Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 19. - 26. nóvember

Vaxandi starfsemi á Akranesi
Starfsemi sjúkrahússins og heilsugæslustöðvarinnar á Akranesi hefur vaxið nokkuð á árinu. Legudögum fjölgaði um 6% samanborið við árið 2003, eru nú um 15.500. Fjölgun legudaga skýrist fyrst og fremst af fjölgun sjúklinga sem notið hafa meðferðar á SHA. Á árinu hafa 2.545 sjúklingar verið lagðir inn á SHA og hefur fjölgað um 162 á milli ára eða um tæplega 7%. Um 2.600 aðgerðir hafa verið gerðar á árinu og hefur fjölgað um rúmlega 4% eða 103 frá fyrra ári. Fjölgun gerviliðaðgerða (mjaðmir og hné) vegur þungt í samanburðinum, gerðar hafa verið 94 slíkar aðgerðir það sem af er árinu borið saman við 67 á sama tímabil fyrra árs, fjölgun aðgerða er því rúmlega 40%. Stefnt er að því að gerviliðaaðgerðir muni í fyrsta sinn fara yfir 100 ef litið er til ársins í heild.
pdf-takn Starfsemistölur...

Flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga
,,Flutningur verkefna er almennt líklegur til að efla sveitarstjórnarstigið, styrkja staðbundið lýðræði og stuðla að hagkvæmari ráðstöfun takmarkaðra fjármuna.” Þetta er álit nefndar sem fjallað hefur um mögulegan flutning verkefna á sviði heilbrigðismála og þjónustu við aldraða frá ríki til sveitarfélaga. Nefndin skilaði Jóni Kristjánssyni heilbrigðisráðherra áfangaskýrslu um málið í vikunni. Í skýrslunni kemur einnig fram að forsenda flutnings stórra verkefna til sveitarfélaganna sé víðtæk sameining sveitarfélaga sem myndi heildstæð atvinnu- og þjónustusvæði og séu nægilega burðug til að sinna lögbundnum verkefnum án samvinnu við önnur sveitarfélög og geti sinnt stjórnsýslu á faglegan hátt. Vísað er til reynslusveitarfélaga og lærdóms sem draga megi af yfirtöku þeirra á verkefnum. Segir að árangurinn hafi orðið mestur þar sem tilraunirnar voru hvað stærstar í sniðum. Fjallað er um tillögur sameiningarnefndar sem lögð var fram í september sl. þar sem gerðar eru tillögur um sameiningu sveitarfélaga úr 103 í 39. Nefnd um flutning verkefna álítur að fækkun sveitarfélaga á grunni þessara tillagna og efling sveitarstjórnarstigsins séu veigamiklar forsendur fyrir flutningi verkefna á sviði heilbrigðis- og öldrunarþjónustu frá ríki til sveitarfélaga. Jafnvel þurfi að koma til enn frekari sameiningar en tillagan geri ráð fyrir eigi að flytja ,,þau flóknu og margháttuðu viðfangsefni sem heyra undir heilbrigðis- og öldrunarþjónustu.
pdf-takn Skýrsla nefndarinnar...

Viðhorf almennings til aðgengis að eigin heilsufarsupplýsingum
Hafin er rannsókn á viðhorfum almennings til aðgengis að eigin persónu- og heilsufarsupplýsingum og þjónustu Tryggingastofnunar ríkisins á Netinu. Með rannsókninni er leitað eftir óskum, skilningi og viðhorfum bótaþega og almennings til þess að hafa aðgengi að eigin upplýsingum hjá heilbrigðis- og almannatryggingakerfinu og þjónustu Tryggingastofnunar á Netinu. Sagt er frá verkefninu á heimasíðu TR.
Nánar...

Velferðarsjóði barna veitt viðurkenning
Barnaheill hafa veitt Velferðarsjóði barna verðlaun samtakanna fyrir sérstakt framlag í þágu barna og réttinda þeirra. Velferðarsjóð barna stofnuðu Íslensk erfðagreining og heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið snemma árs 2000 í tengslum við útgáfu starfsleyfis sem ráðuneytið veitti Íslenskri erfðagreiningu til að reka gagnagrunn á heilbrigðissviði. Sjóðurinn á um 600 milljónir króna en stofnfé hans, 500 milljónir króna, var gjöf ÍE til íslenskra barna. Sjóðurinn hefur veitt um 300 milljónir króna í fjölmargra verkefna sem öll efla velferð barna. Verkefnið sem hvað mesta athygli vakti á sínum tíma var fyrsta hvíldar- og hjúkrunarheimilið fyrir langveik börn, Rjóðurs. Barnahús og Hringurinn hafa áður fengið viðurkenningu Barnaheilla.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
25. nóvember 2004

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum