Hoppa yfir valmynd
13. mars 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 116/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 13. mars 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 116/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19020003

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 4. febrúar 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Ísraels (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. janúar 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 30. apríl 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 6. desember 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 15. janúar 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 4. febrúar 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 18. febrúar 2019. Kærandi óskaði eftir því í greinargerð að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Taldi kærunefnd ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna þjóðernis síns og trúar.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.          Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé fæddur og uppalinn i [...] í Kasakstan en sé af rússneskum uppruna. Í Kasakstan hafi hann búið ásamt móður sinni en þau hafi síðan þurft að flýja landið vegna ofsókna sem þau hafi orðið fyrir af hálfu fólks af kasökskum uppruna. Vegna þess að afi kæranda hafi verið gyðingur hafi kærandi og móðir hans átt þess kost að óska eftir því að fá ríkisfang í Ísrael. Kærandi hafi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að ofsóknir á hendur honum hafi hafist við komu hans til Ísraels og að baki þeim hafi staðið valdamikið fólk sem starfi fyrir The Jewish Agency. Kærandi hafi við komuna til Ísraels upplifað leiðinlegt viðmót konu hjá framangreindum samtökum þar sem honum hafi fundist sem hún efaðist um gyðinglegan uppruna afa hans. Þá hafi atvinnumöguleikar hans í Ísrael verið takmarkaðir allan þann tíma sem hann hafi búið þar og telji hann annars vegar að fólk innan The Jewish Agency hafi haft áhrif á möguleika hans til að fá atvinnu og hins vegar sú mismunun sem fólk af rússneskum uppruna verði fyrir í Ísrael. Þá hafi kærandi hvorki fengið atvinnuleysisbætur né heilbrigðisþjónustu í Ísrael. Í viðtalinu hafi kærandi einnig greint frá því að tvenns konar vegabréf séu gefin út til ríkisborgara í Ísrael, annars vegar vegabréf þar sem fram komi að handhafi þess sé af gyðinglegu þjóðerni og hins vegar án slíkrar tilgreiningar og hafi kærandi fengið útgefið vegabréf án slíkrar tilgreiningar. Þá greindi kærandi frá því að kona sem tilheyri hópi gyðinga af marokkóskum uppruna hafi fengið hann til að greiða sér 10.000 bandaríska dollara. Kærandi telji að hún hafi tengsl við The Jewish Agency sem hafi haft í frammi ofsóknir í garð kæranda.

Þá er í greinargerð kæranda umfjöllun um aðstæður í Ísrael. Fram kemur að samkvæmt ísraelskum lögum eigi þeir einstaklingar rétt á að snúa til Ísraels sem séu gyðingar, þ.m.t. börn, barnabörn og maki gyðings. Hafi fjöldi fólks frá fyrrum ríkjum Sovétríkjanna flutt til Ísraels. Þeir einstaklingar hafi þó mætt ýmsum erfiðleikum við að aðlagast lífinu í Ísrael og verði m.a. fyrir mismunun á vinnumarkaði, í menntakerfinu og í hernum.

Kærandi byggir aðalkröfu sína um alþjóðlega vernd á því að vegna stöðu sinnar sem innflytjandi í Ísrael frá fyrrum ríki Sovétríkjanna og vegna þeirra fordóma og mismununar sem hann hafi orðið fyrir vegna þeirrar stöðu, og með hliðsjón af heimildum um stöðu slíkra einstaklinga í Ísrael, uppfylli hann skilyrði c-liðar 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga um ótta við ofsóknir vegna uppruna. Vegna stöðu sinnar sem einstaklings sem standi utan samfélags gyðinga í Ísrael og með hliðsjón af heimildum um yfirburðastöðu sem gyðingar hafi í samfélaginu byggir kærandi einnig á því að hann óttist ofsóknir vegna trúarbragða sbr. b-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi til þess að samkvæmt 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga teljist ofsóknir skv. 37. gr. laganna vera athafnir sem í eðli sínu, eða vegna þess að þær eru endurteknar, feli í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá geti ofsóknir m.a. falist í andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi skv. a-lið 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, sem og einnig í löggjöf og aðgerðum stjórnvalda, lögreglu og dómstóla, sbr. b-lið ákvæðisins. Vísar kærandi til skilgreiningar handbókar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna á hugtakinu ofsóknir í skilningi 33. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna og skilgreiningar á hugtakinu í ákvæðum 38. gr. laga um útlendinga. Þá vísar kærandi til skilgreiningar á hugtakinu ástæðuríkur ótti og skilgreiningar 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga á því hverjir geti verið valdir að ofsóknum skv. 37. gr. sömu laga. Með vísan til framangreindra skilgreininga sem og aðstæðna kæranda sé ótti hans við ofsóknir ástæðuríkur og því beri að veita honum alþjóðlega vernd hér á landi skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á grundvelli heildstæðs mats á aðstæðum hans. Kærandi vísar til þess að hann hafi lýst mismunun og áreiti af hálfu einstaklinga sem fari með opinbert vald og að ríkið veiti honum ekki þá vernd sem hann þarfnist.

Kærandi telur að með því að senda hann til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. samnings um stöðu flóttamanna.

Til vara gerir kærandi kröfu um viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið taki mið af tilskipun Evrópusambandsins nr. 2004/83/EB um lágmarksskilyrði til að ríkisborgarar þriðju ríkja eða ríkisfangslausir einstaklingar teljist flóttamenn eða menn sem að öðru leyti þarfnist alþjóðlegrar verndar og um inntak slíkrar verndar. Við túlkun á 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eigi einnig að taka tillit til þeirra alþjóðlegu mannréttindasamninga og alþjóðareglna sem reglan um viðbótarvernd byggist á og Ísland sé skuldbundið af. Einkum sé þar um að ræða ákvæði 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Með hliðsjón af því sem rakið hafi verið í greinargerð kæranda í tengslum við aðalkröfu hans sé ljóst að kærandi uppfylli skilyrði fyrri hluta 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, þar sem raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu við endurkomu til heimaríkis.

Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili að veita slíkt leyfi ef útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. vegna erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Í athugasemdum við 74. gr. laga um útlendinga í frumvarpi því sem varð að lögunum komi m.a. fram að með almennum aðstæðum sé m.a. vísað til þeirra aðstöðu að yfirvöld veiti þegnum sínum ekki vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Kærandi tilheyri jaðarsettum minnihlutahópi í heimaríki sínu, hann sé þolandi fordóma og mismununar af hálfu hins gyðinglega meirihluta í landinu. Vegna uppruna síns hafi hann ekki getað fengið vinnu, utan láglaunastarfs til skamms tíma, og hafi því þurft að lifa á andvirði fasteignar sem hann og móðir hans hafi átt og selt í Kasakstan. Kærandi hafi því ekki sterkt bakland í heimaríki sínu og muni því þurfa að búa við afar erfiðar félagslegar aðstæður yrði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Í ljósi alls framangreinds telji kærandi að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Í greinargerð kæranda er fjallað um innri flutning og m.a. vísað til leiðbeininga Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna þar um og lögskýringargagna að baki lögum um útlendinga.

V.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað ísraelsku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé ísraelskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Ísrael m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2017 Report on International Religious Freedom - Israel and the Golan Heights (U.S. Department of State, 29. maí 2018);
  • 2019 Operating Budget by Strategic Areas of Activity (The Jewish Agency for Israel, október 2018);
  • Amnesty International Report 2017/18 (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Concluding observations on the fourth periodic report of Israel (UN Human Rights Committee, 21. nóvember 2014);
  • Country Reports on Human Rights Practices 2017 - Israel and the Golan Heights (U.S. Department of State, 20. apríl 2018);
  • Freedom in the World 2018 - Israel (Freedom House, 1. mars 2018);
  • Human Rights and Democracy Report 2015 - The State of Israel and The Occupied Palestinian Territories (OPTs) (UK: Foreign and Commonwealth Office, 21. apríl 2016);
  • Israel: Requirements and procedures for a victim of crime to file a complaint with the police, including obtaining a copy of the complaint and effectiveness; mechanisms available to file a complaint against the police, including effectiveness (2012-February 2015) (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 19. mars 2015);
  • Israel: Treatment of immigrants from the former Soviet Union; state protection and response of government authorities, including the Office of the Ombudsman; services and response of NGOs (2011-March 2014) (Immigration and Refugee Board of Canada, 18. mars 2014);
  • Mänskliga rättigheter, demokrati och rättsstatens principer i Israel 2015–2016 (Svenska Utrikesdepartementet, 26. apríl 2017);
  • State of the World´s Minorities and Indigenous Peoples 2016 - Israel/Palestine (Minority Rights Group International, 12. júlí 2016);
  • The World Factbook - Israel (vefsíða CIA, sótt 28. febrúar 2019);
  • World Report 2019 – Israel and Palestine (Human Rights Watch, 17. janúar 2019);
  • Upplýsingar af vefsíðu The Jewish Agency, vefsíða: http://www.jewishagency.org/. Sótt 5. mars 2019;
  • Upplýsingar af vef National Insurance Institute of Israel, vefsíða:

    https://www.btl.gov.il/English%20homepage/Pages/default.aspx. Sótt 5. mars 2019;

  • Upplýsingar af vefsíðu Samtaka fyrir borgaralegum réttindum í Ísrael (e. The Association for Civil Rights in Israel), vefsíða: https://www.english.acri.org.il/. Sótt 5. mars 2019;
  • Upplýsingar af vefsíðu The New Israel Fund Initiative for Social Change, vefsíða: http://english.shatil.org.il/. Sótt 5. mars 2019.

Ísrael er þingbundið lýðræðisríki fyrir botni Miðjarðarhafs með um 8,9 milljónir íbúa. Ísraelsríki var stofnað árið 1948. Landið er yfirlýst gyðingaríki og er meirihluti íbúa landsins gyðingar eða um 75%. Stórir minnihlutahópar múslíma (17,6%), kristinna (2%) og drúsa araba (1,4%) búa einnig í landinu. Árið 1954 gerðist Ísrael aðili að alþjóðasamningi um stöðu flóttamanna og fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttarmisréttis árið 1979. Árið 1991 fullgilti Ísrael þrjá samninga: Samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu; alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.

Í framangreindum gögnum kemur fram að Ísrael hafi ekki stjórnarskrá en hins vegar séu í gildi lög í landinu, svonefnd grunnlög um mannlega reisn og frelsi (e. Basic Laws – Human dignity and freedom), sem kveði á um og verndi ýmis mannréttindi. Hafi ákvæði laganna að einhverju leyti sömu stöðu og stjórnarskrárbundin mannréttindaákvæði og kemur fram í gögnum að hæstiréttur Ísraels hafi tekið til úrlausnar hjá sér hvort ákvæði annarra laga hafi gengið gegn ákvæðum þessara laga. Helstu vandkvæði tengd mannréttindum sem eigi sér stað í Ísrael séu einkum hryðjuverkaárásir sem beinist að almennum borgurum og mismunun gagnvart ísraelskum ríkisborgurum af arabískum uppruna. Sú mismunun varði sérstaklega aðgang að menntun, húsnæði og atvinnumöguleikum. Stjórnvöld virðist þó vera meðvituð um vandann að einhverju leyti. Í desember 2015 hafi þau til að mynda samþykkt áætlun til nokkurra ára sem snúi að uppbyggingu í samfélagi araba í landinu á ákveðnum sviðum, m.a. á sviði menntamála og samgangna.

Þá kemur fram í framangreindum gögnum að lögreglan í Ísrael sé undir yfirstjórn innanríkisráðuneytisins (e. Ministry of Internal Security) og séu úrræði til staðar fyrir stjórnvöld til að rannsaka og refsa fyrir brot og spillingu innan lögreglunnar. Meðal annars sé til staðar sérstök deild innan dómsmálaráðuneytisins sem rannsaki ákveðnar kvartanir undan lögreglunni. Þá sé jafnframt hægt að beina kvörtunum til embættis umboðsmanns í landinu.  Jafnframt séu borgaraleg samtök til staðar til að aðstoða einstaklinga við að kvarta undan framferði lögreglu. Gögnum beri saman um það að alla jafna sé frelsi borgara og fjölmiðla almennt mikið og einstaklingar og fjölmiðlar geti að mestu gagnrýnt stefnu stjórnvalda óáreittir.

Í framangreindum gögnum kemur fram að þrátt fyrir að í Ísrael sé yfirlýst að gyðingdómur sé opinber ríkistrú í Ísrael þá hafi allir trúarhópar frelsi til að koma saman og iðka trú sína í landinu. Þá sé trúfrelsi verndað í áðurnefndum grunnlögum um mannlega reisn og frelsi. Hafi einstaklingar úr öllum minnihlutahópum, hvort sem um sé að ræða kynþátt eða trú, kosningarrétt og rétt til félagslegra úrræða. Af framangreindum gögnum má ráða að velferðarkerfið í Ísrael sé skilvirkt og gott og þá sé hlutverk tryggingastofnunar Ísraels (e. the National Insurance Institute) m.a. að tryggja þeim einstaklingum sem á þurfa að halda félagslega og fjárhagslega aðstoð, svo sem með greiðslum atvinnuleysisbóta og annarra bóta.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi er ísraelskur ríkisborgari sem kveðst vera frá Kasakstan og vera af rússneskum uppruna. Kærandi hefur byggt kröfu sína um alþjóðlega vernd hér á landi á því að hann hafi orðið fyrir ofsóknum af hálfu þriggja tilgreindra einstaklinga í heimaríki sem starfi fyrir samtökin The Jewish Agency og þá telji hann að marokkósk kona sem svikið hafi af honum fjármuni hafi jafnframt tengsl við framangreind samtök. Hefur kærandi kveðið að þessir einstaklingar tengist einnig ríkisstjórn landsins. Má af framburði kæranda ráða að hann telji að vegna rússnesks uppruna hans hafi það verið ásetningur þessara einstaklinga að gera honum lífið erfitt í Ísrael, svo sem með því að hindra aðgengi hans að mannsæmandi atvinnu og/eða atvinnuleysisbótum. Kærandi greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann hafi haft réttindi sem ríkisborgari í Ísrael en þó ekki þau sömu og gyðingar þar í landi njóti. Þá telji kærandi að ísraelska ríkið geti ekki veitt honum þá vernd sem hann þarfnist.

Kærandi hefur ekki lagt fram gögn við meðferð málsins sem varpað geta skýrara ljósi á frásögn hans af atvikum sem hann telji að jafngildi ofsóknum í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. sömu laga. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Kærandi hefur aðallega byggt á því að hafa orðið fyrir mismunun í heimaríki á grundvelli þjóðernis en hann hafi verið atvinnulaus og verið synjað um atvinnuleysisbætur þar sem hann sé af rússneskum uppruna. Eins og áður segir hefur kærandi vísað til þess að þeir einstaklingar sem eigi einkum þátt í því að hann verði fyrir mismunun hafi tengsl við stjórnvöld í gegnum störf sín fyrir The Jewish Agency og fari með opinbert vald. Aðspurður í viðtali hjá Útlendingastofnun um hvort fólkið hjá The Jewish Agency hafi hótað honum svaraði hann því til að þau hafi sagt við hann að hann mætti búast við því að fá aðeins erfiðisvinnu í Ísrael því ekkert annað væri í boði. Þá hafi þau gefið í skyn að hann sé á svörtum lista í Ísrael sem hann telji að fólk í stjórnkerfinu hafi aðgang að. Kærandi telji þessa einstaklinga ekki hafa hótað honum beint en gefið í skyn hótanir.

Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um The Jewish Agency þá er um að ræða frjáls alþjóðleg félagasamtök gyðinga. Sé hlutverk samtakanna m.a. að mynda tengslanet milli gyðinga víðs vegar um heiminn við gyðinga í Ísrael og aðstoða gyðinga við að flytjast til Ísraels kjósi þeir það. Engin gögn hafa verið lögð fram sem sýna fram á að þeir einstaklingar sem kærandi hefur nafngreint sem ofsækjendur sína starfi fyrir samtökin eða tengist stjórnvöldum. Þá hefur kærandi ekki lagt fram gögn sem renna stoðum undir þá staðhæfingu hans að samtökin séu ríkisstofnun eða hafi á einhvern hátt stöðu og völd sem slík stofnun.

Eins og áður segir hefur kærandi byggt á því að hafa orðið fyrir mismunun í heimaríki á grundvelli þjóðernis en hann hafi verið atvinnulaus og verið synjað um atvinnuleysisbætur þar sem hann sé af rússneskum uppruna. Kærandi hefur engin gögn lagt fram sem renna stoðum undir þá staðhæfingu að honum hafi verið synjað um atvinnuleysisbætur á þeim forsendum að hann sé af rússneskum uppruna. Þá hefur kærandi greint frá því að hann hafi starfað við ræstingar í heimaríki í að minnsta kosti tvö ár en það starf hafi hins vegar verið illa launað. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Ísrael gefa til kynna að þar í landi sé skilvirkt velferðarkerfi þar sem félagsleg úrræði séu fyrir hendi fyrir alla ríkisborgara landsins. Geti einstaklingar án atvinnu leitað til tryggingastofnunar Ísraels og fengið greiddar atvinnuleysisbætur þar til þeir hafi fengið störf. Framangreind gögn benda til þess að þeir minnihlutahópar sem einkum verði fyrir mismunun eða séu tortryggðir af atvinnurekendum séu Palestínu-arabar, bedúínar og einstaklingar af eþíópískum uppruna. Í framangreindum gögnum er ekkert sem bendir til þess að að yfirvöld í landinu, þ. á m. framangreind stofnun, mismuni einstaklingum af rússneskum uppruna svo sem með því að synja þeim um atvinnuleysisbætur á þeim grundvelli.

Á grundvelli þeirra gagna sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Ísrael er það mat nefndarinnar að þeir ríkisborgarar landsins sem telji á réttindum sínum brotið geti leitað aðstoðar og verndar þar til bærra stjórnvalda þar í landi og fengið lausn sinna mála. Í gögnum málsins er að finna afrit af tilkynningu lögreglu í Haifa til kæranda þess efnis að tekin hafi verið ákvörðun um að hætta rannsókn á máli sem kærandi hafi átt frumkvæði að og að því yrði ekki vísað til dómstóla. Fram kemur að ástæðan fyrir því að rannsókn málsins yrði ekki haldið áfram væri sú að gerandi væri óþekktur. Í tilkynningunni koma fram leiðbeiningar til kæranda um að hann geti áfrýjað ákvörðuninni innan 30 daga. Samkvæmt framangreindu hefur kærandi því leitað til lögregluyfirvalda með umkvörtunarefni sitt og það hafi verið tekið til skoðunar. Er það mat kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að stjórnvöld geti ekki eða vilji ekki veita kæranda vernd gegn þeim athöfnum sem hann óttist, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir. Kærandi hefur því raunhæfan möguleika á því að leita sér ásjár stjórnvalda þar í landi, telji hann sig þurfa á aðstoð þeirra að halda.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við 74. gr., í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum um útlendinga, kemur m.a. fram að með almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna, þ. á m. upplýsinga um aðstæður í Ísrael, framlagðra gagna kæranda og annarra gagna sem hafa orðið til við meðferð máls hans fyrir stjórnvöldum, er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á slíkar aðstæður í heimaríki.

Gögn málsins gefa ekki annað til kynna en að kærandi sé almennt við góða heilsu, að því undanskildu að hann sé með astma og fái stundum slæman höfuðverk. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 25. apríl 2018 og sótti um alþjóðlega vernd þann 30. apríl 2018. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                                        Erna Kristín Blöndal

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum