Hoppa yfir valmynd
8. apríl 2019 Innviðaráðuneytið

Öryggismál rædd á fundi Samgöngustofu í tilefni af 100 ára afmæli flugs á Íslandi

Öryggismál rædd á fundi Samgöngustofu í tilefni af 100 ára afmæli flugs á Íslandi - myndRagnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri flytur ávarp á fræðslufundi Samgöngustofu.

Samgöngustofa hélt fjölmennan fræðslu- og öryggisfund laugardaginn 6. apríl, í samstarfi við Flugmálafélag Ísland. Fundurinn var haldinn í tilefni af 100 ára afmæli flugs á Íslandi. Mörg fróðleg erindi voru haldin á fundinum um stöðu og þróun almannaflugs, flugöryggi og þróun þess í almannaflugi. Þá var einnig fjallað um flugnám og réttindi, atvikaskráningu og tölfræði. Sérstakur gestur á fundinum var Thomas Hytten frá Luftfartstyrelsen í Noregi, sem sagði frá almannaflugi þar í landi og á Norðurlöndunum.

Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, sagði í ávarpi sínu ánægjulegt að fylgjast með þeirri öryggismenningu sem hafi fylgt fluginu alla tíð. Flugið væri alþjóðlegt og leikreglur samræmdar á alþjóðavísu, hvort sem um væri að ræða einkaflug eða atvinnuflug. „Þar eiga margir hlut að máli og Flugmálafélagið hefur um margt verið leiðandi afl í flugöryggismálum, í góðu samstarfi við Rannsóknanefnd flugslysa og síðar samgönguslysa og flugmálayfirvöld, með markvissri fræðslu og hvatningu til aga og góðrar faglegrar hegðunar,“ sagði Ragnhildur.

Ráðuneytisstjórinn sagði ennfremur frá fyrstu íslensku flugstefnunni, sem væri í mótun með það að markmiði að skapa umhverfi sem viðheldur grunni fyrir flugrekstur og flugtengda starfsemi á Íslandi og styðja vöxt hennar til framtíðar. „Þar er sérstök áhersla lögð á almannaflug, menntun og þjálfun enda leggur góð menntun og þjálfun flugmanna grunn að auknu flugöryggi. Þetta er metnaðarfull stefna sem vonandi verður íslensku flugi til gæfu,“ sagði Ragnhildur

Fundinum var streymt á netinu og má finna upptökur á vef Samgöngustofu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum