Hoppa yfir valmynd
31. júlí 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samþykkt nr. 139 um varnir gegn og eftirlit með áhættu í starfi vegna efna, sem valda krabbameini

Samþykktir ILO sem Ísland hefur fullgilt

Samþykkt nr. 139 um varnir gegn og eftirlit með áhættu í starfi vegna efna, sem valda krabbameini

Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, er kom saman til 59. þingsetu sinnar í Genf hinn 5. júní 1974 eftir kvaðningu stjórnar Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, minnist ákvæða Samþykktar og tillögu um varnir gegn geislun frá 1960 og Hensensamþykktarinnar og tillögu frá 1971, telur æskilegt að setja alþjóðlegar reglur um varnir gegn efnum, sem valda krabbameini, gefur gaum að því starfi, sem aðrar alþjóðastofnanir hafa innt af hendi á þessu sviði, einkum Alþjóðaheilbrigðisstofnunin og Alþjóðlega krabbameinsrannsóknastofnunin, sem Alþjóðavinnumálastofnunin hefur samvinnu við, og hefur samþykkt ákveðnar ábendingar varðandi eftirlit með og varnir gegn áhættu í starfi vegna efna, sem valdið geta krabbameini, en það er fimmta mál á dagskrá þessa þings, og þar sem þingið hefur ákveðið að þessar ábendingar skuli gerðar í formi alþjóðasamþykktar gerir það í dag, hinn 24. júní 1974 eftirfarandi samþykkt, sem nefnist Samþykkt um krabbamein sem atvinnusjúkdóm, 1974:


1. gr.

     1. Sérhvert aðildarríki, sem fullgildir þessa samþykkt, skal á tilteknum fresti ákvarða hvaða efni, sem valda krabbameini, skuli bönnuð í atvinnulífinu, eða skuli háð sérstökum leyfum eða eftirliti svo og til hverra þeirra önnur ákvæði þessarar samþykktar skuli taka.

     2. Undanþágur frá banni má einungis veita með útgáfu leyfis, sem í hverju tilviki greini þau skilyrði, sem uppfylla þarf.

     3. Þegar teknar eru ákvarðanir skv. 1. mgr. þessarar greinar skal tekið tillit til nýjustu upplýsinga, sem birtast í starfsreglum eða leiðbeiningum, sem Alþjóðavinnumálaskrifstofan kann að hafa sett, svo og upplýsinga frá öðrum hlutgengum stofnunum.


2. gr.

     Sérhvert aðildarríki, sem fullgildir þessa samþykkt, skal gera allt, sem unnt er, til þess, að í stað efna, sem valda krabbameini og verkað geta á verkamenn við vinnu þeirra, sé tekin upp notkun efna, sem ekki hafa slíka hættu í för með sér eða eru síður skaðleg. Þegar valin eru slík efni í stað annarra skal meta eiginleika þeirra til að valda krabbameini, eitrun og fleira.


3. gr.

     Sérhvert aðildarríki, sem fullgildir þessa samþykkt, skal kveða á um aðgerðir, sem gerðar skuli til verndar verkamönnum gegn hættu frá efnum, sem valda krabbameini og sjá til þess að viðeigandi skrásetningarkerfi sé komið á fót.


4. gr.

     Sérhvert aðildarríki, sem fullgildir þessa samþykkt, skal gera ráðstafanir til þess að verkamenn, sem hafa verið, eru eða komast sennilega í snertingu við efni, sem valda krabbameini, fái allar upplýsingar, sem völ er á um hættuna, sem af þeim stafar, og þær ráðstafanir, sem gera þarf.


5. gr.

     Sérhvert aðildarríki, sem fullgildir þessa samþykkt, skal gera ráðstafanir til þess að öruggt sé að verkamenn fái læknisskoðanir eða rannsóknir líffræðilegs eða annars eðlis meðan þeir eru í starfi og síðar eftir því sem þörf er á, til þess að meta hættuna, sem þeir eru í og til þess að hafa eftirlit með heilsu þeirra í sambandi við áhættuna í starfi þeirra.


6. gr.

     Sérhvert aðildarríki, sem fullgildir þessa samþykkt,

a. skal með lögum eða reglugerðum eða með öðrum þeim hætti, sem samrýmist venjum í landinu og í samráði við aðalsamtök atvinnurekenda og verkamanna, sem hlut eiga að máli, gera þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til þess að framfylgja ákvæðum þessarar samþykktar;

b. skal, í samræmi við venju í landinu, tilnefna þá menn, eða þær stofnanir, sem skylt er að framfylgja ákvæðum samþykktarinnar;

c. skuldbindur sig til þess að annast viðeigandi eftirlit með framkvæmd þessarar samþykktar eða tryggja það, að fullnægjandi eftirliti sé beitt.

7. gr.

     Formlegar fullgildingar á þessari samþykkt skuli sendar framkvæmdastjóra Al-þjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar.


8. gr.

     1. Þessi samþykkt skal einungis bindandi fyrir þau aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem hafa látið framkvæmdastjórann skrá fullgildingar sínar.

     2. Hún gengur í gildi tólf mánuðum eftir að fullgildingar tveggja aðildarríkja hafa verið skráðar hjá framkvæmdastjóranum.

     3. Síðan gengur þessi samþykkt í gildi, að því er snertir hvert aðildarríki, tólf mánuðum eftir að fullgilding þess hefur verið skráð.


9. gr.

     1. Aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa, getur sagt henni upp að liðnum tíu árum frá fyrstu gildistöku hennar. Tilkynningu um uppsögn skal senda framkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar. Slík uppsögn öðlast ekki gildi fyrr en ár er liðið frá skrásetningardegi hennar.

     2. Hvert það aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa, en notfærir sér ekki innan árs frá lokum tíu ára tímabilsins, sem um getur í fyrri tölulið, rétt þann til uppsagnar, sem kveðið er á um í þessari grein, skal bundið af henni í annað tíu ára tímabil, og síðan getur það sagt þessari samþykkt upp að loknu hverju tíu ára tímabili í samræmi við ákvæði þessarar greinar.


10. gr.

     1. Framkvæmdastjóri Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal tilkynna öllum aðildarríkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar skráningu allra fullgildinga og uppsagna, sem aðildarríki stofnunarinnar hafa sent honum.

     2. Þegar framkvæmdastjórinn tilkynnir aðildarríkjum stofnunarinnar skrásetningu annarrar fullgildingarinnar, sem honum berst, ska1 hann vekja athygli þeirra á, hvaða dag samþykktin gangi í gildi.


11. gr.

     Framkvæmdastjóri Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal senda aðalritara Sameinuðu þjóðanna til skrásetningar skv. 102. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna, allar upplýsingar um fullgildingar og uppsagnir, sem hann hefur skrásett í samræmi við ákvæði undanfarandi greina.


12. gr.

     Þegar stjórn Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar kann að álíta það nauðsynlegt, skal hún leggja fyrir allsherjarþingið skýrslu um framkvæmd þessarar samþykktar og athuga jafnframt, hvort æskilegt sé að setja á dagskrá þingsins breytingar á henni allri eða hluta hennar.


13. gr.

     1. Ef þingið gerir nýja samþykkt, sem breytir þessari samþykkt að meira eða minna leyti og sú samþykkt mælir ekki fyrir á annan veg, þá skal:

a. fullgilding aðildarríkis á hinni nýju samþykkt ipso jure hafa í för með sér tafarlausa uppsögn þessarar samþykktar, hvað sem ákvæðum 9. gr. hér að framan líður, ef hin nýja samþykkt öðlast gildi og þá frá þeim tíma það gerist;

b. aðildarríkjum ekki heimilt að fullgilda þessa samþykkt, eftir að hin nýja samþykkt    gekk í gildi.

     2. Þessi samþykkt skal, hvað sem öðru líður, halda gildi sínu eins og hún er að formi og efni hvað snertir þau aðildarríki, sem hafa fullgilt hana en ekki hina nýju samþykkt.


14. gr.

     Hinn enski og franski texti þessarar samþykktar eru jafngildir.

 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum