Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 327/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 327/2016

Miðvikudaginn 26. apríl 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 30. ágúst 2016, kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. júní 2016 á endurupptöku ákvörðunar um upphafstíma barnalífeyris kæranda.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. mars 2013, var kærandi upplýst um, vegna beiðni hennar um endurskoðun meðlagsgreiðslna, að í ljós hefði komið að hún hafi fengið greiddan barnalífeyri vegna örorku barnsföður hennar frá 1. nóvember 2001 til 31. október 2008 en greiðslurnar hafi þá stöðvast vegna endurmats hans. Í bréfinu segir að með vísan til almennra fyrningarreglna um að kröfur fyrnist á fjórum árum geti stofnunin einungis samþykkt greiðslu meðlags með syni kæranda frá 1. mars 2009.

Með bréfi, dags. 21. nóvember 2014, gerði kærandi athugasemdir við framangreinda niðurstöðu Tryggingastofnunar ríkisins. Í bréfinu segir að hún hafi einnig átt rétt á barnalífeyri með dóttur sinni, fæddri í X, fram til ágúst 2009 en stofnunin hafi einungis horft til barnalífeyris vegna sonar hennar. Farið var fram á afturvirkar greiðslur barnalífeyris vegna tveggja barna kæranda fyrir árin 2006, 2007, 2008 og janúar til febrúar 2009 vegna sonar hennar og janúar til júlí 2009 vegna dóttur hennar. Í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 17. desember 2014, segir að kærandi hefði ekki fengið greiddan barnalífeyri vegna örorku sinnar þar sem hún hafi ekki sótt um slíkar greiðslur með umsókn sinni um örorkulífeyri. Þá féllst stofnunin á að greiða meðlag með dóttur hennar frá 1. mars 2009 til 31. ágúst 2009, fjögur ár aftur í tímann frá því að krafa hennar um leiðréttingu barst í mars 2013 og fram að átján ára aldri stúlkunnar. Að lokum vísaði stofnunin til þess að almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda væri fjögur ár, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.

Með bréfi kæranda, dags. 23. maí 2016, var ítrekað að á árunum 2006 og 2007 hafi verið í gildi lög nr. 14/1905 um fyrningu kröfuréttinda og vísað til 2. tölul. 2. gr. þeirra laga þar sem kveðið er á um tuttugu ára fyrningarfrest. Óskað var greiðslna barnalífeyris með báðum börnum kæranda vegna áranna 2006, 2007 og 2008. Í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. júní 2016, var ítrekað það sem fram kom í áðurnefndu bréfi, dags. 17. desember 2014. Þá vísaði stofnunin til ákvæðis um endurupptöku mála í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og taldi skilyrði endurupptöku ekki uppfyllt. Þar að auki var bent á að stofnunin teldi hugsanlega kröfu kæranda vera fyrnda með vísan til 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, sbr. einnig 6. gr. laganna og úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 252/2015.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 31. ágúst 2016. Með bréfi, dags. 5. september 2016, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 23. september 2016, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt lögmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. september 2016. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að synjun Tryggingastofnunar ríkisins á endurupptöku máls, dags. 9. júní 2016, verði felld úr gildi og stofnuninni verði gert að greiða kæranda 1.111.068 kr., auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. október 2006, eins og nánar greinir í kröfugerð. Þá er krafist vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. laganna sem skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti.

Í kæru segir að málsatvik séu þau að kærandi eigi tvö börn, stúlku fædda í X og dreng fæddan í X. Frá árinu 1999 hafi hún fengið greitt meðlag með þeim frá föður þeirra. Í nóvember 2001 hafi faðir þeirra verið metinn öryrki og fékk kærandi greiddan barnalífeyri frá þeim tímapunkti. Kærandi hafi þurft að glíma við þunglyndi og vefjagigt en einnig erfiða fylgikvilla eftir […]. Á árinu 2003 hafi hún fengið greiddan endurhæfingarlífeyri vegna ástands síns og frá árinu 2004 hafi hún fengið greiddar örorkubætur.

Á árinu 2006 hafi kærandi fengið greiddan endurhæfingarlífeyri, auk þess sem hún hafi fengið greiddan tvöfaldan barnalífeyri með hvoru barna sinna fram í október það ár. Á greiðsluáætlun frá árinu 2006 komi fram tveir greiðsluliðir með heitinu barnalífeyrir og skýringar við greiðslurnar séu annars vegar endurhæfingarlífeyrir og hins vegar örorkulífeyrir. Samkvæmt áætluninni hafi hún fengið greiddar 34.498 krónur fram í október í hvorum flokknum fyrir sig en þá hafi greiðslurnar fallið niður á því sem flokkað sé sem endurhæfingarlífeyrir og eftir standi því einfaldur barnalífeyrir, samtals 34.498 krónur, og skýring á honum sé gefinn sem örorkulífeyrir.

Á árinu 2007 hafi kærandi fengið greiddan örorkulífeyri, auk þess sem hún hafi fengið einfaldan barnalífeyri greiddan með hvoru barna sinna. Á greiðsluáætlun fyrir það ár komi fram skýringin örorkulífeyrir við greiðsluliðinn barnalífeyrir og samkvæmt áætluninni hafi hún fengið greiddar 36.568 krónur út það ár.

Á árinu 2008 hafi kærandi fengið greiddan örorkulífeyri, auk þess sem hún hafi fengið greiddan einfaldan barnalífeyri með hvoru barna sinna. Á greiðsluáætlun frá árinu 2008 komi fram skýringin örorkulífeyrir við greiðsluliðinn barnalífeyrir og samkvæmt áætluninni hafi hún fengið greiddar 36.568 krónur út það ár.

Á árinu 2009 hafi kærandi fengið greiddan örorkulífeyri, auk þess sem hún hafi fengið greiddan einfaldan barnalífeyri með hvoru barna sinna í janúar, febrúar og mars. Skýringin við greiðsluliðinn barnalífeyrir sé örorkulífeyrir og samkvæmt áætluninni hafi hún fengið greiddar 43.314 krónur þessa þrjá mánuði.

Kærandi hafi leitað til Tryggingastofnunar ríkisins í mars 2013 og rætt við starfsmenn stofnunarinnar. Í kjölfar þess fundar hafi hún fengið sent erindi þess efnis að greiðslur „barnalífeyris vegna örorku barnsföður“ hafi stöðvast 31. október 2008 „vegna endurmats hans“. Kærandi hafi því hvorki fengið greitt meðlag né barnalífeyri vegna örorku föður sem ígildi meðlags með syni kæranda frá 31. október 2008. Stofnunin hafi samþykkt með erindi, dags. 19. mars 2013, að greiða meðlag með syni kæranda frá 1. mars 2009 eða fjögur ár aftur í tímann frá því að beiðni um leiðréttingu greiðslna barst. Því hafi verið haldið fram að ekki væri heimilt að greiða lengra aftur í tímann með vísan til þess að kröfur fyrnist á fjórum árum. Hafnað hafi verið að leiðrétta greiðslur vegna dóttur kæranda, en stofnunin endurmetið þá afstöðu og leiðrétt greiðslur vegna hennar frá sama upphafstímabili fram að 18 ára aldri stúlkunnar.

Kærandi hafi einungis fengið greiddan einfaldan barnalífeyri frá október 2006 til mars 2009. Tryggingastofnun hafi upplýst um að á tímabilinu 1. janúar 2006 til 31. október 2008 hafi kærandi ekki fengið greiddan barnalífeyri vegna örorku sinnar þar sem hún hafi ekki sótt um slíkt. Í fyrrgreindu erindi segi að ákvarðanir um upphafstíma meðlagsgreiðslna og barnalífeyris 2013 og 2014 hafi ekki byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum eða atvik hafi breyst verulega frá því að þær ákvarðanir voru teknar. Þá væri meira en ár liðið frá því að ákvarðanirnar hefðu verið teknar og ekki til staðar veigamiklar ástæður sem mæltu með endurupptöku málsins, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Auk þess vísi stofnunin til þess að krafan sé hugsanlega fyrnd. Kröfu kæranda hafi því verið hafnað.

Um málsástæður segir að kærandi byggi á því að Tryggingastofnun ríkisins hafi brotið gegn leiðbeiningarskyldu samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 37. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Af þeim sökum hafi kærandi orðið fyrir tjóni vegna vangreiðslna á barnalífeyri vegna tveggja barna hennar á tímabilinu frá október 2006 til mars 2009.

Í 20. gr. laga um almannatryggingar sé kveðið á um þau skilyrði sem umsækjandi þurfi að uppfylla til að fá slíkan lífeyri greiddan. Í ákvæðinu segi að barnalífeyrir sé greiddur með börnum yngri en 18 ára sé annað foreldra örorkulífeyrisþegi. Ekkert mat þurfi því að fara fram af hálfu stofnunarinnar þegar slíkar umsóknir berist. Í 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar sé kveðið á um að bætur skuli reiknaðar frá þeim degi sem umsækjandi uppfylli skilyrði til bóta.

Við skoðun greiðsluáætlana sé erfitt að finna út vegna hvors foreldris barnalífeyrir hafi verið greiddur á umræddu tímabili. Kærandi geti því með engu móti áttað sig á umræddum greiðslum, þ.e. hvort þær hafi komið til vegna örorku hennar eða barnsföður. Kærandi sé enginn sérfræðingur í því hvaða bætur henni beri að fá og hafi engan veginn áttað sig á því hvort hún ætti rétt á einföldum eða tvöföldum barnalífeyri, enda sé um að ræða atriði sem sérfræðingum á vegum stofnunarinnar hafi borið að leiðbeina henni um lögum samkvæmt.

Kveðið sé á um leiðbeiningarskyldu Tryggingastofnunar ríkisins gagnvart umsækjanda í 7. gr. stjórnsýslulaga og 37. gr. laga um almannatryggingar. Í nefndri 37. gr. segi að á stofnuninni hvíli sú skylda að kynna sér aðstæður umsækjanda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra. Stofnuninni beri samkvæmt ákvæðinu að leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu sína, þau gögn sem fylgja skuli máli hans og um framhald málsins.

Í leiðbeiningarskyldunni felist að stjórnvaldi beri að veita umsækjanda þær leiðbeiningar sem honum séu nauðsynlegar svo að hann geti gætt hagsmuna sinna á sem bestan hátt. Stjórnvald verði að meta um hvaða þætti málsins hann þurfi leiðbeiningar, miðað við allar aðstæður. Yfirleitt þurfi að leiðbeina um réttarreglur sem reyni á í hlutaðeigandi máli, hvernig meðferð slíkra mála sé venjulega hagað, hvaða gögn þeim beri að leggja fram, hversu langan tíma það taki að afgreiða mál og svo framvegis.

Leiðbeiningarskylda stjórnvalds sé svo rík að í henni felist ekki aðeins skylda til að svara fyrirspurnum frá málsaðila heldur jafnframt skylda til að aðstoða aðila sé ljóst að viðkomandi hafi misskilið réttarreglur, nauðsynlegum gögnum hafi ekki verið skilað, nægilega ítarlegar upplýsingar veittar eða að öðru leyti sé bersýnilegt að veita þurfi frekari upplýsingar. Loks falli meðal annars undir leiðbeiningarskylduna að aðstoða aðila við að fylla út eyðublöð, beri svo undir. Réttaráhrif vanrækslu á viðhlítandi leiðbeiningum geti meðal annars verið bótaskylda, til dæmis ef ónógar eða rangar leiðbeiningar hafi verið gefnar.

Reynist rétt að þær greiðslur, sem kærandi vissulega hafi fengið, hafi verið vegna örorku barnsföður hennar, en ekki hennar sjálfrar og að hún hafi ekki sótt um greiðslu barnalífeyris á umræddu tímabili, sé rétt að taka fram að umsækjandi hafi átt rétt á afturvirkum greiðslum á barnalífeyri í tvö ár aftur í tímann frá umsókn. Í 20. gr. laga um almannatryggingar sé kveðið á um skilyrði sem fullnægja þurfi til að fá slíkan lífeyri. Í ákvæðinu segi að barnalífeyrir sé greiddur með börnum yngri en 18 ára sé annað foreldra örorkulífeyrisþegi. Ekkert mat þurfi því að fara fram af hálfu Tryggingastofnunar þegar slíkar umsóknir berist. Í 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar sé kveðið á um að bætur skuli reiknaðar frá þeim degi sem umsækjandi uppfylli skilyrði til bóta. Í 4. mgr. sama ákvæðis sé þó gert ráð fyrir að bætur séu ákvarðaðar aftur í tímann en þó sé settur ákveðinn tímarammi og samkvæmt því skuli bætur ekki ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn, sem nauðsynleg séu til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta, berist stofnuninni. Í raun megi því segja að meginreglan sé sú að umsækjandi um bætur eigi rétt á bótum tvö ár aftur í tímann frá því að umsókn hans liggi fyrir, að því gefnu að viðkomandi uppfylli almenn skilyrði. Hin svokallaða tveggja ára regla sé í raun fortakslaus og sem slík ekki háð mati stofnunarinnar, séu hin almennu skilyrði bóta uppfyllt. Hafi löggjafinn ætlað að takmarka bótarétt frekar en gert sé í 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar hefði slíkt þurft að koma skýrt fram í lögunum. Þá sé rétt að taka fram að á umsóknareyðublaði fyrir greiðslu barnalífeyris í dag sé sérstaklega gert ráð fyrir að hægt sé að haka í viðeigandi reit sé sótt um greiðslu barnalífeyris tvö ár aftur í tímann.

Með hliðsjón af ofangreindu sé ljóst að kærandi hafi farið á mis við greiðslur sem henni hafi vissulega borið að fá. Barnalífeyrir og meðlag séu greiðslur sem eigi að vera barni til hagsbóta þó að þær séu greiddar inn á reikning forsjáraðila. Í 1. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar segi að barnalífeyrir sé greiddur með börnum yngri en 18 ára sé annað hvort foreldra látið eða sé örorkulífeyrisþegi. Þá segi í 2. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar að sömu réttarstöðu hafi stjúpbörn og kjörbörn þegar eins standi á. Það hafi því í raun verið börn kæranda sem hafi farið á mis við umræddar greiðslur þó að þær séu greiddar til kæranda. Rétt sé að taka fram að staða fjölskyldunnar á þessum tíma hafi verið langt frá því að vera góð og kærandi hafi oft þurft að snúa hverri einustu krónu til þess að hafa í börnin og á. Oft hafi einfaldlega ekki verið til matur á heimilinu og kærandi og börn hennar verið upp á náð og miskunn annarra komin. Umræddar greiðslur séu ef til vill ekki háar í eyrum allra, en hefðu einfaldlega skipt sköpum fyrir kæranda og börn hennar og meðal annars getað komið í veg fyrir að kærandi hafi þurft að standa í röð hjá mæðrastyrksnefnd.

Tryggingastofnun ríkisins hafi borið því við að krafa kæranda hafi verið fyrnd þegar hún hafi verið lögð fram. Kærandi hafni þeim fullyrðingum. Á árunum 2006 til 2007 hafi verið í gildi lög nr. 14/1905 um fyrningu kröfuréttinda. Í 2. tölul. 2. gr. laganna segi að eftirfarandi kröfur fyrnist á tuttugu árum:

„Krafa um lífeyri og aðrar slíkar kröfur, sem eru fólgnar í rétti til þess með vissu millibili að krefjast fjárframlags, er ekki getur talist afborgun af skuld.“

Ljóst sé því að krafa kæranda um þær greiðslur sem ekki hafi verið greiddar á árunum 2006 og 2007 séu ekki fyrndar, líkt og haldið sé fram í bréfi stofnunarinnar.

Þann 1. janúar 2008 hafi tekið gildi lög nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda og í 6. gr. laganna segi að krafa, sem sé umsamin eða ákveðin vegna eftirlauna, framfærslueyris, meðlags eða annarrar greiðslu og falli í gjalddaga með jöfnu millibili og sé ekki afborgun af höfuðstóli, fyrnist þegar liðin séu tíu ár frá þeim degi sem síðasta greiðsla hafi verið innt af hendi. Að sama skapi fáist það ekki staðfest sem fram komi í bréfi stofnunarinnar að greiðslur fyrir árið 2008 og fram til mars 2009 fyrnist á fjórum árum.

Til vara byggi kæranda á því að jafnvel þó að réttur hennar til greiðslu barnalífeyris sé fyrndur hafi stofnunin orðið skaðabótaskyld með því einu að sinna ekki þeirri leiðbeiningarskyldu sem á stofnuninni hvíldi og hún eigi því bótakröfu á hendur stofnuninni.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé fjallað um endurupptöku mála þar sem segi:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða

2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liði[ð] frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.“

Þá segi í 6. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda að krafa sem sé umsamin eða ákveðin vegna eftirlauna, framfærslueyris, meðlags eða annarrar greiðslu og falli í gjalddaga með jöfnu millibili og sé ekki afborgun af höfuðstóli, fyrnist þegar liðin séu tíu ár frá þeim degi sem síðasta greiðsla hafi verið innt af hendi. Hafi engar greiðslur átt sér stað byrji fresturinn að líða frá þeim degi þegar kröfuhafi geti krafist þess að fá greidda fyrstu greiðsluna. Einstakar gjaldfallnar greiðslur fyrnist enn fremur eftir ákvæðum 3. gr. laganna þar sem segi að almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda sé fjögur ár.

Forsaga málsins sé sú að Tryggingastofnun ríkisins hafi á árinu 2013 borist beiðni um leiðréttingu á greiðslu meðlags með syni kæranda. Við skoðun málsins hafi komið í ljós að kærandi hafði hvorki fengið greitt meðlag né barnalífeyri vegna örorku föður sem ígildi meðlags með syni kæranda frá 31. október 2008. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 19. mars 2013, hafi verið samþykkt að greiða kæranda meðlag með syni hennar frá 1. mars 2009, eða fjögur ár aftur í tímann frá því að beiðni um leiðréttingu greiðslna hafi borist. Ekki hafi verið talið heimilt að greiða lengra aftur í tímann með vísan til þess að kröfur fyrnist á fjórum árum.

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 17. desember 2014, hafi verið samþykkt að greiða kæranda meðlag með dóttur hennar frá sama tíma með sömu rökum en þá hefði komið í ljós að leiðréttingin á árinu 2013 hafi einungis náð til sonar kæranda. Í sama bréfi hafi einnig komið fram að kærandi hefði ekki fengið greiddan barnalífeyri vegna sinnar örorku frá árinu 2006 til 2008 þar sem kærandi hafi ekki sótt um það á umsókn sinni um örorkulífeyri. Með vísan til fyrningarreglna hafi stofnuninni ekki verið heimilt að greiða kæranda barnalífeyri vegna örorku hennar fyrir þann tíma.

Tryggingastofnun hafi borist erindi lögmanns kæranda, dags. 23. maí 2016, þar sem óskað hafi verið eftir greiðslum vangoldins barnalífeyris vegna áranna 2006, 2007 og 2008. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 9. júní 2016, hafi kæranda verið synjað um endurupptöku á upphafstíma greiðslu barnalífeyris með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og þess að krafan væri fyrnd.

Ekki verði séð að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma meðlagsgreiðslna og barnalífeyris með börnum kæranda á árunum 2013 og 2014 hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum eða að atvik hafi breyst verulega frá því að ofangreindar ákvarðanir voru teknar. Meira en ár sé liðið frá því að þær voru teknar og ekki verði séð að veigamiklar ástæður mæli með endurupptöku málsins. Þá hafi hvorug ákvörðunin verið kærð til úrskurðarnefndar almannatrygginga.

Þá sé hugsanleg krafa fyrnd, en réttur á einstökum mánaðarlegum greiðslum lífeyris almannatrygginga fyrnist á fjórum árum samkvæmt 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, sbr. 6. gr. sömu laga. Þá niðurstöðu megi finna í máli úrskurðarnefndar almannatrygginga nr. 252/2015 og einnig megi benda á að í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins, sem hafi orðið að lögum nr. 150/2007, segi við 6. gr.: „Í þessari grein er mælt fyrir um fyrningu krafna sem fela í sér greiðslur með reglulegu millibili án þess að um afborganir af höfuðstól skuldar sé að ræða. Hér er um að ræða fyrningu á sjálfum réttinum til að krefjast áframhaldandi greiðslna en ekki réttinum til að heimta hverja einstaka greiðslu. Kröfur um einstakar greiðslur fyrnast á fjórum árum frá gjalddaga hverrar greiðslu fyrir sig, svo sem beinlínis er kveðið á um í 3. málsl. greinarinnar. Er það sama regla og fram kemur í 2. tölul. 3. gr. gildandi fyrningarlaga.“

Með vísan til alls framanritaðs er það niðurstaða stofnunarinnar að ákvörðun um að synja kæranda um endurupptöku á upphafstíma greiðslna barnalífeyris hafi verið réttmæt.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins um endurupptöku ákvörðunar um upphafstíma barnalífeyris kæranda.

Með bréfi, mótteknu af Tryggingastofnun ríkisins 11. mars 2013, gerði kærandi athugasemd við barnalífeyrisgreiðslur til hennar. Með ákvörðunum stofnunarinnar, dags. 19. mars 2013, og 17. desember 2014, samþykkti stofnunin afturvirkar greiðslur barnalífeyris frá 1. mars 2009 vegna tveggja barna kæranda og taldi stofnunin ekki heimilt að ákvarða greiðslur lengra aftur í tímann vegna fyrningar. Kærandi gerði athugasemdir við upphafstímann með bréfi, dags. 23. maí 2016, og fór fram á greiðslu barnalífeyris með börnunum vegna áranna 2006 til 2008. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 9. júní 2016, var synjað um endurupptöku málsins með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 og þar að auki var talið að hugsanleg krafa kæranda væri fyrnd.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga er kveðið á um rétt aðila máls til þess að fá mál sitt tekið til meðferðar á ný. Ákvæðið hljóðar svo:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.“

Ljóst er að meira en ár leið frá því að kæranda var tilkynnt um ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. mars 2013, og 17. desember 2014, þar til óskað var eftir endurupptöku þeirra með bréfi, dags. 23. maí 2016. Því verður mál kæranda ekki tekið upp að nýju nema veigamiklar ástæður mæli með því. Fyrir liggur að krafa kæranda varðar greiðslu barnalífeyris á árunum 2006 til 2009.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, sem tóku gildi 1. janúar 2008, reiknast fyrningarfrestur kröfu frá þeim degi sem kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda. Samkvæmt 3. gr. laganna er almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda fjögur ár. Sá frestur gildir um einstakar gjaldfallnar barnalífeyrisgreiðslur, sbr. 3. málsl. 6. gr. laganna. Slíkar greiðslur fyrndust einnig á fjórum árum samkvæmt 2. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda sem giltu til 1. janúar 2008. Með vísan til þess er krafa kæranda um greiðslu barnalífeyris aftur í tímann fyrnd. Þegar af þeirri ástæðu að krafan er fyrnd verður ekki tekið til skoðunar hvort veigamiklar ástæður mæli með því að Tryggingastofnun taki mál kæranda upp að nýju, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni kæranda um endurupptöku ákvarðana stofnunarinnar frá 19. mars 2013 og 17. desember 2014

Hvað varðar þá málsástæðu kæranda að hún eigi skaðabótakröfu á hendur Tryggingastofnun ríkisins vegna skorts á leiðbeiningum stofnunarinnar bendir úrskurðarnefnd velferðarmála á að úrskurðarnefndin hefur ekki úrskurðarvald um slíkar kröfur. Ágreiningur um bótakröfur gegn ríkinu heyrir undir valdsvið dómstóla.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni A, um endurupptöku ákvarðana stofnunarinnar frá 19. mars 2013 og 17. desember 2014 er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum