Hoppa yfir valmynd
20. júlí 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun sýslumanns um endurgreiðslu ofgreiddrar staðgreiðslu

[…]
[…]
[…]
[…]


Reykjavík 20. júlí 2016
Tilv.: FJR16070035/16.2.3

Efni: Úrskurður ráðuneytisins vegna stjórnsýslukæru [A] og [B] 8. júlí 2016.

Ráðuneytinu hefur borist stjórnsýslukæra hjónanna [A], kt. […], og [B], kt. […], dags. 8. júlí 2016, vegna höfnunar sýslumannsins á Suðurnesjum um endurgreiðslu ofgreiddrar staðgreiðslu [A] sem skuldajafnað var upp í gjaldfallin þing- og sveitarsjóðsgjöld [B].

Málavextir og málsástæður:
Þann 1. júlí 2016 skuldajafnaði sýslumaðurinn á Suðurnesjum inneign hjá [A] sem myndaðist við álagningu opinberra gjalda vegna ofgreiddrar staðgreiðslu, upp í gjaldfallin þing- og sveitarsjóðsgjöld hjá samsköttuðum maka hennar, vegna álagningaráranna 2013 til 2016. Þann 2. júní 2016 hafði verið gerð greiðsluáætlun um skuld [B] í þing- og sveitarsjóðsgjöldum vegna álagningaráranna 2013-2015 og vegna bifreiðagjalda fyrir árin 2013-2015. Greiðsluáætlunin hljóðaði upp á greiðslu 10.000 króna á mánuði frá og með 1. júlí 2016. Í greiðsluáætluninni kom eftirfarandi fram: „Greiðsluáætlun þessi hefur ekki áhrif á skuldajöfnun vaxtabóta, barnabóta eða hvers konar inneigna sem kunna að myndast í skattkerfinu, þ.m.t. virðisaukaskattsinneigna. Eigi skuldajöfnun sér stað er það óháð greiðsluáætlun þessari og kemur ekki í veg fyrir skyldu skuldara til greiðslu á ofangreindum dögum nema skuldin greiðist upp vegna skuldajöfnunar.“

Líkt og fram kemur í tölvupóstum frá kærendum til ráðuneytisins mótmæla þau skuldajöfnuninni með þeim rökum að hún hafi verið óheimil í ljósi þess að skömmu áður hafði verið gerður samningur um skuldina. Samningur í skilum ætti að halda. Sýslumaður hefði hvergi getað bent þeim á heimild til skuldajöfnunar í lögum eða reglugerðum, heldur væri einungis að finna klausu um að greiðsluáætlunin hefði ekki áhrif á skuldajöfnun hvers konar inneigna í fylgiskjali með greiðsluáætluninni. Kærendur gera því þær kröfur að þeim verði endurgreidd sú fjárhæð sem skuldajafnað var þann 1. júlí 2016.

Niðurstaða:
Af hinum almennu reglum kröfuréttarins um skuldajöfnun leiðir að heimild kröfuhafa, í þessu tilviki íslenska ríkisins, til að beita úrræðinu byggist á því að viðkomandi sé í skuld og skuldin sé í vanskilum, þ.e. að eindagi hennar sé liðinn.

Í 2. mgr. 36. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem gildir um greiðslu skatta og útsvars, kemur fram að endurgreiðsluskrá skuli send Fjársýslu ríkisins sem sjái um endurgreiðslu fyrir hönd ríkissjóðs og sveitarfélaga eftir að skuldajöfnun á móti gjaldföllnum sköttum til ríkis og sveitarfélaga hefur farið fram. Ákvæðið kom inn með lögum nr. 135/2002, sbr. 4. gr. þeirra. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 135/2002 segir um ákvæðið:
„Lagt er til að rýmkaðar verði heimildir til skuldajöfnunar. Samkvæmt gildandi ákvæði eru heimildir til skuldajöfnunar í staðgreiðslu í reynd þrengri en samkvæmt almennum reglum kröfuréttar um skuldajöfnuð. Hér er lagt til að ekki verði einungis hægt að skuldajafna á móti þinggjöldum og sveitarsjóðsgjöldum heldur almennt á móti sköttum til ríkis og sveitarfélaga. Með þessari breytingu verður heimilt að skuldajafna ofgreiddri staðgreiðslu á móti gjaldföllnum þungaskatti, bifreiðagjaldi, virðisaukaskatti og öðrum sköttum.“

Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, bera hjón óskipta ábyrgð á greiðslum skatta sem á þau eru lagðir og getur innheimtumaður ríkissjóðs gengið að hvoru hjóna um sig til greiðslu á sköttum þeirra beggja.

Af framangreindu er ljóst að löggjafinn hefur með skýrum hætti mælt fyrir um að skuldajöfnuður skuli eiga sér stað á ákveðnum tíma í málum sem heyra undir lög nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Inneignum í gjaldflokki þinggjalda og útsvars er því skuldajafnað við lok hvers tekjuárs í samræmi við framangreind ákvæði laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Að öðru leyti er skuldajafnað innan hvers gjaldflokks og síðan á móti gjaldföllnum skuldum í öðrum gjaldflokkum í samræmi við reglur fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá 19. september 1995, sem finna má á vef ráðuneytisins. Lögvarin krafa til endurgreiðslu inneigna í opinberum gjöldum stofnast þannig ekki á meðan gjaldandi eða samskattaður maki er í skuld við ríkissjóð á ógreiddum opinberum gjöldum og breytir greiðsluáætlun við ríkissjóð þar engu um, svo sem sagði í greiðsluáætluninni sjálfri. Að framangreindum lagaákvæðum slepptum á ríkissjóður jafnan val um það hvort hann beiti skuldajöfnuði eða ekki en hins vegar eru matskenndum ákvörðunum innheimtumanna ríkissjóðs verulega skorður settar þar sem þeir eru bundnir af lögum og jafnræðisreglu stjórnsýslu- og skattaréttar. Ráðuneytið hefur á liðnum árum mælt svo fyrir að greiðslur úr ríkissjóði skuli að jafnaði ganga til greiðslu á gjaldföllnum opinberum gjöldum og almenn skilyrði skuldajafnaðar að öðru leyti fyrir hendi.

Úrskurðarorð:
Ákvörðun sýslumannsins á Suðurnesjum þann 8. júlí 2016, um að hafna kröfu kæranda um að endurgreiða kæranda ofgreidda staðgreiðslu sem skuldajafnað var upp í gjaldfallin þing- og sveitarsjóðsgjöld samskattaðs maka kæranda, er staðfest.



Fyrir hönd ráðherra








Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum