Hoppa yfir valmynd
26. október 2004 Dómsmálaráðuneytið

Sviss aðili að Schengen-samstarfi

Við hátíðlega athöfn í Lúxemborg skrifaði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra í dag undir samninga um þátttöku Sviss í Schengen-samstarfinu og samsettu nefndinni sem er vettvangur samstarfs Íslands og Noregs og ráðs Evrópusambandsins um Schengen málefni.

Fréttatilkynning
Nr. 13/ 2004

Við hátíðlega athöfn í Lúxemborg skrifaði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra í dag undir samninga um þátttöku Sviss í Schengen-samstarfinu og samsettu nefndinni sem er vettvangur samstarfs Íslands og Noregs og ráðs Evrópusambandsins um Schengen málefni. Með samningunum verður Sviss þátttakandi í samstarfinu með sama hætti og Ísland og Noregur að því er varðar undirbúning löggjafar, en full þátttaka með sameiginlegum ytri landamærum er ekki áætluð fyrr á árinu 2007. Dómsmálaráðherra skrifaði jafnframt undir samning um þátttöku Sviss í svokölluðu Dyflinnarsamstarfi Evrópusambandsins, Íslands og Noregs, um það hvernig ákveða beri hvaða ríki skuli fara með umsókn um pólitískt hæli, sem fram er borin í einhverju aðildarríkjanna.

Dómsmálaráðherra sótti einnig í Lúxemborg fund dóms- og innanríkisráðherra Evrópusambandsríkjanna 25 auk Íslands og Noregs á vettvangi samsettu nefndarinnar innan Schengen samstarfsins, en Norðmenn fara nú með formennsku í samsettu nefndinni.

Meðal umræðuefna á fundi ráðherranna var löggjöf um lífkenni í vegabréf en stefnt er að því að vegabréf sem gefin verða út í framtíðinni beri lífkenni vegabréfshafa. Miðað er við að andlitsmynd verði í tölvulesanlegu formi í öllum nýjum vegabréfum eftir 18 mánuði og auk þess fingraför eftir þrjú ár í síðasta lagi. Samstaða er um að hér sé um mikilsvert öryggisatriði að ræða og stefna aðildarríkin að því að hraða undirbúningsvinnu eins og unnt er. Er stefnt að lokaákvörðun um málið 19. nóvember næstkomandi. Fyrir nokkru skipaði dómsmálaráðherra starfshóp undir formennsku Georgs Lárussonar forstöðumanns Útlendingastofnunar til að undirbúa breytingar á íslenskum vegabréfum. Bandaríkjamenn hafa sem kunnugt er kynnt áform um að þeir sem ekki verði með lífkenni í vegabréfum sínum eftir eitt ár þurfi vegabréfsáritun til að mega ferðast til Bandaríkjanna.

Þá var samþykkt á Lúxemborgarfundinum ný löggjöf um stofnun og fyrirkomulag Landamærastofnunar Evrópu, sem verið hefur í undirbúningi síðustu misseri. Ísland og Noregur geta tekið þátt í starfsemi stofnunarinnar en samningar ríkjanna tveggja og Evrópusambandsins um aðkomu þeirra að stjórn hennar er ekki lokið.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira