Hoppa yfir valmynd
31. júlí 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samþykkt nr. 159 um starfsendurhæfingu og atvinnumál fatlaðra

Samþykktir ILO sem Ísland hefur fullgilt

Samþykkt nr. 159 um starfsendurhæfingu og atvinnumál fatlaðra

     Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, er kom saman til 69. þingsetu sinnar í Genf hinn 1. júní 1983, eftir kvaðningu stjórnar Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar,

     vísar til gildandi alþjóðastaðla í Tillögunni um starfsendurhæfingu fatlaðra frá 1955 og Tillögunnar um starfsfræðslu og starfsþjálfun sem þætti í þróun vinnuafls frá 1975,

     vísar til þess að síðan Tillagan frá 1955 um starfsendurhæfingu fatlaðra tók gildi hafa umtalsverðar framfarir orðið í viðhorfum til þarfar á endurhæfingu, til umfangs og skipulags endurhæfingarþjónustu og laga og aðgerða margra aðildarríkja hvað varðar málefni sem sú tillaga tekur til,

     hefur til hliðsjónar að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna lýsti árið 1981 Alþjóðaár fatlaðra undir kjörorðinu „full hlutdeild og jafnrétti“ og að víðtækri alþjóðaframkvæmdaáætlun er ætlað að tryggja raunhæfar aðgerðir á alþjóðavettvangi og í hverju landi til að gera að veruleika „fulla hlutdeild“ fatlaðra í samfélaginu og „jafnrétti“ þeim til handa,

     telur að með framförum þessum sé orðið tímabært að setja nýja alþjóðastaðla um þessi mál sem miða að því að tryggja öllum hópum fatlaðra í dreifbýli sem þéttbýli sömu tækifæri og meðhöndlun hvað varðar atvinnu og aðlögun að samfélaginu,

     hefur samþykkt ákveðnar ábendingar varðandi starfsendurhæfingu, sem er fjórða mál á dagskrá þingsins,

     hefur ákveðið að þessar ábendingar skuli gerðar í formi alþjóðasamþykktar,

     gerir það í dag hinn 20. júní 1983 eftirfarandi samþykkt sem nefnist Samþykkt um starfsendurhæfingu og atvinnumál fatlaðra, 1983:

 

I. KAFLI

Skilgreining og gildissvið.

1. gr.

     1. Í þessari samþykkt á hugtakið "fatlaður" við um einstakling sem hefur verulega skerta möguleika til að tryggja sér starf við hæfi, halda því og vinna sig upp vegna viðurkenndrar líkamlegrar eða andlegrar fötlunar.

     2. Samkvæmt þessari samþykkt ber hverju aðildarríki að líta svo á að tilgangurinn með endurhæfingu sé að gera fötluðum manni kleift að tryggja sér starf við hæfi, halda því og vinna sig upp, og stuðla þannig að aðlögun eða enduraðlögun að þjóðfélaginu.

     3. Ákvæðum þessarar samþykktar ber hverju aðildarríki að beita með aðgerðum sem eru í samræmi við ríkjandi aðstæður og starfshætti hverrar þjóðar.

     4. Ákvæði þessarar samþykktar taka til allra hópa fatlaðra.

    

II. KAFLI

Reglur um starfsendurhæfingu og stefnu í atvinnumálum fatlaðra.
2. gr.

     Hvert aðildarríki skal í samræmi við aðstæður í landinu, starfshætti og möguleika, móta, hrinda í framkvæmd og endurskoða með ákveðnu millibili stefnu ríkisins í starfsendurhæfingu og atvinnumálum fatlaðra.


3. gr.

     Umrædd stefna skal miða að því að tryggja að allir hópar fatlaðra hafi aðgang að endurhæfingarstarfsemi við sitt hæfi og að því að fjölga atvinnutækifærum fyrir fatlaða á hinum opna vinnumarkaði.


4. gr.

     Umrædd stefna skal byggð á þeirri reglu að fatlað launafólk hafi sömu tækifæri og launafólk almennt. Þess skal gætt að vinnandi fatlaðir karlar og konur hljóti sömu tækifæri og meðhöndlun. Ekki skal líta svo á að með sérstökum jákvæðum aðgerðum, sem miða að því að fatlaðir launþegar hljóti sömu tækifæri og meðhöndlun, sé verið að mismuna öðru launafólki.

5. gr.

     Hafa ber samráð við samtök atvinnurekenda og launafólks um framkvæmd umræddrar stefnu og hvaða aðgerðum skal beita til þess að auka samvinnu og samræmingu meðal þeirra opinberu aðila og einkaaðila sem tengjast endurhæfingarstarfsemi. Heildarsamtök fatlaðra og samtök sem starfa fyrir fatlaða skulu einnig höfð með í ráðum.

    

III. KAFLI

Aðgerðir á landsvísu til þróunar starfsendurhæfingar og vinnumiðlunar fyrir fatlaða.

6. gr.

     Hvert aðildarríki skal með lögum eða reglugerðum eða hverjum þeim aðgerðum öðrum sem eru í samræmi við aðstæður og venjur í landinu gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera til að hrinda í framkvæmd 2., 3., 4. og 5. gr. þessarar samþykktar.


7. gr.

     Hlutaðeigandi stjórnvöld skulu gera ráðstafanir til þess að koma á fót og gera úttekt á starfskynningu, starfsþjálfun, vinnumiðlun, atvinnu og annarri skyldri þjónustu til að gera fötluðum kleift að tryggja sér starf, halda því og vinna sig upp; þá þjónustu sem fyrir hendi er fyrir launafólk almennt skal nota með nauðsynlegum breytingum þegar hægt er og við á.


8. gr.

     Gera skal ráðstafanir til þess að stuðla að því að stofnuð verði og byggð upp starfsendurhæfingarþjónusta og vinnumiðlun fyrir fatlaða í dreifbýli og í afskekktum sveitarfélögum.

    
9. gr.

     Hvert aðildarríki skal stefna að því að tryggja að endurhæfingarráðgjafar og annað menntað starfsfólk, sem sér um starfskynningu, starfsmenntun, vinnumiðlun og atvinnu fatlaðra, hljóti þjálfun og sé tiltækt.

    

IV. KAFLI

Lokaákvæði.

10. gr.

     Formlegar staðfestingar þessarar samþykktar skulu sendar forstjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar.


11. gr.

     1. Samþykkt þessi skal einungis bindandi fyrir þau aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem látið hafa forstjóra skrá staðfestingar sínar.

     2. Hún skal öðlast gildi tólf mánuðum eftir að staðfestingar tveggja aðildarríkja hafa verið skráðar hjá forstjóranum.

     3. Síðan gengur þessi samþykkt í gildi að því er snertir hvert aðildarríki tólf mánuðum eftir að staðfesting þess hefur verið skráð.


12. gr.

     1. Aðildarríki, sem staðfest hefur samþykkt þessa, getur sagt henni upp að liðnum tíu árum frá fyrstu gildistöku hennar. Tilkynningu um uppsögn skal senda forstjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar. Slík uppsögn öðlast ekki gildi fyrr en ár er liðið frá skrásetningardegi hennar.

     2. Hvert aðildarríki sem staðfest hefur samþykkt þessa en notfærir sér ekki innan árs frá lokum tíu ára tímabilsins, sem um getur í fyrri tölulið, rétt þann til uppsagnar, sem kveðið er á um í þessari grein, skal bundið af henni í annað tíu ára tímabil, og síðan getur það sagt þessari samþykkt upp að loknu hverju tíu ára tímabili í samræmi við ákvæði þessarar greinar.


13. gr.

     1. Forstjóri Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal tilkynna öllum aðildarríkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar skrásetningu allra staðfestinga og uppsagna sem aðildarríki stofnunarinnar hafa sent honum.

     2. Þegar forstjóri tilkynnir aðildarríkjum stofnunarinnar skrásetningu annarrar staðfestingarinnar sem honum berst, skal hann vekja athygli þeirra á hvaða dag samþykktin öðlist gildi.


14. gr.

     Forstjóri Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal senda aðalritara Sameinuðu þjóðanna til skrásetningar skv. 102. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna allar upplýsingar um staðfestingar og uppsagnir sem hann hefur skrásett í samræmi við ákvæði undanfarandi greina.


15. gr.

     Þegar stjórn Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar kann að álíta það nauðsynlegt skal hún leggja fyrir allsherjarþingið skýrslu um framkvæmd þessarar samþykktar og athuga jafnframt hvort æskilegt sé að setja á dagskrá þingsins breytingar á henni allri eða hluta hennar.


16. gr.

     1. Ef þingið gerir nýja samþykkt, sem breytir þessari samþykkt að meira eða minna leyti og sú samþykkt mælir ekki fyrir á annan veg, þá skal:

a) staðfesting aðildarríkis á hinni nýju samþykkt ipso jure hafa í för með sér tafarlausa uppsögn þessarar samþykktar, hvað sem ákvæði 12. greinar hér að framan líður, ef hin nýja samþykkt öðlast gildi og þá frá þeim tíma er það gerist;

b) aðildarríkjum er ekki heimilt að staðfesta þessa samþykkt eftir að hin nýja samþykkt gekk í gildi.

     2. Þessi samþykkt skal hvað sem öðru líður halda gildi sínu eins og hún er að formi til og efni hvað snertir þau aðildarríki sem hafa staðfest hana en ekki hina nýju samþykkt.


17. gr.

     Hinn enski og franski texti þessarar samþykktar eru jafngildir.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum