Hoppa yfir valmynd
20. desember 2022 Utanríkisráðuneytið

Grípa til hræðilegra neyðarúrræða til að brauðfæða börn sín

Móðir og barn sitja úti á götu í Kabúl í kulda og snjó og betla peninga/ Scott Peterson/ Getty Images - mynd

Afganskar fjölskyldur grípa til hræðilegra neyðarúrræða til að geta séð fjölskyldum sínum fyrir mat, selja allar eigur sínar, gefa börnum sínum deyfilyf gegn hungurverkjum, selja líffæri sín og selja barnungar dætur sínar, allt niður í eins árs gamlar. UN Women vekur athygli á stöðu kvenna í Afganistan og segir hana hafa versnað til muna frá því talibanar hrifsuðu til sín völdin fyrir rúmu ári.

Algjört efnahagslegt hrun landsins auk tíðra náttúruhamfara á borð við þurrka, flóð og jarðskjálfta hafa orsakað uppskerubresti og haft þær afleiðingar að um 90 prósent afgönsku þjóðarinnar er nú á barmi hungursneyðar.

Rithöfundurinn og fréttastjórinn Christina Lamb líkir atburðarrásinni sem hrundið var af stað fyrir rúmu ári síðan við það að verða vitni að hægum dauða heillar þjóðar. Lýsingin í upphafi fréttarinnar er fengin úr grein hennar í The Times. Hún segir einnig frá því þegar hún hitti Fatimu, átta ára, í janúar á þessu ári og lýsir stúlkunni sem feiminni með augun full af sorg. Faðir Fatimu hafði neyðst til að selja hana í hjónaband svo hægt væri að brauðfæða aðra fjölskyldumeðlimi, en stórfjölskylda Fatimu telur þrjátíu einstaklinga sem draga nú fram lífið á einungis átta brauðhleifum á dag.

Flóð og þurrkar í Afganistan hafa eyðilagt uppskerur og stríðið í Úkraínu hefur heft kornflutning til landsins. Meirihluti þjóðarinnar glímir við sult og um 70 prósent barna eru vannærð. Mæðra- og ungbarnadauði hefur margfaldast á síðastliðnu ári því barnshafandi mæður svelta sig til að geta gefið börnum sínum meira að borða.

Lamb segir afgönsku þjóðina þó búa yfir einstakri þrautseigju eftir að hafa lifað við stríð síðustu fjóra áratugina. En það þarf meira en þrautsegju til að komast í gegnum það neyðarástand sem nú ríkir í landinu. Afganir segja gríðarlega mikilvægt að vita af því að umheimurinn hafi ekki gleymt þeim og sé tilbúin til að veita þeim stuðning.

UN Women hefur sinnt verkefnum í Afganistan í tuttugu ár. Stofnunin og starfsfólk hennar hafa þurft að bregðast hratt við gjörbreyttum aðstæðum og á í stöðugu samtali við talíbanastjórnina svo hægt sé að tryggja áframhaldandi störf í landinu. Meðal mikilvægustu verkefnanna eru mannréttindagæsla og undanfarna mánuði hefur stofnunin eflt til muna þjónustu við þolendur ofbeldis, meðal annars með því að koma á fót kvennaathvörfum, veita konum fjárstuðning, sálgæslu og aðra auðsynlega þjónustu.

„Táknræn jólagjöf UN Women á Íslandi í ár er neyðarpakki til kvenna í Afganistan. Vegna þeirra takmarkana sem afganskar konur búa við eiga þær erfitt með að nálgast nauðsynjar á borð við hreinlætisvörur. Neyðarpakkinn tekur mið af sértækum þörfum kvenna og auðveldar þeim að viðhalda persónulegu hreinlæti,“ segir í frétt frá UN Women.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

2. Ekkert hungur
16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum