Hoppa yfir valmynd
28. september 2007 Utanríkisráðuneytið

Fundur utanríkisráðherra Norðurlandanna og sameiginleg stuðningsbeiðni við framboð Íslands til öryggisráðsins

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 103/2007

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra tók á fimmtudag þátt í reglulegum fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna sem haldinn er í tengslum við allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna (SÞ).

Eitt megin umfjöllunarefni fundarins var ímynd og staða Norðurlandanna á vettvangi SÞ og norræna víddin í starfsemi samtakanna, m.a. í friðargæslu og þróunarsamvinnu. Voru ráðherrarnir sammála um að þrátt fyrir trausta stöðu ríkjanna á þessum vettvangi, þá mætti vinna enn frekar að styrkingu norrænna gilda í starfsemi SÞ. Framboð Íslands til öryggisráðs SÞ var rætt í þessu samhengi og gerði utanríkisráðherra þar grein fyrir stöðu kosningabaráttunnar, m.a. þeim fjölda tvíhliða funda sem hún á við starfssystkini sín þessa vikuna í New York.

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna sendu þann 17. september 2007 sameiginlegt bréf þar sem mikilvægi framboðsins fyrir Norðurlöndin er áréttað og þakkað er fyrir góðan stuðning sem framboðið hefur nú þegar fengið. Bréfið var sent til utanríkisráðherra annarra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna, 187 talsins.

Í bréfi ráðherranna kemur fram að Ísland, Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð vinni sameiginlega að framboði Íslands til öryggisráðsins fyrir tímabilið 2009-2010. Þá þakka ráðherrarnir yfirlýstan stuðning ríkja við framboð Íslands til öryggisráðsins, en nú er rúmt ár þar til kosning fer fram.

Ísland er í fyrsta skipti í framboði til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Kosningarnar fara fram í október 2008 og eru þrjú ríki í framboði til þeirra tveggja sæta sem standa Vesturlandahópnum til boða tímabilið 2009-2010: Austurríki, Ísland og Tyrkland. Hin Norðurlöndin hafa öll setið í öryggisráðinu, Danmörk og Noregur fjórum sinnum, Svíþjóð þrisvar sinnum og Finnland tvisvar sinnum. Finnland býður sig fram á ný til setu í öryggisráðinu fyrir hönd Norðurlandanna árin 2013-2014 og Svíþjóð árin 2017-2018.

Norðurlöndin öll hafa getið sér gott orð innan Sameinuðu þjóðanna fyrir jákvæða og uppbyggilega framgöngu. Áherslumál Íslands innan samtakanna er virðing fyrir mannréttindum, efling lýðræðis, sjálfbær þróun, umhverfis- og loftlagsmál, málefni hafsins, barátta gegn fátækt, þróunarsamvinna, friðargæsla, staða kvenna og barna á átakasvæðum og virðing fyrir grundvallarreglum þjóðaréttar.

Bréf utanríkisráðherra Norðurlandanna (á ensku)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum