Hoppa yfir valmynd
18. mars 2011 Heilbrigðisráðuneytið

Tillögur um nýtt heildarskipulag sérfræðiþjónustu lækna

Stýrihópur sem Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra skipaði í desember á liðnu ári til að gera tillögur um nýtt heildarskipulag sérfræðiþjónustu lækna á Íslandi hefur skilað ráðherra niðurstöðum sínum.

Samkvæmt erindisbréfi var hlutverk stýrihópsins að fjalla um hvernig best sé að skipuleggja sérfræðiþjónustu lækna í heild og skýra hlutverk og stöðu sjálfstætt starfandi sérfræðinga innan heilbrigðiskerfisins og hvernig kraftar þeirra verði best nýttir í þágu heilbrigðisþjónustu á landinu öllu.

Hópnum var einkum falið að skoða hvaða sjúkdóma og klínísk vandamál eigi að fela sérfræðilæknum öðrum en heimilislæknum, verkaskiptingu milli sérgreina og hvaða verkefni megi mögulega fela öðrum heilbrigðisstéttum en læknum. Einnig var hópnum ætlað að leggja mat á hvað megi teljast eðlileg nýting sérfræðiþjónustu vegna tiltekinna heilbrigðisvandamála. hvort færa skuli eitthvað af þjónustu sérfræðilækna út fyrir ramma sjúkratrygginga, hvaða þjónustu skuli veita í nærumhverfi sjúklinga og hvort efla eigi göngudeildarstarfsemi sjúkrahúsa og þá hvernig.

Tillögur stýrihópsins til ráðherra eru ellefu og er þeim skipt í tvo flokka. Annars vegar eru tillögur um fimm aðgerðir sem hópurinn leggur til að verði hrint í framkvæmd án tafar og hins vegar sex viðfangsefni sem ætla þarf lengri tíma til að koma í framkvæmd.

Lagt er til að ráðist verði í eftirtaldar aðgerðir án tafar:

  • Lokið verði við gerð samfelldrar rafrænnar sjúkraskrár sem nái til allra nauðsynlegra upplýsinga um hvern einstakan sjúkling „frá vöggu til grafar“.
  • Skilgreint verði hvaða heilbrigðisþjónusta skuli falla undir sjúkratryggingar og hve löng bið megi vera að hámarki eftir tiltekinni þjónustu.
  • Flæði sjúklinga milli heilsugæslu og sérfræðinga verði bætt, til dæmis með beinum aðgangi heimilislækna að tímabókunarkerfi sérfræðinga.
  • Fjármunum til heilbrigðisþjónustu verði ráðstafað út frá heildaryfirsýn sem tekur mið af jafnræði, gæðum, framleiðslu og árangri og fjármagni til sérfræðiþjónustu útdeilt á grundvelli þarfagreiningar fyrir hvert heilbrigðisumdæmi.
  • Reglugerð um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu verði endurskoðuð og einfölduð og tekið upp greiðsluflokkunarkerfi sem beini sjúklingum þangað sem hagkvæmast er að veita þjónustuna á hverjum tíma.

 
Verkefni sem lagt er til að verði einnig ráðist í en unnin á lengri tíma eru að:

  • Gerðar verði þarfa- og kostnaðargreiningar fyrir sérfræðiþjónustu mismunandi sérgreina fyrir landið í heild og innan einstakra heilbrigðisumdæma.
  • Lagt verði hlutlægt mat á það hvaða rekstrarform og greiðslufyrirkomulag henti best innan heilbrigðiskerfisins.
  • Dag- og göngudeildarþjónusta sjúkrahúsa verði endurskoðuð.
  • Samdar verði leiðbeiningar um verklag og verkaskiptingu sérfræðilækna.
  • Eftirlit með gæðum heilbrigðisþjónustu verði aukið, þar með talið eftirlit með starfsemi sérfræðilækna inni á sjúkrastofnunum og í sjálfstæðum rekstri.
  • Gerðar verði mönnunaráætlanir til næstu ára fyrir helstu sérgreinar lækninga, þar með taldar heimilislækningar, með það fyrir augum að tryggja nægt framboð þjónustu í hverri grein til frambúðar.

Ítarlega er fjallað um einstakar tillögur í skýrslu stýrihópsins.

Velferðarráðuneytið mun senda skýrsluna til umsagnar til félaga heilbrigðisstétta, sjúkrahúsa, heilbrigðisstofnana, stjórnsýslustofnana, frjálsra félagasamtaka og annarra sem málið varðar. Umsagnir og athugasemdir skulu berast velferðarráðuneytinu eigi síðar en 18. apríl næstkomandi.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum