Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2018 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Ráðherra tók þátt í borgarafundi um samgöngumál á Vesturlandi

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness, afhenti Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, áskorun fundarins. - mynd

Opinn fundur um samgöngumál á Vesturlandi fór fram á Akranesi í gær og var Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, afhent þar áskorun fundarins um tafarlausar úrbætur á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi. Fundurinn var haldinn að frumkvæði bæjarstjórnar Akraness í samvinnu við önnur sveitarfélög á Vesturlandi.

Sigurður Ingi Jóhannsson flutti ávarp á fundinum og kom fram í máli ráðherra að gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum yrði hætt í sumar þegar greidd hafa verið upp lán vegna gangagerðarinnar. Ekki væri enn búið að ákveða hvenær tvöföldun þeirra kæmist á dagskrá. Þá sagði ráðherra að í undirbúningi væru aðgerðir til úrbóta á Vesturlandsvegi og Vegagerðin væri langt komin með hönnun og undirbúning vegna útboðs þegar fjármagn væri tryggt.

Auk ráðherra töluðu á fundinum þau Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður starfshóps um möguleika á framkvæmdum á stofnleiðum í nágrenni Reykjavíkur og fjármögnun þeirra, og fjallaði hann um flýtingu vegaframkvæmda og fjármögnun þeirra, Geirlaug Jóhannsdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi í Borgarbyggð, talaði um lífæð Vesturlands, Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, um brýnustu úrbætur í vegamálum fyrir Vesturland og Bjarnheiður Hallsdóttir talaði fyrir hönd baráttuhós um öruggt Kjalarnes.

Áskorunin sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra tók á móti í lok fundarins er þessi:

Opinn fundur um samgöngumál á Vesturlandi skorar á samgönguyfirvöld og Alþingi að bregðast tafarlaust við ótryggu og hættulegu ástandi Vesturlandsvegar á Kjalarnesi með nauðsynlegum framkvæmdum og tryggi jafnframt að tvöföldun Vesturlandsvegar frá Hvalfjarðargöngum til Reykjavíkur verði lokið innan þriggja ára.  Skoðaðar verði allar leiðir sem flýtt geti þeim framkvæmdum enn frekar til að auka umferðaröryggi og greiða för.

Frá borgarafundi um samgöngumál á Vesturlandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira