Hoppa yfir valmynd
22. júní 2000 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Grein vegna samþykktar ILO nr. 182

Ísland fullgildir samþykkt ILO nr. 182
um afnám barnavinnu í sinni verstu mynd


Í lok maí sl. fullgilti Ísland samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 182 um afnám barnavinnu í sinni verstu mynd sem var afgreidd á 87. Alþjóðavinnumálaþinginu í Genf í júní 1999. Samþykktinni er ætlað að koma til fyllingar samþykkt ILO nr. 138 um lágmarksaldur við vinnu sem fullgilt var af Íslands hálfu árið 1999.

Í samþykkt nr. 182 á hugtakið "barnavinna í sinni verstu mynd" við um hvers konar þrælkun eða framkvæmd sem jafna má til þrælkunar, notkun barna til vændis, til framleiðslu á klámi eða til klámsýninga, notkun barna til ólöglegra athafna, einkum til framleiðslu og verslun með ávana- og fíkniefni og störf sem eru líkleg til að skaða heilsu, öryggi eða siðferði barna.

Aðildarríki samþykktarinnar skulu framkvæma aðgerðaráætlanir til að uppræta barnavinnu í sinni verstu mynd. Þau skulu einnig gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að ákvæðum samþykktarinnar sé framfylgt, þar á meðal með viðurlögum. Lögð er áhersla á mikilvægi menntunar við að uppræta barnavinnu. Þá mælir samþykktin fyrir um aukna alþjóðlega samvinnu og aðstoð á þessu sviði.

Á fundi stjórnarnefndar ILO í mars 2000 var tekin ákvörðun um að samþykkt nr. 182 skuli teljast sem ein af grundvallarsamþykktum stofnunarinnar. Aðrar grundvallarsamþykktir ILO eru eftirfarandi: Nr. 29 um nauðungarvinnu eða skylduvinnu, nr. 87 um félagafrelsi og verndun þess, nr. 98 um beitingu grundvallarréttinda um réttinn til að stofna félög og semja sameiginlega, nr. 100 um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf, nr. 105 um afnám nauðungarvinnu, nr. 111 er varðar misrétti með tilliti til atvinnu eða starfa og nr. 138 um lágmarksaldur við vinnu.

Þann 15. júní 2000 höfðu 25 aðildarríkja ILO fullgilt samþykkt nr. 182 og var Ísland á meðal 14 af 175 aðildarríkjum ILO sem höfðu fullgilt allar átta grundvallarsamþykktir stofnunarinnar.


Heimasíða ILO

Samþykkt ILO nr. 182


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum