Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 450/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 450/2022

Miðvikudaginn 2. nóvember 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 8. september 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. september 2022 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 3. júní 2022. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 6. september 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing hefði ekki verið fullreynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 8. september 2022. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 3. október 2022, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. október 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru óskar kærandi eftir því að ákvörðun Tryggingastofnunar verði endurskoðuð.

Kærandi greinir frá því að umsókn hans um örorku hafi verið hafnað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Kærandi hafi brotið bátsbein í hendi mjög illa. Hann hafi farið í fimm aðgerðir hjá bæklunarlækni vegna brotsins, þá síðustu þann 7. september 2022. Bæklunarlæknir hafi í upphafi greint frá því að helmingslíkur væru á því að kærandi fengi einhverja hreyfigetu til baka. Kærandi sé með litla sem enga hreyfigetu í annarri hendinni og  geti ekki skrifað nafnið sitt eðlilega. Bæklunarlæknir hafi greint frá því að svona verði hreyfigetan í hendinni það sem eftir sé og það að ná lítilli hreyfigetu til baka sé betra en ekkert. Frekari endurhæfing geri ekki neitt gagn þar sem kærandi sé með víravirki í hendinni sem vari að eilífu.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærandi hafi sótt um örorkulífeyri og tengdar greiðslur sem hafi verið synjað með bréfi, dags. 6. september 2022, með vísan til þess að ekki væri tímabært að taka afstöðu til örorku hans og bent á lög og reglur um endurhæfingarlífeyri hjá stofnuninni.

Kærandi hafi einungis lokið við sex mánuði á endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun, þrátt fyrir að læknisvottorð og önnur gögn málsins beri með sér að ýmsar endurhæfingarmeðferðir gætu komið til greina hjá kæranda miðað við læknisfræðilegan vanda hans. Öll gögn málsins bendi til að endurhæfing með yfirumsjón fagaðila myndi að öllum líkindum hjálpa kæranda í baráttu sinni við læknisfræðilegan vanda sinn og á þeim forsendum sé kæranda synjað um örorkumat að svo stöddu. Tryggingastofnun vísi á endurhæfingarlífeyri og þegar ekki sé útséð um hvort endurhæfing geti komið að gagni, sé ekki tímabært að senda umsækjendur um örorku í skoðun hjá matslæknum stofnunarinnar.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat. Í niðurlagi 2. mgr. 18. gr. komi fram að heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar.

Þá sé fjallað um endurhæfingarlífeyri í 7. gr. laga um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum. Þar segi meðal annars að heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að átján mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings á aldrinum 18–67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. sömu greinar um allt að átján mánuði ef sérstakar ástæður séu fyrir hendi.

Þá sé í 37. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 661/2020 um endurhæfingarlífeyri, meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins og hafi því öllu verið sinnt í þessu máli.

Kærandi hafi sótt um örorkumat með umsókn þess efnis þann 3. júní 2022. Örorkumati hafi verið synjað samkvæmt 18. gr. og 19. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar með bréfi, dags. 6. september 2022. Því hafi verið synjað vegna þess að samkvæmt innsendum gögnum málsins megi ráða að kærandi hafi ekki lokið endurhæfingu og óljóst þyki að fullreynd sé meðferð innan heilbrigðiskerfisins og framhald á sjúkraþjálfun eins og staðan hafi verið þegar kærandi hafi lokið við sex mánuði í endurhæfingu hjá Tryggingastofnun þann 30. nóvember 2021. Þá megi einnig sjá í kærumálsgögnum að gerð hafi verið ný skurðaðgerð á bátsbeini í hendi kæranda og ekki sé hafin sjúkraþjálfun í kjölfar þeirrar aðgerðar sem sé venjan í slíkum málum. Því sé ekki útséð um að kærandi geti náð aukinni vinnugetu. Á þeim forsendum hafi verið bent á lög og reglur um endurhæfingarlífeyri hjá stofnuninni.

Við mat á örorku styðjist tryggingalæknir við fyrirliggjandi gögn. Við örorkumat lífeyristrygginga þann 6. september 2022 hafi legið fyrir læknisvottorð B, dags.  8. júlí 2022, svör kæranda við spurningalista Tryggingastofnunar vegna færniskerðingar, dags. 13. júlí 2022, og umsókn kæranda, dags. 3. september 2022. Þá hafi einnig verið til staðar ýmis önnur gögn vegna fyrri umsókna kæranda til Tryggingastofnunar.

Í gögnum málsins og sjúkrasögu komi fram að heilsuvandi kæranda, sem sé x ára gamall, sé verkur (R52,9), vefjagigt í öðrum liðum (M19,1), brot á bátsbeini í hægri hendi (62,0) og önnur smærri brot í sömu hendi (S62,0).

Í greinargerð Tryggingastofnunar er gerð grein fyrir því sem fram kemur í læknisvottorði Brynju Steinarsdóttur, dags. 8. júlí 2022.

Af gögnum málsins sé ekki að sjá að reynt hafi verið að taka á heilsufarsvanda kæranda með skipulögðum og markvissum hætti með starfshæfni að markmiði. Tryggingastofnun telji að mikilvægt sé að taka á þeim heilsufarsvandamálum kæranda í heild sem nefnd séu í læknisvottorði með fjölmörgum endurhæfingarúrræðum. Sem dæmi nefnir Tryggingastofnun sjúkraþjálfun vegna líkamlegra einkenna kæranda og meðferð hjá sálfræðingi eða jafnvel geðlækni vegna andlega vandans. Því verði að teljast eðlilegt skilyrði að kærandi gangist undir frekari endurhæfingu áður en hann verði metinn til örorku, sbr. niðurlag 2. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Auk þess skuli bent á að endurhæfing með yfirumsjón fagaðila geti varað í allt að 36 mánuði, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Tryggingastofnun telji þar af leiðandi ekki heimilt að meta örorku hjá kæranda áður en sýnt sé fram á að endurhæfing kæranda sé fullreynd.

Það sé mat Tryggingastofnunar að kærandi uppfylli ekki skilyrði um örorkumat hjá stofnuninni að svo stöddu þar sem endurhæfing hafi ekki verið nægjanlega reynd og telji að enn sé hægt að vinna með heilsufarsvanda kæranda. Á þeim forsendum telji Tryggingastofnun ríkisins það vera í fullu samræmi við öll gögn málsins að synja um örorkumat í tilviki kæranda að svo komnu máli.

Árétta skuli að það sé ekki hlutverk Tryggingastofnunar að leggja til meðferðar- eða endurhæfingarúrræði heldur sé sú ábyrgð lögð á lækna kæranda. Læknarnir beri ábyrgð á því að koma umsækjendum um endurhæfingarlífeyri og/eða örorkulífeyri í viðeigandi endurhæfingarúrræði sem taki mið af vanda einstaklingsins hverju sinni, líkt og kveðið sé á um í niðurlagi synjunarbréfs Tryggingastofnunar til kæranda þann 6. september 2022.

Tryggingastofnun telji nauðsynlegt að kærandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Mikilvægt sé að einstaklingar sem hugsanlega sé hægt að endurhæfa frekar, fullnýti öll möguleg endurhæfingarúrræði sem í boði séu við þeim heilsufarsvandamálum sem hrjái þá. Með endurhæfingarúrræðum í þessum skilningi sé átt við þverfagleg, einstaklingsmiðuð úrræði sem eigi að stuðla að virkri þátttöku einstaklings í samfélaginu. Þá verði ekki ráðið af gögnum málsins að veikindi kæranda séu þess eðlis að endurhæfing geti ekki komið að gagni.

Beiting undantekningarákvæðis 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 sé að mati Tryggingastofnunar aðeins heimil ef líkamleg og andleg færni sé svo mikið skert að augljóst sé að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati Tryggingastofnunar eigi það ekki við í tilviki kæranda.

Niðurstaða Tryggingastofnunar um afgreiðslu á umsókn kæranda, þ.e. að synja um örorkumat að svo stöddu og vísa í endurhæfingu, sé rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu. Jafnframt skuli áréttað að hin kærða ákvörðun byggist á faglegum sjónarmiðum og gildandi lögum og reglugerðum. Einnig megi vísa til fyrri sambærilegra fordæma fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála þar sem staðfest hafi verið að Tryggingastofnun hafi heimild til þess að krefjast þess af umsækjendum um örorkulífeyri að þeir fullreyni fyrst öll þau úrræði sem þeim standi til boða áður en til örorkumats komi.

Tryggingastofnun fari fram á staðfestingu á fyrri ákvörðun sinni um synjun á örorkumati að svo stöddu hjá kæranda, sbr. synjunarbréf stofnunarinnar þess efnis, dags. 6. september 2022, fyrir nefndinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. september 2022 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt hafi verið að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. og 2. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. 8. júlí 2022. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„VERKUR

POST-TRAUMATIX ARTHROSIS OF OTHER JOINTS

FRACTURE OF NAVICULAR [SCAPHOID] BONE OF HAND

FRACTURE OF OTHER METACARPAL BONE“

Þá segir svo um heilsuvanda og færniskerðingu nú:

„x ára áður hraustur C maður sem datt á hæ. hendi í vinnunni í janúar 2021. Leitaði á BMT í Fossvogi, kom í ljós á röntgen að hann væri líklega með gamalt bátsbeinsbrot hæ. megin frá 2019 og fékk tilvísun til bæklunarlæknis:  D, Hann hitti bæklunarlækni í apríl 2021 og þá greindur með gamalt brot í hæ. bátsbeini ásamt slitgigtar í hæ. úlnlið og brot á nærenda fjórða miðhandarbeins hæ. handar. Fór í aðgerð í apríl 2021. Var í gifsi eftri aðgerð en þegar gifs var tekið kom í ljós á myndrannsókn að los sé á beinum og skrúfum. Enduraðgerð í júní 2021. Hann er enn með mikla verki og skerta hreyfigetu í hendinni, hann fær aukna taugaverki þegar hann reynir að beita hendiog missir þá gjarnan hluti. Tekið inn sterk verkjalyf daglega.

Síðast hjá sínum bæklunarlækni í 6/5/22: „Við skoðun ekki að þreifa enda pinna á handarbaki. Hreyfingar (hægri/vinstri): beygja 15°/80°, rétta 15°/75°, rétthverfing 90°/90° og ranghverfing 45°/90°. Fæ myndir. Svör ekki komin. Sýna að dómi undirritaðs frekari gróanda og ekki merki skriðs á höfuðbeini gagnvart mánabeini. Gróandi orðinn milli mánabeins og krókbeins. Pinni, sem settur var í síðast, brotinn en virðist ekki hafa gengið út í átt að handarbaki meira en eins og 2mm. Langt og ítarlegt samtal. Sýni myndir og líkan og skýri. Engin ábending til frekari skurðaðgerða að sinni. Þar sem pinninn þreifast ekki er tæplega ábending til að kafa eftir honum eins og er. Hinsvegar er lögð rík áhersla á það við þau bæði að finni hann enda pinnans eigi hann að panta tíma og yrði tekinn skjótt til einfalds brottnáms eftir staðdeyfingu á göngudeild. Skrifa lyfseðil fyrir Tramadol. Tel frábending fyrir Oxicontin héðan af með ávanahættu og fleira í huga. Ráðlegg honum að taka eins lítið og hann kemst af með Tramadol forðatöflurnar og byrja í hálfri töflu og sjá hvort það dugi, getur endað í 1x2. Legg að honum að taka Panodil með svo minnka megi notkun Tramadols en á því lyfi hefur parið litla trú. Eins og stundum hringir A til fósturföðurs síns, E, sem tekur þátt í viðtali gegnum hátalara á símanum. Niðurstaða þess þáttar verður að E hafi samband við heilsugæsluna ef og þegar þarf framlengingu á vottorðum. Eftirlit svo aftur hjá undirrituðum eftir sex mánuði með nýjum myndum og þá tölvusneiðmyndum að auki. Skrifa í dag beiðni þar sem skýrt er óskað eftir myndatöku 1/9 og svo yrði tími hjá undirrituðum 7/9. Fyrr, sem fyrr segir, þurfi þess.

Verið í sjúkra.

Andleg vanlíðan í kjölfarið á ofangreindum vekrjavanda og hann greindist á heilsugæslunni í janúar 2022 með þunglyndi og kvíða. Hafin meðferð wellbutrin síðar olansapin að fengnu áliti geðlæknis.“

Lýsing læknisskoðunar er svohljóðandi í vottorðinu:

„samtal á ensku

obj gott almennt útlit, geðslga neturalt snyrtilegur og kurteis, göngulag eðlilegt

hæ hendi: er með ör langsum yfir ulnlið ca 7 cm að lengd prominerandi og bólgin fleksjónsin til 2. fingur sá metacarpalsvæði eymsl í liðlínum úlnliðarlateralt og medialg og yfir schapoidealsvæði hreyfiferlar skertir við fleksjón og ekstension , greinilega máttminni hægri hendi við sambanubðr við vinstri, þreifskin virðist eðl eðl kapilær respons og hreyfiferlar fingra virðast í lagi að mestu.“

Í læknisvottorðinu kemur fram að kærandi hafi verið óvinnufær síðan 8. júlí 2022 og að búast megi við því að færni aukist með tímanum. Í athugasemdum segir:

„A hefur verið í sjúkraþjálfun sem lið í endurhæfingu  en segir það ekki hafa skilað neinum árangri. Undirrituðum er ekki með nein gögn frá sjúkraþjálfa mtt framgangs. A hefur ekki trú á að endurhæfing skili honum betri færni og óskar sjálfur eftir að sækja um örorku.“

Í læknisvottorði F, dags. 1. apríl 2022, vegna umsóknar kæranda um endurhæfingarlífeyri, segir svo um sjúkrasögu kæranda:

„Hann hitti bæklunarlækni í apríl 2021 og þá greindur með gamalt brot í hæ. bátsbeini ásamt slitgigtar í hæ. úlnlið og brot á nærenda fjórða miðhandarbeins hæ. handar. Fór í aðgerð í apríl 2021. Var í gifsi eftri aðgerð en þegar gifs var tekið kom í ljós á myndrannsókn að los sé á beinum og skrúfum. Enduraðgerð í júní 2021. Hann er enn með mikla verki og skerta hreyfigetu í hendinni, þarf að taka inn sterk verkjalyf (oxycontin) daglega. Hann fer aftur til bæklunarlæknis í apríl nk. Og þarf mögulega að fara aftur í aðgerð. Bæklunarlæknir er búin að gefa leyfi fyrir endurhæfingu hjá sjúkraþjálfara og hann var lengi á bíðlista en er núna byrjaður hjá sjúkraþjálfara á G. Einnig andleg vanlíðan í kjölfarið, greindist með þunglyndi og kvíða í janúar 2022 á heilsugæslunni og er byrgjaður á kvíðalyfjum (wellbutrin) og stendur til að panta tíma hjá sálfræðing en hefur verið erfitt að finna annan sálfræðing þar sem hann talar bara C, ekki íslensku né ensku og hann á ekki efni á að fara til sálfræðings í bili þar sem hann hefur ekki fengið greðislur í langan tíma.

Sjúkrahús: Aðgerð 19.04.2021 og enduraðgerð 30.06.2021. Bæklunarlæknir D, LSH.

Slys:

Lýsing: x ára áður hraustur C maður sem datt á hæ. hendi í vinnunni í janúar 2021, Leitaði BMT í Fossvogi, kom í ljós á röntgen að hann væri líklega með gamalt bátsbeinsbrot hæ. megin frá 2019 og fékk tilvísun til bæklunarlæknis.

Niðurstöður rannsókna:

Hæ. hönd: Bólga yfir handhrygg og er hvellaumur. Getur mjög lítið flekterað og extendað úlnlið. Geðskoðun: Snyrtilegur til fara, myndar ágæt tengsl, er rólegur og með áhætt úthald. Tal eðlilegt að formi og flæði. Aðeins ör. Heldur ágætlega þræði í frásögn. Sýnir eðlileg svipbrigði. Geðslag metið hlutlaust. Engin geðrofseinkenni koma fram í viðtali. Neitar sjálfsvígshugsunum og er ekki metinn í sjálfsvígshættu.PHQ9=11, miðlungs alvarleg þunglyndiseinkenniGAD7=13, miðlungs kvíðaeinkenni.

Samantekt:

Núverandi vinnufærni: Óvinnufær vegna verkja og skertra hreyfigetu í hæ. hendi ásamt andlega vanlíðan.

Framtíðar vinnufærni: Góðar líkur að hann komist aftur út á vinnumarkaði eftir meðferð hjá bæklunarlækni, sjúkraþjálfun og meðferð við þunglyndi og kvíða. Þarf sennilega að fara í starfsendurhæfingu.

Samantekt: x ára maður sem brotnaði á hæ. bátsbeini, hefur farið tvísvar í aðgerð en er enn með mikla verki og skerta hreyfigetu í hendinni. Hann ætlar að byrja endurhæfingu hjá sjúkraþjálfara og er í eftirlit hjá bæklunarskurðlækni á LSH. Einnig andleg vanlíðan í kjölfarið og er á kvíðalyfjum.“

Tillaga um meðferð er svohljóðandi í læknisvottorðinu:

„Endurhæfing hjá sjúkraþjálfara á G x1-2 í viku í a.m.k. 3-6 mánuðir til viðbotar- Eftirfylgd hjá bæklunarlækni í apríl 2022- Eftirfylgd á heilsugæslunni mtt. þunglyndis og kvíða- Sækja um VIRK í framhaldinu.“

Með vottorðinu fylgdu viðbótarupplýsingar sem eru svohljóðandi:

„Hann fékk höfnun á umsókn um endurhæfingarlífeyri í desember sl., endurhæfingaráætlun og enduræfingarvottorð sent 02.12.2021  (H læknir) og hann hefur ekki fengið greðislur síðan 01.11.2021. U-r búin að senda umsókn um endurhæfingarlífeyri 06.01.22 sem er ekki ennþá samþykkt.“

Einnig liggja fyrir læknisvottorð vegna eldri umsókna kæranda um endurhæfingarlífeyri.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Eins og áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Þá var kæranda leiðbeint að fá ráðgjöf hjá lækni um þau endurhæfingarúrræði sem væru í boði.

Fyrir liggur að kærandi býr við vandamál af líkamlegum toga. Í fyrrgreindu læknisvottorði B, dags. 8. júlí 2022, kemur fram að kærandi hafi verið óvinnufær síðan 8. júlí 2022 og búast megi við því að færni aukist með tímanum. Þá segir í athugasemdum að kærandi óski sjálfur eftir því að sækja um örorku og lýsi því að endurhæfing skili honum ekki betri færni. Ekki hafi borist gögn þess efnis frá sjúkraþjálfara kæranda. Í fyrrgreindu læknisvottorði F, dags. 1. apríl 2022, segir að góðar líkur séu á að kærandi komist aftur út á vinnumarkað. Tillaga um meðferð sé áframhaldandi endurhæfing hjá sjúkraþjálfara og eftirfylgni hjá bæklunar- og heimilislækni. Í framhaldi af því sé ráðlagt að sækja um starfsendurhæfingu hjá VIRK. Þá liggur fyrir að kærandi hefur fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun í sex mánuði en heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á áframhaldandi endurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kemur.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. september 2022, um að synja kæranda um örorkumat.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkumat, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum