Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 261/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 261/2022

Fimmtudaginn 25. ágúst 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 19. maí 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. apríl 2022, um að synja beiðni hans um endurgreiðslu útlagðs kostnaðar vegna útgáfu læknisvottorðs.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 4. apríl 2022. Með bréfi, dags. 12. apríl 2022, óskaði Vinnumálastofnun eftir gögnum frá kæranda í tengslum við umsókn hans um atvinnuleysisbætur, þar með talið læknisvottorði þar sem starfshæfni hans kæmi fram. Kærandi skilaði umbeðnum gögnum og var umsókn hans samþykkt 4. maí 2022. Með erindi, 22. apríl 2022, óskaði kærandi eftir því að Vinnumálastofnun myndi greiða fyrir útlagðan kostnað við útgáfu læknisvottorðsins, eða 2.158 kr. Beiðni kæranda var synjað með erindi Vinnumálastofnunar, dags. 26. apríl 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 19. maí 2022. Með bréfi, dags. 23. maí 2022, var óskað eftir greinargerð Vinnumálastofnunar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð 21. júní 2022. Greinargerð barst frá Vinnumálastofnun 21. júní 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. júní 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann kæri þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að neita að greiða honum læknisvottorð sem stofnunin hafi sjálf beðið um. Vinnuveitendur greiði fyrir læknisvottorð og að hans mati eigi það sama að gilda um Vinnumálastofnun.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar er vísað til þess að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Mál þetta varði greiðsluþátttöku Vinnumálastofnunar vegna útgáfu læknisvottorðs en kærandi fari fram á að stofnunin greiði vottorð sem hafi verið útgefið af lækni á Heilsugæslunni í Efra Breiðholti.

Það sé meginregla íslensks stjórnsýsluréttar að einstaklingar verði sjálfir að bera kostnað sem þeir hafi af samskiptum sínum við stjórnvöld. Það eigi við um málarekstur einstaklinga við stjórnvöld og útlagðan kostnað vegna slíkra mála. Sérstaka lagaheimild þurfi því til að unnt sé að krefjast greiðslu slíks kostnaðar frá stjórnvaldi. Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé ekki að finna heimild til handa Vinnumálastofnun að greiða kostnað sem hljótist af útgáfu starfshæfnisvottorða eða lækniskostnað til atvinnuleitenda. Atvinnuleitendur þurfi því að bera allan kostnað af útgáfu læknisvottorða sjálfir. Þar sem heimild til kostnaðarþátttöku Vinnumálastofnunar vegna læknisvottorða atvinnuleitenda sé ekki fyrir hendi beri að hafna beiðni um endurgreiðslu.

Með vísan til þess sem að framan greini sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að hafna skuli kröfum kæranda. 

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. apríl 2022, um að synja beiðni kæranda um endurgreiðslu útlagðs kostnaðar vegna útgáfu læknisvottorðs.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gilda lögin um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 9. gr. laganna er fjallað um umsókn um atvinnuleysisbætur og er 1. mgr. lagagreinarinnar svohljóðandi:

„Launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum er heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verða atvinnulausir. Umsóknin skal vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og henni skal meðal annars fylgja staðfesting um stöðvun rekstrar og önnur nauðsynleg gögn að mati Vinnumálastofnunar. Í umsókn skulu koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum.“

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit samkvæmt 14. gr. Í 1. mgr. 14. gr. segir að sá teljist vera í virkri atvinnuleit sem uppfylli eftirtalin skilyrði:

  1. er fær til flestra almennra starfa,
  2. hefur heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. þó 5. mgr.,
  3. hefur frumkvæði að starfsleit og er reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og uppfyllir skilyrði annarra laga,
  4. hefur vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara,
  5. er reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi,
  6. er reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu,
  7. á ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. eigi við,
  8. hefur vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, og
  9. er reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.

Í 4. mgr. 14. gr. kemur fram að Vinnumálastofnun sé heimilt að veita undanþágu frá skilyrðum c., e. og f. liða 1. mgr. þannig að hinn tryggði, sem vegna aldurs, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima óskar eftir hlutastarfi eða starfi innan tiltekins svæðis, geti talist vera í virkri atvinnuleit. Enn fremur sé heimilt að taka tillit til aðstæðna hins tryggða sem geti ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt mati sérfræðilæknis.

Í kjölfar umsóknar kæranda um atvinnuleysisbætur óskaði Vinnumálastofnun eftir því að kærandi skilaði læknisvottorði/starfshæfnisvottorði þar sem fram kæmi hver starfshæfni hans væri. Kærandi skilaði umbeðnu læknisvottorði en í því kemur fram að hann sé með 50% starfsgetu. Umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur var því samþykkt með 50% bótarétti.

Kærandi fór fram á að Vinnumálastofnun myndi greiða honum útlagðan kostnað vegna útgáfu framangreinds læknisvottorðs, eða 2.158 kr. Beiðni kæranda var synjað og hefur Vinnumálastofnun vísað til þess að engin heimild sé í lögum nr. 54/2006 fyrir því að greiða kostnað sem hlýst af útgáfu starfshæfnisvottorða eða lækniskostnað til atvinnuleitenda.

Það er meginregla íslensk réttar að einstaklingar verða sjálfir að bera þann kostnað sem þeir hafa af samskiptum sínum við stjórnvöld, sbr. dóm Hæstaréttar frá 30. október 2008 (70/2008). Sérstök lagaheimild þarf að vera fyrir hendi svo að unnt sé að krefjast greiðslu slíks kostnaðar úr hendi stjórnvalda. Slíka heimild er ekki að finna í lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. apríl 2022, um að synja beiðni A, um endurgreiðslu útlagðs kostnaðar vegna útgáfu læknisvottorðs, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum