tilkynna það öllum aðildarríkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Einnig skal hann tilkynna þeim skráningu þeirra fullgildinga, sem önnur aðildarríki kunna að senda honum síðar.


5. gr.

     Að teknu tilliti til ákvæða 3. gr. samþykkir hvert aðildarríki, sem fullgildir samþykkt þessa, að koma ákvæðum 1. gr. í framkvæmd eigi síðar en 1. janúar 1924 og að gera þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til þess að gera þessi ákvæði raunhæf.


6. gr.

     Hvert það aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem fullgildir þessa samþykkt, skuldbindur sig til þess að láta hana ná til nýlendna þess, ósjálfstæðra landsvæða og gæzluverndarsvæða í samræmi við ákvæði 35. gr. stjórnarskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.


7. gr.

     Aðildarríki, sem hefur fullgilt þessa samþykkt, getur sagt henni upp að tíu árum liðnum frá fyrstu gildistöku hennar. Tilkynningu um uppsögn skal senda framkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar. Slík uppsögn skal ekki ganga í gildi fyrr en ár er liðið, síðan hún var skráð hjá Alþjóðavinnumálaskrifstofunni.


8. gr.

     Stjórn Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal a.m.k. einu sinni á hverju tíu ára tímabili gefa allsherjarþinginu skýrslu um áhrif samþykktar þessarar og athuga, hvort æskilegt sé að taka á dagskrá þingsins endurskoðun eða breytingar á henni.


9. gr.

     Franski og enski texti þessarar samþykktar skulu báðir löggildir.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira