Hoppa yfir valmynd
17. desember 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 11 - 17. desember 2004

Styrkir til gæðaverkefna fyrir árið 2005

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið auglýsir til umsóknar styrki vegna gæðaverkefna í heilbrigðiskerfinu í samræmi við Gæðaáætlun heilbrigiðs- og tryggingamálaráðuneytisins. Verðmæti hvers styrks er á bilinu 100.000 kr. – 500.000 kr. og fer upphæð styrksins eftir eðli og umfangi verkefnanna.

Nánar...

Veruleg stytting biðlista vegna skurðaðgerða á Landspítala - háskólasjúkrahúsi

Biðlistar eftir skurðaðgerðum á Landspítala – háskólasjúkrahúsi hafa styst um tæp 20% frá nóvember í fyrra samkvæmt stjórnunarupplýsingum sjúkrahússins fyrir tímabilið janúar – október 2004. ,,Nú bíða 233 einstaklingar eftir almennri skurðaðgerð en í fyrra biðu 706. Flestir þeirra bíða eftir aðgerð vegna vélindabakflæðis og þindarslits eða 100 einstaklingar og er meðalbiðtíminn rúmir 7 mánuðir. Í fyrra biðu 303 eftir slíkri aðgerð og var meðalbiðtíminn þá rúmir 13 mánuðir.” Fram kemur að bið hefur verið hvað lengst eftir aðgerð á augasteini, en eftirspurn eftir slíkum aðgerðum hefur stóraukist á síðustu árum og nemur aukningin nærri 20% á þessu ári. Bið eftir slíkum aðgerðum er að jafnaði tæpt eitt ár.

Nánar...

Helmingi færri reykja nú í aldurshópnum 30 – 40 ára en fyrir tólf árum

Verulegur munur er á reykingum fólks eftir aldurshópum, að því er fram kemur í nýrri samantekt sem Lýðheilsustöð hefur látið vinna úr niðurstöðum þriggja kannana á tóbaksnotkun Íslendinga árið 2004. Niðurstöðurnar sýna að innan við 20% fólks á aldrinum 15 – 89 ára reykja daglega en til samanburðar reyktu um 30% landsmanna fyrir tólf árum. Reykingamenn eru fáir í elsta aldurshópnum. Meðal unglinga er hlutfallið einnig lágt eða um 12%. Hæst hlutfall reykingamanna er meðal karla á aldrinum 20 – 29 ára þar sem fjórði hver maður reykir daglega, að því er fram kemur í samantekt Lýðheilsustöðvar. Mestar breytingar hafa orðið á reykingavenjum fólks milli þrítugs og fertugs þar sem helmingi færri reykja nú en fyrir tólf árum. Í frétt á heimasíðu Lýðheilsustöðvar segir að breyttar reykingavenjur hafi þegar komið fram í betra heilsufari sem sjáist ekki síst á fækkun hjarta- og æðasjúkdóma.
Nánar...

 

ESPAD könnunin: varað við vaxandi notkun unglinga á ,,sniffi”

Í vikunni var kynnt samtímis í 35 Evrópulöndum skýrsla Evrópuráðsins um vímuefnaneyslu 15 – 16 ára unglinga, s.k. ESPAD skýrsla. Þar kemur fram að umtalsverðar breytingar hafa orðið á vímuefnaneyslu unglinga í Evrópu síðastliðin árra ár og síðast en ekki síst sýna niðurstöðurnar að íslenskir unglingar standa þar nokkuð vel að vígi þegar á heildina er litið. Skugga ber þó á varðandi neyslu ólöglegra vímuefna þar sem niðurstöður sýna að hassneysla fer vaxandi meðal íslenskra unglinga. Það virðist vera í umferð í töluverðum mæli og tiltölulega auðvelt fyrir 15 – 16 ára unglinga að nálgast það. Þá benda niðurstöðurnar til þess að s.k. ,,sniff” sé að aukast jafnt og þétt meðal íslenskra unglinga sem er verulegt áhyggjuefni. Í frétt um málið á heimasíðu Lýðheilsustöðvar er bent á að ,,sniff” virðist ganga í bylgjum. Opinber umfjöllun um afleiðingar þess hræði ungt fólk frá sniffi, en verði hlé á umræðunni virðist sem notkun þess taki sig upp á nýjan leik. Hægt er að skoða niðurstöður ESPAD könnunarinnar á heimasíðu Lýðheilsustöðvar.

Nánar...

 

Lyfjastofnunar birtir lista sem auðvelda vöruflokkun vegna innflutnings

Lyfjastofnun bendir á það á heimasíðu sinni að algengt sé að einstaklingar kaupi á netinu vörur sem innihalda efni sem flokkast sem lyf. Mikið af þessu eru vörur fluttar inn frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES), aðallega Bandaríkjunum. Samkvæmt reglugerð nr. 212/1998 um innflutning einstaklinga á lyfjum til eigin nota er óheimilt að flytja til landsins lyf frá ríkjum utan EES. Lyfjastofnun heldur saman listum yfir flokkun jurta og annarra lífvera og flokkun algengra innihaldsefna í fæðubótarefnum og náttúruvörum. Bent er á að þeir sem hyggjast kaupa fæðubótarefni eða náttúruvörur á netinu geti kannað á listunum hvernig einstök innihaldsefni flokkast, hvort innflutningur sé heimill, háður mati, hvort sækja þurfi um markaðsleyfi til innflutnings eða hvort innflutningur sé alfarið bannaður. Listar þessir eru birtir á heimasíðu Lyfjastofnunar. Einnig veita starfsmenn Lyfjastofnunar upplýsingar.

Nánar...

 

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
17. desember 2004



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum