Hoppa yfir valmynd
31. júlí 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samþykkt nr. 138 um lágmarksaldur við vinnu

Samþykktir ILO sem Ísland hefur fullgilt

Samþykkt nr. 138 um lágmarksaldur við vinnu

Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, er kom saman til 58. þingsetu sinnar í Genf hinn 6. júní 1973 eftir kvaðningu stjórnar Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar,

     hefur samþykkt ákveðnar tillögur um lágmarksaldur við vinnu,

     gefur gaum að ákvæðum Samþykktar um lágmarksaldur í iðnaði, 1919, Samþykktar um lágmarksaldur við sjómennsku. 1920, Samþykktar um lágmarksaldur í landbúnaði, 1921, Samþykktar um lágmarksaldur kyndara og kolamokara, 1921, Samþykktar um lágmarksaldur við önnur störf en iðnað, 1932, Samþykktar um lágmarksaldur við sjómennsku, endurskoðuð 1936, Samþykktar um lágmarksaldur í iðnaði, endurskoðuð 1937, Samþykktar um lágmarksaldur við önnur störf en iðnað, endurskoðuð 1937, Samþykktar um lágmarksaldur fiskimanna, 1959 og Samþykktar um lágmarksaldur við vinnu neðanjarðar, 1965,

     telur tímabært að setja almenn ákvæði um þetta efni, sem smám saman kæmu í stað þeirra, sem nú gilda og taka til afmarkaðra greina atvinnulífsins, með það fyrir augum að útrýma vinnu barna algjörlega, og

     þar sem þingið hefur ákveðið að þessar reglur skuli settar í formi alþjóðasamþykktar, gerir þingið í dag hinn 26. júní 1973 eftirfarandi samþykkt, sem nefnist Samþykkt um lámarksaldur, 1973:


1. gr.

     Hvert það aðildarríki, sem bundið er af samþykkt þessari, skuldbindur sig til þess að fylgja stefnu, sem miðar að því að tryggja raunverulega afnám barnavinnu og að hækka smám saman lágmarksaldur við vinnu eða störf að því marki, sem er í fyllsta samræmi við líkamlegan og andlegan þroska ungmenna.


2. gr.

1. Hvert það aðildarríki, sem hefir fullgilt samþykkt þessa, skal með yfirlýsingu, er fylgi fullgildingarskjali þess, tiltaka lágmarksaldur við vinnu eða starf í landi þess og á samgöngutækjum, sem skrásett eru þar. Með þeim undantekningum, sem um ræðir í 4.–8. gr. þessarar samþykktar, skal enginn undir þeim aldri tekinn í vinnu eða starf í neinni starfsgrein.

2. Hvert það ríki, sem hefir fullgilt samþykkt þessa, getur síðar tilkynnt framkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar að það tiltaki hærri lágmarksaldur en það hafði áður gert.

3. Sá lágmarksaldur, sem tiltekinn er skv. 1. tölul. þessarar greinar skal ekki vera lægri en lokaaldur skólaskyldu og aldrei lægri en 15 ár.

4. Þrátt fyrir ákvæði 3. tölul. þessarar greinar, getur aðildarríki, sem býr við vanþróaðan efnahag og menntunarskilyrði, tiltekið í fyrstu 14 ára lágmarksaldur, að höfðu samráði við samtök vinnuveitenda og verkamanna þar sem þau eru til.

5. Hvert það aðildarríki, sem tiltekið hefur 14 ára lágmarksaldur í samræmi við ákvæði næsta töluliðs hér að framan, skal setja í skýrslur sínar um framkvæmd samþykktarinnar, sem gefnar eru skv. 22. gr. Stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, yfirlýsingu um það,

     a. að ástæðan til þess sé enn fyrir hendi, eða

     b. að það afsali sér réttinum til að færa sér í nyt umrætt ákvæði frá tilteknum degi að telja.


3. gr.

1. Lágmarksaldur við hvers konar vinnu eða starf, sem í eðli sínu er vegna aðstæðna við framkvæmd þess er líklegt til að stofna í hættu heilbrigði, öryggi eða siðgæði ungmenna, skal ekki vera lægri en 18 ár.

2. Þær tegundir vinnu eða starfs, sem 1. tölul. þessarar greinar tekur til, skulu tilteknar í lögum eða reglugerðum eða af hlutaðeigandi stjórnvaldi að höfðu samráði við samtök vinnuveitenda og verkamanna, sem hlut eiga að máli, þar sem þau eru til.

3. Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. þessarar greinar geta lög eða reglugerðir eða hlutaðeigandi stjórnvald, að höfðu samráði við samtök vinnuveitenda og verkamanna, sem hlut eiga að máli, þar sem þau eru til, leyft vinnu eða störf ungmenna frá 16 ára aldri með því skilyrði, að heilbrigði, öryggi og siðgæðis hlutaðeigandi ungmenna sé fyllilega gætt og að ungmennin hafi fengið nægilega sérhæfða leiðsögn eða starfsþjálfun í starfsgrein þeirri, sem um er að ræða.


4. gr.

1. Að svo miklu leyti sem nauðsyn krefur getur hlutaðeigandi stjórnvald að höfðu samráði við samtök vinnuveitenda og verkamanna, sem hlut eiga að máli, undanskilið ákvæðum samþykktar þessarar takmarkaðar greinar vinnu eða starfs, ef það er sérstökum og verulegum vandkvæðum bundið að beita þeim ákvæðum í þeim greinum.

2. Hvert það aðildarríki, sem fullgildir samþykkt þessa, skal í fyrstu skýrslu sinni um framkvæmd hennar, sem gefin er skv. 22. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, tiltaka allar þær greinar, sem kunna að hafa verið undanskildar skv. 1. tölul. þessarar greinar og ástæður til þess. Í síðari skýrslum skal það skýra frá því hversu háttað er lögum þess og framkvæmd að því er varðar þær greinar, sem undanskildar hafa verið og að hve miklu leyti samþykktinni hefur verið framfylgt eða fyrirhugað er að framfylgja henni að því er varðar þær greinar.

3. Vinna eða starf, sem 3. gr. samþykktar þessarar tekur til, skal ekki undanskilið framkvæmd samþykktarinnar samkvæmt þessari grein.


5. gr.

1. Nú er efnahagur og opinber þjónusta aðildarríkis ekki komin á nægilega hátt stig og getur það þá, að höfðu samráði við samtök vinnuveitenda og verkamanna, sem hlut eiga að máli, þar sem þau eru til, takmarkað í fyrstu gildissvið samþykktar þessarar.

2. Hvert það aðildarríki, sem hefur fært sér í nyt ákvæði 1. tölul. þessarar greinar, skal tilgreina í yfirlýsingu, er fylgi fullgildingarskjali þess, þær greinar atvinnulífs eða tegundar starfsemi, sem það lætur ákvæði samþykktarinnar taka til.

3. Ákvæði samþykktarinnar skulu að minnsta kosti taka til eftirtalinna greina: Námugröftur og grjótnám, iðnaður, byggingavinna, rafmagns-, gas- og vatnsveitur, heilbrigðisþjónusta, flutningar, vörugeymsla og samgöngur, svo og plantrekubúskapur og annar landbúnaður, sem aðallega framleiðir til sölu, en ekki fjölskyldubúskapur, sem framleiðir til staðbundinnar neyslu og hefur ekki að staðaldri launað starfsfólk í þjónustu sinni.

4. Hvert það aðildarríki, sem hefur takmarkað gildissvið þessarar samþykktar í samræmi við þessa grein:

     a. skal í skýrslum sínum, sem gefnar eru skv. 22. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, skýra frá ástandinu almennt að því er tekur til vinnu ungmenna og barna í starfsgreinum, sem undanskildar eru gildissviði samþykktar þessarar, og hverjum þeim framförum, sem orðið hafa í átt til víðtækari beitingar ákvæða samþykktarinnar;

     b. getur hvenær sem er formlega aukið gildissvið samþykktarinnar með yfirlýsingu stílaðri til framkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar.


6. gr.

     Samþykkt þessi tekur ekki til vinnu barna eða ungmenna í skólum vegna almennrar, starfslegrar eða tæknilegrar menntunar eða í öðrum þjálfunarstofnunum, né til vinnu barna, sem eldri eru en 14 ára, á vinnustöðum þar sem slík vinna er unnin við skilyrði, sem ákveðin eru af hlutaðeigandi stjórnvaldi að höfðu samráði við samtök hlutaðeigandi vinnuveitenda og launþega, þar sem þau eru til, enda sé starfið nauðsynlegur þáttur í:

     a. námi eða þjálfun, sem skóli eða þjálfunarstofnun ber aðallega ábyrgð á,

     b. áætlun um þjálfun, sem aðallega eða einungis fer fram í fyrirtæki, enda hafi hlutaðeigandi stjórnvald samþykkt áætlun þess, eða

     c. áætlun um leiðsögn eða fræðslu, er miði að því að létta val á starfi eða þjálfunarbraut.


7. gr.

1. Landslög eða reglugerðir geta leyft að ungmenni á aldinum 13–15 ára vinni létt störf, sem

     a. ekki eru líkleg til þess að skaða heilsu þeirra eða þroska, og

     b. ekki draga úr skólagöngu þeirra, þátttöku í starfskynningu eða námskeiðum, sem viðurkennd eru af hlutaðeigandi stjórnvaldi, eða getu þeirra til að njóta fræðslu, sem þeim er veitt.

2. Landslög eða reglugerðir geta einnig leyft að ungmenni, sem orðin eru 15 ára, en hafa ekki lokið skólaskyldu, vinni störf, sem fullnægja þeim skilyrðum, sem sett eru í stafliðum a og h í 1. tölul. þessarar greinar.

3. Hlutaðeigandi stjórnvald skal ákveða í hvaða starfsgreinum megi leyfa vinnu skv. 1. og 2. tölul. þessarar greinar. Það skal einnig tiltaka lengd vinnutímans og vinnuskilyrði í slíkri vinnu.

4. Þrátt fyrir ákvæðin í 1. og 2. tölul. þessarar greinar, getur aðildarríki, sem notfærir sér ákvæði 4. tölul. 2. gr., svo lengi sem það gerir svo, sett aldursmörkin 12 og 14 í stað aldursmarkanna 13 og 15 í 1. tölul. og aldursmarkið 14 í stað 15 í 2. tölul. þessarar greinar.


8. gr.

1. Að höfðu samráði við samtök hlutaðeigandi vinnuveitenda og verkamanna, þar sem þau eru til, getur hlutaðeigandi stjórnvald í einstökum tilvikum leyft undanþágur frá vinnubanninu í 2. gr. þessarar samþykktar vegna þátttöku í listrænum sýningum.

2. Í slíkum leyfum skal setja takmörk um fjölda vinnustunda og kveða á um vinnuskilyrði.


9. gr.

1. Hlutaðeigandi stjórnvald skal gera allar nauðsynlegar ráðstafanir þ.á m. setja hæfileg viðurlög til þess að tryggja raunhæfa framkvæmd ákvæða þessarar samþykktar.

2. Landslög eða reglugerðir eða hlutaðeigandi stjórnvald skulu tiltaka hverjir ábyrgð beri á því að ákvæðum samþykktarinnar sé framfylgt.

3. Landslög, reglugerðir eða hlutaðeigandi stjórnvald skulu kveða á um skrár eða aðrar skýrslur, sem vinnuveitandi skal halda og hafa til reiðu. Skrár þessar eða skýrslur skulu greina nöfn og aldur eða fæðingardag manna, sem hann hefur í þjónustu sinni eða vinnu fyrir hann og yngri eru en 18 ára. Skulu þessar upplýsingar staðfestar þar sem því verður við komið.


10. gr.

1. Í samræmi við skilyrði þessarar greinar breytir þessi samþykkt eftirtöldum samþykktum: Samþykkt um lágmarksaldur í iðnaði, 1919, Samþykkt um lágmarksaldur við sjómennsku, 1920, Samþykkt um lágmarksaldur við landbúnað, 1921, Samþykkt um lágmarksaldur kyndara og kolamokara, 1921, Samþykkt um lágmarksaldur við önnur störf en iðnað, 1932, Samþykkt um lágmarksaldur við sjómennsku, endurskoðuð 1936, Samþykkt um lágmarksaldur í iðnaði, endurskoðuð 1937, Samþykkt um lágmarksaldur við önnur störf en iðnað, endurskoðuð 1937, Samþykkt um lágmarksaldur fiskimanna, 1959, og Samþykkt um lágmarksaldur við vinnu neðanjarðar í námum, 1965.

2. Gildistaka þessarar samþykktar kemur ekki í veg fyrir frekari fullgildingar á Samþykkt um lágmarksaldur við sjómennsku, endurskoðuð 1936, Samþykkt um lágmarksaldur í iðnaði, endurskoðuð 1937, Samþykkt um lágmarksaldur við önnur störf en iðnað, endurskoðuð 1937, Samþykkt um lágmarksaldur fiskimanna, 1959, eða Samþykkt um lágmarksaldur við vinnu neðanjarðar í námum, 1965.

3. Samþykkt um lágmarksaldur í iðnaði, 1919, Samþykkt um lágmarksaldur við sjómennsku, 1920, Samþykkt um lágmarksaldur við landbúnað, 1921, og Samþykkt um lágmarksaldur kyndara og kolamokara, 1921, skal ekki unnt að fullgilda eftir að allir aðilar að þeim hafa samþykkt það með því að fullgilda þessa samþykkt eða með yfirlýsingu til framkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar.

4. Þegar gengist hefur verið undir skuldbindingar þessarar samþykktar

     a. af aðildarríki, sem er aðili að Samþykktinni um lágmarksaldur í iðnaði, 1937, og lágmarksaldur, sem ekki er lægri en 15 ár er ákveðinn í samræmi við 2. gr. þessarar samþykktar, skal það ipso jure hafa í för með sér tafarlausa uppsögn þeirrar samþykktar,

     b. að því er varðar önnur störf en iðnaði, eins og þau eru skilgreind í Samþykktinni um lágmarksaldur við önnur störf en iðnað, 1932, skal það ipso jure hafa í för með sér tafarlausa uppsögn þeirrar Samþykktar af hendi aðildarríkis, sem er aðili að henni,

     c. að því er varðar önnur störf en iðnað eins og þau eru skilgreind í Samþykktinni um lágmarksaldur við önnur störf en iðnað, endurskoðuð 1937, af aðildarríki, sem er aðili að þeirri samþykkt, og lágmarksaldur, sem ekki er lægri en 15 ár er ákveðinn í samræmi við 2. gr. þessarar samþykktar, skal það hafa í för með sér tafalausa uppsögn þeirrar samþykktar,

     d. að því er varðar vinnu á skipum, af aðildarríki, sem er aðili að Samþykktinni um lágmarksaldur við sjómennsku, endurskoðuð 1936, og lágmarksaldur, sem ekki er lægri en 15 ár hefur verið ákveðinn í samræmi við 2. gr. þessarar samþykktar, ellegar að aðildarríkið ákveði að 3. gr. þessarar samþykktar taki til sjómennsku, þá skal það ipso jure hafa í för með sér tafarlausa uppsögn þeirrar samþykktar,

     e. að því er varðar fiskveiðar í sjó, af aðildarríki, sem er aðili að Samþykktinni um lágmarksaldur fiskimanna, 1959, og lágmarksaldur, sem ekki er lægri en 15 ár hefur verið ákveðinn í samræmi við 2. gr. þessarar samþykktar, ellegar að aðildarríkið ákveði að 3. gr. þessarar samþykktar taki til vinnu við fiskveiðar á sjó, þá skal það ipso jure hafa í för með sér tafarlausa uppsögn þeirra samþykktar,

     f. af aðildarríki, sem er aðili að Samþykktinni um lágmarksaldur við vinnu neðanjarðar, 1965, og lágmarksaldur, sem eigi sé lægri en aldur ákveðinn í samræmi við þá samþykkt sé ákveðinn í samræmi við 2. gr. þessarar samþykktar, ellegar að aðildarríkið ákveði að slíkt aldurstakmark gildi um vinnu neðanjarðar í námum í samræmi við 3. gr. þessarar samþykktar og skal það þá hafa í för með sér tafarlausa uppsögn þeirrar samþykktar, ef þessi samþykkt öðlast gildi og þá frá þeim tíma, er það gerðist.

5. Viðurkenning skuldbindinga þessarar samþykktar

     a. felur í sér uppsögn Samþykktarinnar um lágmarksaldur í iðnaði, 1919, í samræmi við 12. gr. hennar,

     b. að því er varðar landbúnað, felur í sér uppsögn samþykktarinnar um lágmarksaldur í landbúnaði, 1921, í samræmi við 9. gr. hennar,

     c. að því er varðar sjómennsku, felur í sér uppsögn Samþykktarinnar um lágmarksaldur við sjómennsku, 1920, í samræmi við 10. gr. hennar, og Samþykktarinnar um lágmarksaldur kyndara og kolamokara í samræmi við 12. gr. hennar, ef þessi samþykkt öðlast gildi og þá frá þeim tíma, er það gerðist.


11.–18. gr.

Samhljóða 8.–15. gr. samþykktar nr. 137 hér að framan.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum