Hoppa yfir valmynd
16. desember 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Merkasta framfaraskrefið hjá FSA á síðari árum

Halldór Benediktsson, yfirlæknir myndagreiningadeildar FSA, Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, og Halldór Jónsson, framkvæmdastjóri FSA. Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, tók í notkun nýtt segulómtæki Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri við hátíðlega athöfn í gær, en þá voru liðin 51 ár frá því Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri flutti í nýbyggingu á Eyrarlandstúninu, sem er elsti hluta núverandi húsnæðis FSA. Nyrðra eru menn á einu máli um að með þessu tæki sé stigið stórt skref fram á við í þjónustunni við sjúka á svæðinu. – Tilkoma tækisins breytir mjög miklu fyrir myndgreiningardeild FSA og er að mínu mati eitt stærsta og merkasta framfaraskref í þjónustu sjúkrahússins á síðari árum. Það er enginn vafi að við munum mjög fljótt sjá mikla nýtingu á tækinu því þörfin er mikil og stöðugt vaxandi." Þetta sagði Halldór Benediktsson, yfirlæknir á myndgreiningadeild FSA, þegar hann sýndi mönnum tækið. Segulómtækið mun breikka til muna þjónustusvið FSA. Með tilkomu þess aukast greiningar- og rannsóknamöguleikar. Á þetta einkum við varðandi rannsóknir á taugakerfi, einkum heila og mænu, stoðkerfi, hrygg, liðum, vöðvum, sinum og ýmsum stoðvefjum. Þá breytir tækið miklu varðandi æðarannsóknir og í vaxandi mæli hvað varðar önnur líffærakerfi. Þá nýtist tækið einnig vel við krabbameinseftirlit. Þörfin fyrir tækið er mikil á upptökusvæði FSA að sögn forsvarsmanna sjúkrahússins. Þörfin var greind fyrir fimm árum og var þá talið að um 200 sjúklingar færu árlega til Reykjavíkur til að sækja þjónustu sem þessa. Nú er talið að sjúklingarnir séu um 800 talsins á ársgrundvelli og út frá þeirri tölu má reikna þjóðhagslegan sparnað um 20 milljónir króna á ári. Sjuklingur
Kaup á segulómtæki hafa um árabil verið á óskalista FSA en um tvö ár eru síðan ákvörðun var tekin um kaupin og undirbúningur hófst. Efnt var til útboðs og keypt mjög fullkomið tæki frá Siemens verksmiðjunum í Þýskalandi. Um er að ræða nýja kynslóð slíkra tækja frá Siemens þannig að fullyrða má að umræddur búnaður sé með því allra fullkomnasta sem tíðkast í heiminum í dag. Tækið er keypt á fimm ára rekstrarleigusamningi og með framlengingarmöguleika samnings um tvö ár. Árlegur kostnaður er um 30 milljónir króna fyrstu fimm árin en verulega lægri á framlengingartíma samnings. Vegna tækisins þarf einnig að bæta við stöðugildum starfsfólks sem fær sérstaka þjálfun á myndgreiningardeild til að vinna með tækið. Þá þurfti að koma tækinu fyrir í sérhönnuðu herbergi en blýklæðning er t.a.m. í veggjum þess til að verja tækið utanaðkomandi rafsegulbylgjum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum