Hoppa yfir valmynd
25. mars 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 124/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 25. mars 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 124/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19030023

 

Beiðni […] um endurupptöku

 

I.             Málsatvik

Þann 28. febrúar 2019 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 21. nóvember 2018 um að afturkalla dvalarleyfi […], kt. […], ríkisborgara Bangladesh (hér eftir nefndur kærandi) sbr. 1. mgr. 59. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Þann 11. mars 2019 barst kærunefnd beiðni frá kæranda um endurupptöku málsins, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með beiðni kæranda um endurupptöku fylgdi greinargerð ásamt fylgigögnum.

 

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir á því að ákvörðun Útlendingastofnunar sé ólögmæt og brotið sé á rétti hans til að skipta um vinnuveitanda. Hafi Útlendingastofnun ekki virt mannréttindi hans en hann hafi þurft að þola misrétti af hálfu fyrsta vinnuveitenda síns og þess vegna hafi hann skipt um starf.

 

III.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði nr. 91/2019 frá 28. febrúar 2019 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar um að afturkalla dvalarleyfi kæranda, sbr. 1. mgr. 59. gr. laga um útlendinga. Í úrskurðinum kom m.a. fram að samkvæmt gögnum málsins hefði Vinnumálastofnun með ákvörðunum sínum afturkallað atvinnuleyfi kæranda þann 3. ágúst 2018 og synjað umsókn kæranda um nýtt atvinnuleyfi þann 24. október 2018. Þessum ákvörðunum Vinnumálastofnunar hefði ekki verið hnekkt. Uppfyllti kærandi því ekki lengur skilyrði b-liðar 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga og væri því heimilt að afturkalla dvalarleyfi hans. Þá tók kærunefnd einnig fram að ekki lægi fyrir niðurstaða Vinnumálastofnunar vegna síðustu umsóknar kæranda um atvinnuleyfi.

Í endurupptökubeiðni kæranda eru engin ný gögn eða skýringar sem varða forsendur úrskurðar kærunefndar í máli kæranda. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar nr. 91/2019 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda er hafnað.

The request of the appellant is denied.

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

                    Gunnar Páll Baldvinsson                                                                      Anna Valbjörg Ólafsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum