Hoppa yfir valmynd
24. janúar 2022 Innviðaráðuneytið

Mál nr. 105/2021 - Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 105/2021

 

Skipting hitakostnaðar.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með álitsbeiðni, dags. 27. október 2021, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnd gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, móttekin 26. nóvember 2021, lögð fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 24. janúar 2022.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið C, alls sjö eignarhluta. Aðilar eru eigendur íbúða á þriðju hæð hússins. Ágreiningur er um þátttöku gagnaðila í kostnaði vegna sameiginlegt hitamælis.

Kröfur álitsbeiðanda eru:

Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að greiða hlut í hitakostnaði í samræmi við ákvæði eignaskiptayfirlýsingar.

Í álitsbeiðni kemur fram að sameiginlegur  hitaorkumælir sé fyrir báðar íbúðirnar og eigandi íbúðar álitsbeiðanda sé skráður greiðandi á reikningum frá Veitum ohf. Reikningur berist mánaðarlega en samkvæmt upplýsingum frá Veitum ohf. sé ekki lengur hægt að skipta upp hitakostnaði í samræmi við eignarhluta.

Samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu skipist hitakostnaður þannig að íbúð gagnaðila greiðir 49,97% en íbúð álitsbeiðanda 50,03%. Álitsbeiðandi hafi greitt hitakostnað samkvæmt orkumæli til 1. október 2020 sem nemi 125.301 kr. og sé skuld gagnaðila því 62.612 kr.

Gagnaðili neiti að greiða álitsbeiðanda fyrir hitakostnað af sinni eign og beri því við að engin heitavatnsnotkun hafi verið þar sem ekki hafi verið búið í íbúðinni og skrúfað fyrir ofna. Hún telji sig einungis eiga að greiða fyrir leigu á heitavatnsmæli.

Í greinargerð gagnaðila segir að íbúð hennar hafi staðið auð í um tvö ár. Slökkt sé á vatninu í íbúðinni. Hún geti ekki beðið Veitur ohf. um að slökkva á heitavatnsmæli fyrir íbúðina þar sem íbúðirnar deili honum. Álitsbeiðandi noti mælinn en ekki gagnaðili.

Í ágúst 2021 hafi gagnaðili farið fram á að álitsbeiðandi léti skipta mælinum þannig að íbúðirnar yrðu sjálfstæðar. Þess vegna neiti gagnaðili að greiða útgjöld hans. Álitsbeiðandi hafi ekki viljað skipta mælinum þar sem hann hafi sagt að það væri dýrt. Það sé ekki vandamál gagnaðila að álitsbeiðandi vilji ekki hafa sinn eigin mæli.

Gagnaðili hafi spurt Veitur ohf. hversu mikið þau greiði fyrir mælinn, þ.e. án notkunar. Því hafi verið svarað til að það væru 52,58 kr. á dag. Gagnaðili hafi boðist til að borga helming þeirrar fjárhæðar.

Heitt vatn sé mæld þjónusta þar sem greitt sé fyrir notkun. 

III. Forsendur

Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 43. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, fellur undir sameiginlegan kostnað opinber gjöld sem reiknuð eru af húsinu í heild, svo sem hitakostnaður. Um skiptingu sameiginlegs kostnaðar gilda 45. og 46. gr. sömu laga. Meginreglan kemur fram í A lið 45. gr., en samkvæmt henni skiptist allur kostnaður hverju nafni sem hann nefnist, sem ekki fellur ótvírætt undir B og C liði 45. gr., eftir hlutfallstölum eignarhluta í viðkomandi séreign. Í B og C liðum 45. gr. er sett fram undantekning frá meginreglunni, en í B lið eru taldir upp þeir kostnaðarþættir í rekstri sameignar sem skiptast skuli að jöfnu. Samkvæmt C lið 45. gr. skal kostnaði þó jafnan skipt í samræmi við not eigenda ef unnt er að mæla óyggjandi not hvers og eins.

Í gildandi eignaskiptayfirlýsingu hússins, dags. 9. nóvember 2002, segir að skipting hitakostnaðar á mæli 3. hæðar sé með þeim hætti að íbúð gagnaðila greiði 49,97% af kostnaði mælisins en íbúð álitsbeiðanda greiði 50,03%.

Kærunefnd telur að hita í séreignum beri að skipta á milli eigenda í samræmi við eignarhluta þeirra samkvæmt ofangreindri meginreglu um hlutfallsskiptingu sameiginlegs kostnaðar, nema unnt sé að mæla notkun í hverjum séreignarhluta fyrir sig. Fyrir liggur í máli þessu að sameiginlegur hitamælir er fyrir 3. hæð hússins og þannig er ekki unnt að mæla notkun hvers séreignarhluta fyrir sig á þeirri hæð. Telur kærunefnd því að skipta verði hitakostnaði 3. hæðar í samræmi við ákvæði eignaskiptayfirlýsingar og fellst á kröfu álitsbeiðanda.

Álit nefndarinnar hindrar ekki aðila í að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti, sbr. 6. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús.


 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að gagnaðila beri að greiða álitsbeiðanda hitakostnað að fjárhæð 62.612 kr.

 

Reykjavík, 24. janúar 2022

f.h. kærunefndar húsamála

 

Auður Björg Jónsdóttir formaður

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum