Hoppa yfir valmynd
31. júlí 2002 Félagsmálaráðuneytið

Samþykkt nr. 144 varðandi samstarf um framkvæmd alþjóðlegra reglna á sviði vinnumála

Samþykktir ILO sem Ísland hefur fullgilt

Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu á alþjóðasamþykkt varðandi samstarf um framkvæmd alþjóðlegra reglna á sviði vinnumála

(Lögð fyrir Alþingi á 102. löggjafarþingi 1980.)

Alþingi ályktar að veita ríkisstjórninni heimild til þess fyrir Íslands hönd að fullgilda samþykkt nr. 144 varðandi samstarf um framkvæmd alþjóðlegra reglna á sviði vinnumála, sem gerð var á 61. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í Genf 1976, eins og hún liggur fyrir á fylgiskjalinu, sem prentað er með ályktun þessari.


Samþykkt nr. 144 varðandi samstarf um framkvæmd alþjóðlegra reglna á sviði vinnumála

     Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, er kom saman til 61. þingsetu sinnar í Genf hinn 2. júní 1976 eftir kvaðningu stjórnar Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar,

     minnist ákvæða gildandi samþykkta og tillagna um vinnumál, einkum Samþykktar um félagafrelsi og verndun þess, 1948, Samþykktar um réttinn til þess að stofna félög og semja sameiginlega, 1949, og tillögu um samráð og samvinnu ríkisstjórna og aðila vinnumarkaðarins, 1960, sem staðfesta rétt atvinnurekenda og verkamanna til að stofna frjáls og sjálfstæð félög og krefjast aðgerða til þess að stuðla að raunhæfum samráðum milli stjórnvalda og félagssamtaka atvinnurekenda og verkamanna í landinu, svo og ákvæða fjölmargra alþjóðlegra samþykkta og tillagna, sem kveða á um samráð félagssamtaka atvinnurekenda og verkamanna um aðgerðir til að framfylgja þeim,

     hefur fjallað um 4. dagskrármál þingsins, sem nefnist „Að koma á fót samstarfi þriggja aðila til þess að stuðla að framkvæmd alþjóðlegra reglna á sviði vinnumála“ og hefur þingið samþykkt ákveðnar ábendingar um samstarf til þess að stuðla að framkvæmd alþjóðlegra reglna á sviði vinnumála, og

     þar sem þingið hefur ákveðið að þessar ábendingar skuli gerðar í formi alþjóðasamþykktar, gerir það í dag hinn 21. júní 1976 eftirfarandi samþykkt, sem nefna má Samþykkt varðandi samstarf um framkvæmd alþjóðlegra reglna á sviði vinnumála 1976:


1. gr.

     Í þessari samþykkt merkir hugtakið „aðalsamtök“ þau samtök, sem eru helstu málsvarar atvinnurekenda og verkamanna, sem njóta félagafrelsis.


2. gr.

     1. Hvert það aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem fullgildir þessa samþykkt skuldbindur sig til þess að beita aðferðum sem tryggi raunhæft samstarf fulltrúa ríkisstjórnarinnar, atvinnurekenda og verkamanna um þau atriði, er varða starfsemi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og nefnd eru í 1. tölul. 5. gr. hér á eftir.

     2. Eðli og form þeirra aðgerða, sem um getur í 1. tölul. þessarar greinar skal ákvarða í hverju landi fyrir sig í samræmi við landsvenjur að höfðu samráði við aðilasamtökin, þar sem slík samtök starfa, ef slíkum aðferðum hefur ekki þegar verið komið á.


3. gr.

     1. Fulltrúar atvinnurekenda og verkamanna í sambandi við aðgerðir þær sem kveðið er á um í þessari samþykkt skulu kjörnir með frjálsum kosningum af aðalsamtökum þeirra, þar sem þau fyrirfinnast.

     2. Atvinnurekendur og verkamenn skulu eiga jafnmarga fulltrúa í öllum nefndum sem samstarf annast.


4. gr.

     1. Hlutaðeigandi stjórnvald skal annast stjórnun þeirra aðgerða, sem þessi samþykkt kveður á um.

     2. Hlutaðeigandi stjórnvald og aðalsamtökin, þar sem þau fyrirfinnast, skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að fjármagna nauðsynlega þjálfun þátttakenda í þessum aðgerðum.

    
5. gr.

     1. Tilgangur þeirra aðgerða, sem þessi samþykkt kveður á um skal vera að haft sé samráð um:

a. svör ríkisstjórna við spurningum varðandi dagskrármál Alþjóðavinnumálaþingsins og athugasemdir ríkisstjórna við þá tillögutexta, sem ræða skal á þinginu;

b. þær tillögur til hlutaðeigandi stjórnvalda, sem gera skal um leið og samþykktir og tillögur eru lagðar fyrir þau í samræmi við 19. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar;

c. endurtekna athugun á hæfilegum fresti á ófullgiltum samþykktum og tillögum, sem ekki hafa enn verið framkvæmdar, til þess að athuga hvað gera mætti til þess að stuðla að framkvæmd þeirra eða fullgildingu, eftir því sem við á;

d. spurningar, sem upp kunna að koma í sambandi við skýrslur, sem gefa skal Alþjóðavinnumálaskrifstofunni samkvæmt 22. grein stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar;

e. tillögur um uppsagnir fullgiltra samþykkta.

     2. Til þess að tryggja nægilega athugun á þeim málum, sem um ræðir í 1. tölul. þessarar greinar skulu fundir haldnir á hæfilegum fresti, er ákveðinn skal með samkomulagi, en eigi sjaldnar en einu sinni á ári.

   
6. gr.
     Þegar hæfilegt þykir, að höfðu samráði við aðalsamtökin, þar sem þau fyrirfinnast skal hlutaðeigandi stjórnvald gefa út ársskýrslu um starfsemi. þá, sem um ræðir í þessari samþykkt.

7. gr.

     Formlegar fullgildingar á þessari samþykkt skulu sendar framkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar.


8. gr.

     1. Þessi samþykkt skal einungis bindandi fyrir þau aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem hafa látið framkvæmdastjórann skrá fullgildingar sínar.

     2. Hún gengur í gildi tólf mánuðum eftir að fullgildingar tveggja aðildarríkja hafa verið skráðar hjá framkvæmdastjóranum.

     3. Síðan gengur þessi samþykkt í gildi, að því er snertir hvert aðildarríki, tólf mánuðum eftir að fullgilding þess hefur verið skráð.


9. gr.

     1. Aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa, getur sagt henni upp að liðnum tíu árum frá fyrstu gildistöku hennar. Tilkynningu um uppsögn skal senda framkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar. Slík uppsögn öðlast ekki gildi fyrr en ár er liðið frá skrásetningardegi hennar.

     2. Hvert það aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þess, en notfæri sér ekki innan árs frá lokum tíu ára tímabilsins, sem um getur í fyrri tölulið, rétt þann til uppsagnar, sem kveðið er á um í þessari grein, skal bundið af henni annað tíu ára tímabil, og síðan getur það sagt þessari samþykkt upp að loknu hverju tíu ára tímabili í samræmi við ákvæði þessarar greinar.


10. gr.

     1. Framkvæmdastjóri Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal tilkynna öllum aðildarríkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar skráningu allra fullgildinga og uppsagna, sem aðildarríki stofnunarinnar hafa sent honum.

     2. Þegar framkvæmdastjórinn tilkynnir aðildarríkjum stofnunarinnar skrásetningu annarrar fullgildingar, sem honum berst, skal hann vekja athygli þeirra á, hvaða dag samþykktin gangi í gildi.

11. gr.

     Framkvæmdastjóri Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal senda aðalritara Sameinuðu þjóðanna til skrásetningar skv. 102. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna, allar upplýsingar um fullgildingar og uppsagnir, sem hann hefur skrásett í samræmi við ákvæði undanfarandi greina.

   

12. gr.

     Þegar stjórn Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar kann að álíta það nauðsynlegt skal hún leggja fyrir allsherjarþingið skýrslu um framkvæmd þessarar samþykktar og athuga jafnframt hvort æskilegt sé að setja á dagskrá þingsins breytingar á henni allri, eða hluta hennar.


13. gr.

     1. Ef þingið gerir nýja samþykkt, sem breytir þessari samþykkt að meira eða minna leyti og sú samþykkt mælir ekki fyrir á annan veg, þá skal:

a. fullgilding aðildarríkis á hinni nýju samþykkt ipso jure hafa í för með sér tafarlausa uppsögn þessarar samþykktar, hvað sem ákvæðum 9. gr. hér að framan líður, ef hin nýja samþykkt öðlast gildi og þá frá þeim tíma er það gerist;

b. aðildarríkjum ekki heimilt að fullgilda þessa samþykkt, eftir að hin nýja samþykkt gekk í gildi.

     2. Þessi samþykkt skal hvað sem öðru líður halda gildi sínu eins og hún er að formi og efni hvað snertir þau aðildarríki, sem hafa fullgilt hana en ekki hina nýju samþykkt.


14. gr.

     Hinn enski og franski texti þessarar samþykktar eru jafngildir.


Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.

Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) er svo sem kunnugt er byggð upp á annan hátt en aðrar alþjóðlegar stofnanir. Allsherjarþing hennar og stjórn eru skipuð fulltrúum ríkisstjórna atvinnurekenda og verkalýðs í hlutföllunum 2:1:1. Sama regla gildir um nefndir allar á vegum stofnunarinnar. Þannig byggist Alþjóðavinnumálastofnunin og öll starfsemi hennar á samstarfi þessara þriggja aðila.

Stofnunin hefur leitast við að stuðla að sams konar samvinnu innan einstakra aðildarríkja og hafa fjölmargar samþykktir Alþjóðavinnumálaþings að geyma ákvæði um að stjórnvöld skuli hafa fulltrúa atvinnurekenda og launþega með í ráðum um framkvæmd ákvæða þeirra eða reglna, sem í þeim felast.

Á fundi sínum í nóvember 1973 ákvað svo stjórn ILO að allsherjarþingið skyldi fjalla um samstarf stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins til þess að stuðla að framkvæmd alþjóðlegra samþykkta og reglna á sviði vinnumála. Var ákveðið að fyrri umræða um málið skyldi fara fram á þinginu 1975.

Á Alþjóðavinnumálaskrifstofunni var samin skýrsla um málið. Í henni var gerð grein fyrir viðleitni ILO til eflingar samstarfi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Þar er og gerð grein fyrir því, hvernig þessum málum er háttað í einstökum aðildarríkjum. Í skýrslunni voru einnig bornar fram ýmsar spurningar til ríkisstjórna til þess að kynnast afstöðu þeirra til þess hvort setja bæri alþjóðlegar reglur um þetta efni og hvað í þeim skyldi felast ef settar yrðu.

Að fengnum svörum ríkisstjórna samdi Alþjóðavinnumálaskrifstofan aðra skýrslu. Hefur hún að geyma greinargerð um svör ríkisstjórna við fyrrnefndum spurningum svo og drög að samþykkt, sem samin voru með hliðsjón af þeim.

Þessi síðari skýrsla var svo lögð fyrir allsherjarþingið árið 1975 og fjallaði sérstök þingnefnd um málið. Gerðar voru ýmsar breytingar á þeim texta, sem fyrir lá og samþykkt drög að samþykkt og tillögu. Einnig var samþykkt að taka þetta mál til síðari umræðu á næsta reglulega þingi árið 1976.

Aðildarríkjunum var síðan send skýrsla um umræður um málið á þinginu 1975 og þá afgreiðslu, sem það fékk. Var ríkisstjórnum gefinn kostur á að gera sínar athugasemdir við þau drög, sem höfðu verið samþykkt. Að þeim athugasemdum fengnum samdi Alþjóðavinnumálaskrifstofan ný drög að samþykkt og tillögu, sem lögð voru fyrir þingið 1976.

Á þinginu var mikill áhugi fyrir þátttöku í þeirri nefnd, sem um þetta mál fjallaði svo að nefndin varð fjölmenn. Í almennum umræðum í nefndinni lögðu fulltrúar bæði atvinnurekenda og verkamanna áherslu á nauðsyn þess að setja samþykkt (convention) sem tryggði það, að samtök þeirra væru höfð með í ráðum um framkvæmd samþykkta ILO, en samþykkt er bindandi fyrir þau aðildarríki, sem hana fullgilda. Hins vegar vildu fulltrúar sumra ríkisstjórna láta nægja að samþykkja tillögu (recommendation) en í því formi felast einungis tilmæli til ríkisstjórna um að taka til greina það sem í tillögunni felst.

Niðurstaðan varð sú að gerð var samþykkt um málið og einnig tillaga, sem hefur að geyma nokkru víðtækari ákvæði. Með samþykktinni greiddu 305 þingfulltrúar atkvæði, en enginn á móti. Tillagan var samþykkt með 354 atkvæðum án mótatkvæða. Tillaga þessi er prentuð sem viðauki við athugasemdir þessar.

Með fullgildingu umræddrar samþykktar skuldbindur aðildarríki sig til þess að tryggja það, að ríkisstjórn þess hafi raunhæf samráð og samvinnu við samtök atvinnurekenda og launþega um málefni, er varða Alþjóðavinnumálastofnunina eða samskipti ríkisins við hana. Á Norðurlöndum hefur slíkri samvinnu verið komið á fyrir löngu með stofnun samstarfsnefndar sem skipaðar eru fulltrúum hinna þriggja aðila. Mundi sá háttur sjálfsagt verða á hafður hér á landi ef Ísland fullgildir samþykktina.

Alls hafa nú 20 aðildarríki fullgilt þessa samþykkt þ.á m. Norðurlöndin fjögur.

Leitað var álits Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands á því hvort Ísland ætti að fullgilda samþykktina. Í svari Alþýðusambandsins segir að miðstjórn þess hafi á fundi sínum 18. desember 1979 samþykkt einróma að leggja til að Ísland fullgilti samþykktina. Vinnuveitendasambandið lýsti því yfir að það sjái ekkert því til fyrirstöðu að Ísland fullgilti samþykktina.

Ísland hefur verið aðili að Alþjóðavinnumálastofnuninni síðan 1945, en málefnum hennar hefur hingað til ekki verið sinnt sem skyldi. Frá upphafi hefur Alþjóðavinnumálaþingið gert 153 samþykktir (conventions) og hefur Ísland fullgilt 13 þeirra.

Með því samstarfi stjórnvalda og samtaka launþega og atvinnurekenda, sem kveðið er á um í þessari umræddu samþykkt, má ætla að betri skipan verði komið á samskipti við Alþjóðavinnumálastofnunina og betur verði unnið að framgangi þeirra mála sem hún beitir sér fyrir. Er því lagt til að Alþingi veiti ríkisstjórninni heimild til þess að fullgilda þessa samþykkt.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira