Hoppa yfir valmynd
31. júlí 2002 Félagsmálaráðuneytið

Samþykkt nr. 98 um beitingu grundvallarreglnanna um réttinn til að stofna félög og semja sameiginlega

Samþykktir ILO sem Ísland hefur fullgilt

Samþykkt nr. 98 um beitingu grundvallarreglnanna um réttinn til að stofna félög og semja sameiginlega

   

1. gr.

     1. Verkamenn skulu tilhlýðilega verndaðir fyrir því, að þeir séu látnir gjalda þess um atvinnu, að þeir eru félagsbundnir.

     2.  Slík vernd skal sérstaklega beinast að athöfnum, sem miða að því:

     a)  að binda ráðningu verkamanna til vinnu því skilyrði, að þeir gangi ekki í stéttarfélag eða segi sig úr slíku félagi;

     b)  að verkamönnum sé sagt upp vinnu eða þeim gert annað ógagn vegna hlutdeildar sinnar í félagsskap, þátttöku í félagsstarfsemi utan vinnutíma eða í vinnutíma með samþykki vinnuveitandans.


2. gr.

     1. Félög vinnuveitenda og verkamanna skulu njóta nægilegrar verndar gegn afskiptum hverra af öðrum við stofnun þeirra, starfsemi og stjórn, hvort sem þau afskipti eru bein eða framkvæmd af umboðsmönnum eða meðlimum slíkra félaga.

     2. Einkum skulu athafnir þær, sem miða að því að stuðla að stofnun verkalýðsfélaga undir yfirráðum vinnuveitenda eða félagssamtaka þeirra, eða að styrkja verkalýðsfélög fjárhagslega eða á annan hátt í því skyni að koma þeim undir stjórn vinnuveitenda eða félagssamtaka þeirra, taldar afskipti í merkingu þessarar greinar.


3. gr.

     Þar, sem nauðsyn krefur, skal koma á ráðstöfunum, sem við eiga eftir aðstæðum hjá hverri þjóð, til tryggingar því, að félagafrelsið, eins og það er skýrt í undanfarandi greinum, skuli í heiðri haft.


4. gr.

     Þar, sem nauðsyn krefur, skulu gerðar ráðstafanir, eftir því sem við á hjá hverri þjóð, til þess að hvetja og efla til fullrar þróunar í hagnýtingu aðstæðnanna til sjálfviljugra samninga milli vinnuveitenda eða félaga þeirra og verkamanna með skipan ráðningar- og vinnuskilyrða með sameiginlegum samningum fyrir augum.


5. gr.

     1. Ákveða skal með lögum eða reglugerðum hvers lands, að hve miklu leyti ákvæði samþykktar þessarar skuli ná til hermanna og lögreglumanna.

     2. Í samræmi við grundvallarreglu 8. mgr. 19. greinar stjórnarskrár Alþjóðavinnu-málastofnunarinnar skal fullgilding aðildarríkis á samþykkt þessari ekki talin hafa áhrif á nokkur gildandi lög, úrskurði, venju eða samkomulag, sem veita hermönnum eða lögreglumönnum einhver þau réttindi, sem tryggð eru með þessari samþykkt.


6. gr.

     Samþykkt þessi tekur ekki til stöðu opinberra starfsmanna, sem vinna að stjórnarframkvæmdum ríkisins, né heldur skal hún skilin á þann veg, að hún skerði rétt þeirra eða stöðu á nokkurn hátt.


7.–16. gr.

     (Samhljóða 10.–19. gr. samþykktar nr. 94.)

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira