Hoppa yfir valmynd
31. júlí 2002 Félagsmálaráðuneytið

Samþykkt nr. 156 um jafna möguleika og jafnrétti til handa körlum og konum í atvinnu: Starfsfólk með fjölskylduábyrgð

Samþykktir ILO sem Ísland hefur fullgilt

Samþykkt nr. 156 um jafna möguleika og jafnrétti til handa körlum og konum í atvinnu:

Starfsfólk með fjölskylduábyrgð

Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, kom saman til 67. þingsetu sinnar í Genf hinn 3. júní 1981 eftir kvaðningu stjórnar Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, gefur gaum að Fíladelfíuyfirlýsingunni um hlutverk og markmið Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem staðfestir að „allir menn hafi, án tillits til kynþáttar, trúar eða kynferðis, rétt til að vinna að efnahagslegri velsæld sinni og andlegum þroska, frjálsir, á mannsæmandi hátt, við efnahagslegt öryggi og jafna möguleika“, gefur gaum að orðum yfirlýsingarinnar um jafna möguleika og jafnrétti til handa vinnandi konum og ályktunarinnar um fyrirhugaðar aðgerðir til þess að stuðla að jöfnum möguleikum og jafnrétti til handa vinnandi konum sem gerð var á alþjóðavinnumálaþinginu 1975, gefur gaum að ákvæðum alþjóðlegra vinnumálasamþykkta og -tilmæla sem miða að því að tryggja jafna möguleika og jafnrétti til handa körlum og konum í atvinnu, nánar tiltekið samþykktar og tilmæla um jöfn laun frá 1951, samþykktar og tilmæla um misrétti með tilliti til atvinnu eða starfa frá 1958 og VIII. kafla tilmæla um þróun mannafla frá 1975, minnist þess að samþykktin um misrétti með tilliti til atvinnu eða starfa frá 1958 tekur ekki ótvírætt til mismununar á grundvelli fjölskylduábyrgðar og telur að nauðsynlegt sé að setja reglur til viðbótar á þessu sviði, gefur gaum að orðum tilmæla um atvinnu kvenna með fjölskylduábyrgð frá 1965 og hugleiðir þær breytingar sem orðið hafa síðan þau voru gerð, gefur gaum að því að gerningar um jafna möguleika og jafnrétti til handa körlum og konum hafa einnig verið samþykktir af Sameinuðu þjóðunum og öðrum sérstofnunum og minnist sérstaklega fjórtándu málsgreinar formála samnings Sameinuðu þjóðanna frá 1979 um afnám allrar mismununar gagnvart konum, en þar segir að aðildarríkin séu sér „þess meðvitandi að breytinga er þörf á hinu hefðbundnu hlutverki karla og kvenna í þjóðfélaginu og fjölskyldunni til að jafna réttindi karla og kvenna fyllilega“, viðurkennir að vandamál starfsfólks með fjölskylduábyrgð séu þættir víðtækara málefnis er varðar fjölskylduna og samfélagið sem taka beri tillit til í stjórnarstefnu ríkja, viðurkennir þörfina á því að koma í raun á jöfnum möguleikum og jafnrétti til handa körlum og konum í atvinnu sem hafa fjölskylduábyrgð og milli slíks starfsfólks og annars starfsfólks, telur að mörg þeirra vandamála, sem allt starfsfólk á við að glíma, bitni meira á starfsfólki með fjölskylduábyrgð og viðurkennir þörfina á því að bæta aðstöðu þess bæði með ráðstöfunum sem svara sérstökum þörfum þeirra og ráðstöfunum sem miða að því að bæta aðstöðu starfsfólks almennt, hefur samþykkt tilteknar tillögur um jafna möguleika og jafnrétti til handa körlum og konum í atvinnu: Starfsfólk með fjölskylduábyrgð, sem er fimmta mál á dagskrá þingsins,  hefur einsett sér að þessar tillögur verði settar fram í formi alþjóðasamþykktar, og gerir í dag hinn 23. júní 1981 eftirfarandi samþykkt sem nefna má samþykkt um starfsfólk með fjölskylduábyrgð, 1981:


1. gr.

1. Þessi samþykkt tekur til karla og kvenna í atvinnu sem hafa skyldum að gegna gagnvart eigin börnum á þeirra framfæri, þegar slíkar skyldur takmarka möguleika þeirra til undirbúnings, þátttöku eða frama í atvinnulífinu.

2. Ákvæði þessarar samþykktar skulu einnig taka til karla og kvenna í atvinnu sem hafa skyldum að gegna gagnvart öðrum nánum vandamönnum sem greinilega þarfnast umönnunar þeirra eða forsjár, þegar slíkar skyldur takmarka möguleika þeirra til undirbúnings, þátttöku eða frama í atvinnulífinu.

3. Í þessari samþykkt merkja orðin „barn á framfæri“ og „aðrir nánir vandamenn sem greinilega þarfnast umönnunar eða forsjár“ einstaklinga sem þannig eru skilgreindir í hverju landi með einhverjum þeim hætti sem um getur í 9. gr. þessarar samþykktar.

4. Það starfsfólk, sem 1. og 2. mgr. þessarar greinar taka til, er hér á eftir nefnt „starfsfólk með fjölskylduábyrgð“.


2. gr.

     Þessi samþykkt tekur til allra greina atvinnulífsins og allra flokka starfsfólks.

  
3. gr.

1. Með það fyrir augum að koma í raun á jöfnum möguleikum og jafnrétti til handa körlum og konum í atvinnu skal sérhvert aðildarríki setja það markmið í stjórnarstefnu sína að gera einstaklingum með fjölskylduábyrgð, sem eru í atvinnu eða óska að vera það, kleift að framfylgja rétti sínum til þess án þess að verða fyrir mismunun og, að svo miklu leyti sem mögulegt er, án árekstra milli atvinnu þeirra og fjölskylduábyrgðar.

2. Að því er varðar 1. mgr. þessarar greinar merkir orðið "mismunun" mismunun í atvinnu og starfi eins og það er skilgreint í 1. og 5. gr. samþykktar um misrétti með tilliti til atvinnu eða starfa frá 1958.


4. gr.

     Með það fyrir augum að koma í raun á jöfnum möguleikum og jafnrétti til handa körlum og konum í atvinnu skulu allar þær ráðstafanir, sem samræmast aðstæðum og möguleikum í viðkomandi landi, gerðar til þess:

     a. að gera starfsfólki með fjölskylduábyrgð kleift að hagnýta rétt sinn til frjáls vals atvinnu; og

     b. að taka tillit til þarfa þeirra að því er varðar starfskjör, vinnuskilyrði og félagslegt öryggi.


5. gr.

     Allar þær ráðstafanir, sem samræmast aðstæðum og möguleikum í viðkomandi landi, skulu enn fremur gerðar til þess:

     a. að taka tillit til þarfa starfsfólks með fjölskyldu ábyrgð í skipulagningu sveitarfélaga; og

     b. að þróa eða styrkja þjónustu á vegum sveitar félaga, hvort sem er af hálfu opinberra aðila eða einkaaðila, svo sem barnagæslu og fjölskylduaðstoð.


6. gr.

     Hlutaðeigandi stjórnvöld og stofnanir í hverju landi skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að stuðla að upplýsingum og fræðslu sem leiði til almennari skilnings á meginreglunni um jafna möguleika og jafnrétti til handa körlum og konum í atvinnu og á vandamálum starfsfólks með fjölskylduábyrgð, og stuðla að því almenningsáliti sem gerir kleift að vinna bug á þessum vandamálum.


7. gr.

     Allar þær ráðstafanir, sem samræmast aðstæðum og möguleikum í viðkomandi landi, þar á meðal ráðstafanir á sviði starfsfræðslu og þjálfunar, skulu gerðar til þess að gera starfsfólki með fjölskylduábyrgð kleift að hefja og halda áfram þátttöku í atvinnulífinu, svo og að koma á vinnumarkaðinn á ný eftir fjarveru vegna þessarar ábyrgðar.


8. gr.

     Fjölskylduábyrgð sem slík skal ekki vera gild ástæða til uppsagnar starfs.


9. gr.

     Ákvæðum þessarar samþykktar má framfylgja með lögum eða reglugerðum, kjarasamningum, starfsreglum, gerðardómum, dómsúrskurðum eða þessum aðferðum sameiginlega, eða með hverjum öðrum þeim hætti sem er í samræmi við landsvenju sem við kann að eiga, að teknu tilliti til aðstæðna í viðkomandi landi.


10. gr.

1. Ákvæði þessarar samþykktar má framkvæmda í áföngum ef nauðsyn ber til, að teknu tilliti til aðstæðna í viðkomandi landi. Slík framkvæmd skal þó ávallt ná til alls þess starfsfólks sem 1. mgr. 1. gr. tekur til.

2. Hvert aðildarríki, sem fullgildir þessa samþykkt, skal í fyrstu skýrslu sinni um framkvæmd samþykktarinnar, sem gefin er skv. 22. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, greina frá því hvort og þá að hve miklu leyti það hyggst nýta sér þann möguleika sem veittur er í 1. mgr. þessarar greinar og í síðari skýrslum skal það gera grein fyrir því að hve miklu leyti samþykktinni er komið í framkvæmd eða fyrirhugað er að koma henni í framkvæmd á þennan hátt.


11. gr.

     Samtök atvinnurekenda og starfsfólks skulu hafa rétt til þátttöku, á þann hátt sem samrýmist aðstæðum og venju í viðkomandi landi, í mótun og framkvæmd ráðstafana sem miða að því að koma ákvæðum þessarar samþykktar í framkvæmd.


12. gr.

     Formleg skjöl um fullgildingu þessarar samþykktar skulu send framkvæmdastjóra Alþjóðavinnu-málaskrifstofunnar til skráningar.


13. gr.

1. Þessi samþykkt skal einungis vera bindandi fyrir þau aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem hafa látið framkvæmdastjórann skrá fullgildingar sínar.

2. Hún öðlast gildi tólf mánuðum eftir þann dag er framkvæmdastjórinn hefur skráð fullgildingar tveggja aðildarríkja.

3. Þar eftir öðlast þessi samþykkt gildi að því er sérhvert aðildarríki varðar tólf mánuðum eftir þann dag er fullgilding þess hefur verið skráð.


14. gr.

1. Aðildarríki, sem hefur fullgilt þessa samþykkt, getur sagt henni upp að liðnum tíu árum frá fyrstu gildistöku hennar með tilkynningu sem send skal framkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skráningar. Slík uppsögn öðlast ekki gildi fyrr en ár er liðið frá skráningardegi hennar.

2. Hvert það aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa og notfærir sér ekki innan árs frá lokum tíu ára tímabilsins sem um getur í undanfarandi málsgrein rétt þann til uppsetningar sem kveðið er á um í þessari grein, skal bundið af samþykktinni í annað tíu ára tímabil og getur síðan sagt henni upp að liðnu hverju tíu ára tímabili í samræmi við ákvæði þessarar greinar.


15. gr.

1. Framkvæmdastjóri Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal tilkynna öllum aðildarríkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um skráningu allra fullgildinga og uppsagna sem aðildarríki stofnunarinnar hafa sent honum.

2. Þegar framkvæmdastjóri tilkynnir aðildarríkjum stofnunarinnar um skráningu annarrar fullgildingarinnar sem honum hefur borist skal hann vekja athygli þeirra á því hvaða dag samþykktin öðlast gildi.


16. gr.

     Framkvæmdastjóri Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal senda aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til skráningar í samræmi við 102. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna allar upplýsingar um fullgildingar og uppsagnir sem hann hefur skráð í samræmi við ákvæði undanfarandi greina.


17. gr.

     Þegar stjórnarnefnd Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar kann að álíta það nauðsynlegt skal hún leggja fyrir allsherjarþing stofnunarinnar skýrslu um framkvæmd þessarar samþykktar og athuga jafnframt hvort æskilegt sé að setja á dagskrá þingsins endurskoðun hennar í heild eða að hluta.


18. gr.

1. Ef þingið gerir nýja samþykkt sem felur í sér endurskoðun þessarar samþykktar í heild eða að hluta og sú samþykkt mælir ekki fyrir á annan veg skal:

     a. fullgilding aðildarríkis á hinni nýju endurskoð uðu samþykkt lögum samkvæmt hafa í för með sér tafarlausa uppsögn þessarar samþykktar, hvað sem ákvæðum 14. gr. hér að framan líður, ef og þegar hin nýja samþykkt öðlast gildi;

     b. aðildarríkjum ekki heimilt að fullgilda þessa samþykkt eftir að hin nýja endurskoðaða samþykkt öðlast gildi.

2. Þessi samþykkt skal, hvað sem öðru líður, halda gildi sínu eins og hún er að formi og efni að því er varðar þau aðildarríki sem hafa fullgilt hana en ekki hina nýju endurskoðuðu samþykkt.


19. gr.

     Hinn enski og franski texti þessarar samþykktar eru jafngildir.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira