Hoppa yfir valmynd
16. júní 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 227/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 16. júní 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 227/2022

í stjórnsýslumálum nr. KNU22050003 og KNU22050004

 

Beiðni [...] og [...] um endurupptöku

 

I.       Málsatvik og málsmeðferð

Hinn 31. ágúst 2017 sóttu kærendur; [...], fd. [...], ríkisborgari Bosníu og Hersegóvínu (hér eftir K), og [...], fd. [...], ríkisborgari Bosníu og Hersegóvínu og Serbíu (hér eftir M) um alþjóðlega vernd á Íslandi.

Mál kærenda hafa verið til umfjöllunar hjá kærunefnd útlendingamála í fimm skipti. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 458/2018, dags. 9. nóvember 2018, staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. júní 2018, um að synja kærendum um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi. Samkvæmt gögnum málsins fóru kærendur sjálfviljug aftur til heimaríkis hinn 9. nóvember 2018.

Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér í annað sinn hinn 19. október 2020. Með úrskurðum kærunefndar útlendingamála nr. 179/2021 og 180/2021, dags. 21. apríl 2021, staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. febrúar 2021, um að synja kærendum um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Hinn 30. apríl 2021 barst kærunefnd beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 230/2021, dags. 18. maí 2021, var beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa hafnað. Kærendur lögðu fram beiðni um endurupptöku ásamt fylgigögnum 15. nóvember 2021. Þá bárust kærunefnd frekari gögn frá kærendum 23. nóvember 2021. Hinn 9. desember 2021 hafnaði kærunefnd þeirri beiðni með úrskurði nr. 613/2021. Hinn 21. febrúar 2022 barst kærunefnd beiðni um endurupptöku í annað sinn ásamt fylgigögnum. Með úrskurði kærunefndar nr. 124/2022, dags. 10. mars 2022, var beiðni kærenda um endurupptöku hafnað. Hinn 3. maí 2022 barst kærunefnd beiðni um endurupptöku í þriðja sinn ásamt fylgigögnum. Þá barst kærunefnd gagn frá kærendum hinn 3. júní 2022.

II.        Málsástæður og rök kærenda

Af beiðni kærenda má ráða að þau krefjist endurupptöku á málum sínum á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Fram kemur að kærendur krefjist þess að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þau hafi sótt um alþjóðlega vernd fyrir meira en 18 mánuðum síðan, eða hinn 19. október 2020, og hafi flutningur þeirra til heimaríkis ekki farið fram. Kærendur telja að þau uppfylli skilyrði a- til d- liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga fyrir veitingu dvalarleyfa. Þá telja kærendur að 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir veitingu dvalarleyfa á fyrrnefndum grundvelli. Að lokum telja kærendur að kærunefnd hafi stofnað lífi M og heilsu í hættu og komið í veg fyrir að hann geti snúið aftur til Serbíu með birtingu úrskurðar nr. 179/2021. Með bréfi, dags. 16. mars 2022, hafi kærunefnd viðurkennt mistök sín og leiðrétt birta útgáfu fyrrnefnds úrskurðar.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurðum kærunefndar í málum kærenda, dags. 21. apríl 2021 var komist að þeirri niðurstöðu að kærendur uppfylltu ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ættu þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kærenda í heimaríkjum þeirra, Bosníu og Hersegóvínu og Serbíu, væru ekki með þeim hætti að veita bæri þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá var fyrri endurupptökubeiðnum kærenda hafnað með úrskurðum kærunefndar, dags. 9. desember 2021 og 10. mars 2022.

Til stuðnings endurupptökubeiðni sinni lögðu kærendur fram læknisvottorð, dags. 2. júní 2022, vegna M. Kemur þar m.a. fram að M óttist að vera sendur aftur til Bosníu og Hersegóvínu og að hann kunni að grípa til ýmissa örþrifaráða, t.d. að skaða sjálfan sig, verði hann fluttur nauðugur úr landi. Þá kemur fram að M hafi verið í andlegu ójafnvægi og að líklegt sé að andleg líðan hans versni komi til þess að honum verði vísað úr landi.

Framangreint læknisvottorð er um margt samhljóða gögnum sem kærendur lögðu fram til stuðnings fyrri endurupptökubeiðnum sínum. Kærunefnd tók afstöðu til þeirra gagna og málsástæðna kærenda um heilsufar M í úrskurðum nefndarinnar, dags. 9. desember 2021 og 10. mars 2022. Kom þar m.a. fram að gögn málsins hafi ekki bent til þess að aðstæður kærenda eða aðstæður í heimaríkjum þeirra, t.a.m. hvað varðar aðgang að heilbrigðisþjónustu, hafi breyst verulega síðan nefndin úrskurðaði í málum þeirra hinn 21. apríl 2021. M gæti því leitað sér heilbrigðisþjónustu í heimaríkjum sínum. Kærunefnd telur ekkert hafa komið fram sem raskar framangreindu mati nefndarinnar.

Í 2.mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt sé að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu. Kærendur lögðu fram umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 19. október 2020 og voru úrskurðir kærunefndar í máli þeirra birtir þeim hinn 26. apríl 2021. Kærendur fengu því endanlega niðurstöðu í máli sínu, hvað varðar umsókn þeirra um alþjóðlega vernd, á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða. Samkvæmt framansögðu eru því hvorki forsendur til að endurupptaka mál kærenda á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga né til þess að veita kærendum dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt 7. mgr. 6. gr. laga um útlendinga skal kærunefndin að jafnaði birta þá úrskurði sína sem fela í sér efnisniðurstöðu, eða eftir atvikum úrdrætti úr þeim. Úrskurðirnir skulu birtir án nafna, kennitalna og annarra persónugreinanlegra auðkenna aðila að viðkomandi málum. Persónugreinanlegar upplýsingar voru afmáðar úr úrskurðum nefndarinnar í málum kærenda fyrir birtingu þeirra. Þá var orðið við beiðni kærenda um að frekari upplýsingar um M yrðu afmáðar úr úrskurði nefndarinnar nr. 179/2021 og var þeim tilkynnt um það með bréfi kærunefndar, dags. 16. mars 2022. Kærunefnd telur ekkert hafa komið fram í málinu sem styðji við málsástæðu kærenda um að lífi og heilsu M hafi verið stofnað í hættu vegna birtingu úrskurðarins og að hann geti ekki snúið aftur til heimaríkis. Þá hafa kærendur ekki rökstutt af hverju framangreint eigi að leiða til þess að mál þeirra verði endurupptekið og á hvaða grundvelli.

Samantekt

Að framangreindu virtu er það því mat kærunefndar að atvik í málum kærenda hafi ekki breyst verulega þannig að taka beri mál þeirra upp að nýju á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er ekkert sem bendir til þess að niðurstaða í máli kærenda hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Auk þess eru ekki forsendur til að veita kærendum dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að hafna beri beiðni kærenda um endurupptöku málsins.

 

 


 

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellants to re-examine the cases is denied.

 

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Sindri M. Stephensen                                                              Þorbjörg I. Jónsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum