Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 86/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 25. febrúar 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 86/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21010019

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 30. desember 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Alsír (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. desember 2020, um að afturkalla alþjóðlega vernd og dvalarleyfi kæranda ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af greinargerð kæranda má ráða að hann krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að hann haldi þeirri alþjóðlegu vernd sem honum var veitt hér á landi.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæra fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 7. apríl 2012. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. mars 2014, var kæranda veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til þágildandi 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002. Með bréfi Útlendingastofnunar til kæranda, dags. 8. september 2020, var kæranda tilkynnt um hugsanlega afturköllun alþjóðlegrar verndar. Kærandi mætti til viðtals hjá Útlendingastofnun vegna málsins hinn 6. október 2020. Hinn 15. desember 2020 tók Útlendingastofnun ákvörðun um að afturkalla alþjóðlega vernd og dvalarleyfi kæranda ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 30. desember 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda hinn 25. janúar 2021 ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að stofnuninni hefði borist upplýsingar frá lögreglunni á Suðurnesjum þann 13. október 2019 um að kærandi hefði verið stöðvaður við komu til landsins með alsírskt vegabréf sitt. Samkvæmt stimplum í vegabréfi kæranda hafi hann ferðast af sjálfsdáðum til og frá heimaríkis með reglulegu millibili og dvalið þar svo mánuðum skipti frá því að hann hafði fengið vegabréfið útgefið þann 29. mars 2016 í Stokkhólmi. Til að mynda hafi kærandi dvalið um 233 daga í heimaríki árið 2019 og 204 daga árið áður. Að beiðni Útlendingastofnunar hafi lögreglan kannað ferðalög kæranda til og frá landinu síðastliðin ár og stemmi flugferðir hans við fyrrnefnda stimpla. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 6. október 2020 hafi kæranda verið gefið tækifæri á því að leggja fram gögn til skýringar og tjá sig um efni málsins. Kærandi hafi ekki svarað spurningum fulltrúa Útlendingastofnunar og borið fyrir sig minnisleysi þegar hann hafi verið spurður út í ferðir sínar til heimaríkis. Þá komi fram í greinargerð kæranda til stofnunarinnar að kærandi hafi einungis einu sinni snúið aftur til heimaríkis og hafi hann gert það til að heimsækja móður sína sem hafi legið á dánarbeði. Kærandi hafi aflað umrædds vegabréfs með ólögmætum hætti og sé fjöldi stimpla í því tilkominn vegna þess að landamæravörður hafi þurft að hylja slóð sína svo að vafamál yrði hvenær kæranda hafi verið hleypt í gegnum landamæraeftirlitið.

Í ákvörðuninni var rakið ákvæði a-liðar 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga, en samkvæmt ákvæðinu sé heimilt að afturkalla veitingu alþjóðlegar verndar ef flóttamaður hefur sjálfviljugur notfært sér á ný vernd heimalands síns. Vísaði Útlendingastofnun til þess að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hafi verið reist á því að hann væri í hættu í heimaríki vegna þess að hann hefði gerst liðhlaupi frá hernum þar sem honum hafi stafað hætta af hryðjuverkahópum sem herinn hafi ekki verndað kæranda gegn. Hafi Útlendingastofnun veitt kæranda alþjóðlega vernd með vísan til þágildandi 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002. Í hinni kærðu ákvörðun er vísað til þess að samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og 37. gr. laga um útlendinga sé lagt til grundvallar að umsækjandi um alþjóðlega vernd verði að hafa ástæðuríkan ótta við ofsóknir til að teljast flóttamaður og að hann þurfi á vernd annars ríkis að halda þar sem slík vernd sé ekki til staðar í heimaríki. Var það mat Útlendingastofnunar, í ljósi framangreindra stimpla í vegabréfi kæranda og upplýsinga frá lögreglunni, að framburður kæranda um að hann hafi einungis ferðast einu sinni aftur til heimaríkis á alsírsku vegabréfi sínu væri ótrúverðugur. Þá var það mat Útlendingastofnunar að með framangreindri dvöl í heimaríki hafi kærandi sýnt fram á að hann hafi ekki ástæðuríkan ótta við að vera ofsóttur eða að hann eigi á hættu meðferð sem jafnað verði til ofsókna. Í ljósi framangreinds var það niðurstaða stofnunarinnar að afturkalla alþjóðlega vernd kæranda með vísan til a-liðar 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga.

Í samræmi við ákvæði 4. mgr. 48. gr. sömu laga tók Útlendingastofnun til skoðunar hvort veita bæri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi lagt fram afrit af sjúkraskrá sinni hér á landi þar sem fram komi að hann hafi fallið í yfirlið við vinnu þann 2. október 2017. Kærandi hafi verið fluttur með sjúkraþyrlu til Reykjavíkur og fengið vottorð frá heimilislækni um að hann væri óvinnufær frá 1. janúar 2018 til 30. apríl 2018. Þann 16. maí 2018 hafi heimilislæknir sent bréf til Vinnumálastofnunar um að kærandi hafi náð fullri heilsu og hafi getað stundað vinnu frá 1. maí 2018. Samkvæmt sjúkraskrá hafi kærandi ekki leitað aftur til læknis fyrr en þann 8. september 2020 vegna kviðverkja sem læknir hafi greint sem nýrnasteina.

Taldi Útlendingastofnun ljóst að ekkert í sjúkrasögu kæranda sýndi fram á að hann glímdi við heilsufarsvandamál sem næðu því alvarleikastigi að hann teldist hafa ríka þörf fyrir vernd, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi Útlendingastofnun að þeir erfiðleikar sem heimaríki kæranda kunni að glíma við vegna Covid-19 faraldursins væru ekki þess eðlis, einir sér eða í samhengi við gögn málsins, að þeir leiddu til þess að heimilt væri að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var kæranda því synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat Útlendingastofnunar, í ljósi þess að kærandi hafði reglulega farið til heimaríkis síðan hann hlaut alþjóðlega vernd hér á landi og dvalið þar meirihluta síðustu ára, að endursending kæranda til heimaríkis bryti ekki gegn 42. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð er málsmeðferð í máli kæranda rakin. Kærandi telur, í ljósi þess að afturköllun alþjóðlegrar verndar sé afar íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun, að gera verði ríkar kröfur til rannsóknar Útlendingastofnunar. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi gert skráningum landamæraeftirlits Alsírs, sem að mati kæranda sé spillt harðræðisríki, afar hátt undir höfði í hinni kærðu ákvörðun. Skráningar í vegabréf séu að mati kæranda ekki ótvíræð sönnun um ferðalög til heimaríkis. Í því sambandi vísi kærandi til þess að hann hafi lagt fram gögn sem bendi sterklega til þess að miklar brotalamir séu á landamæraeftirliti í Alsír. Þá beri landaupplýsingar með sér að spilling sé viðvarandi vandamál í landinu.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Afturköllun alþjóðlegrar verndar skv. 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga

Í 48. gr. laga um útlendinga eru ákvæði um afturköllun alþjóðlegrar verndar. Samkvæmt a-lið 1. mgr. ákvæðisins er heimilt að afturkalla veitingu alþjóðlegrar verndar ef flóttamaður eða ríkisfangslaus einstaklingur fellur ekki lengur undir skilyrði 37. og 39. gr. ef hann hefur sjálfviljugur notfært sér á ný vernd heimalands síns. Í athugasemdum við 48. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að ákvæðið eigi sér stoð í C-lið 1. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Útlendingastofnun taki ákvörðun um afturköllun alþjóðlegrar verndar og skuli túlkun ákvæðisins fara fram í samræmi við leiðbeiningar í handbók flóttamannastofnunar.

Í handbók flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna er fjallað um C-lið 1. gr. flóttamannasamningsins um afturköllun alþjóðlegrar verndar. Samkvæmt 1. tölul. C-liðar 1. gr. samningsins skal samningurinn hætta að gilda um hvern þann mann, sem heimfæra má undir skilgreiningu stafliðs A, ef hann hefur sjálfviljugur notfært sér á ný vernd heimalands síns. Segir m.a. að flóttamaður sem hafi sjálfviljugur notfært sér á ný vernd heimaríkis þarfnist ekki lengur alþjóðlegrar verndar. Með því gefi hann til kynna að hann sé ekki lengur í þeirri stöðu að hann geti ekki eða vilji ekki færa sér í nyt vernd heimalands síns. Í handbókinni kemur jafnframt fram sú afstaða flóttamannastofnunar að beiting 1. tölul. C-liðar 1. gr. flóttamannasamningsins krefjist þess að þrjú atriði séu til staðar. Í fyrsta lagi að flóttamaðurinn verði að haga gerðum sínum af fúsum og frjálsum vilja, í öðru lagi að flóttamaðurinn verði með athöfnum sínum að hafa í hyggju að notfæra sér á ný vernd heimalands síns og í þriðja lagi að flóttamaðurinn verði í raun að hafa fengið slíka vernd. Í umfjöllun um ákvæðið kemur m.a. fram að tiltekin ríki líti svo á að flóttamaður, sem heimsækir heimaríki, t.d. með ferðaskilríkjum frá aðsetursríki en án vegabréfs sem gefið er út í heimaríki, hafi nýtt sér vernd heimalandsins á ný. Viðkomandi sé þá talinn glata réttarstöðu sinni sem flóttamaður samkvæmt 1. tölul. C-liðar 1. gr. flóttamannasamningsins. Meta beri slík tilvik út frá málsatvikum hverju sinni, en þegar lagt sé mat á tengsl flóttamanns við fyrra heimaland sitt beri að gera greinarmun á því annars vegar að heimsækja aldrað eða sjúkt foreldri og hins vegar að ferðast til landsins í fríi eða í viðskiptaerindum.

Í samræmi við ummæli í lögskýringargögnum telur kærunefnd útlendingamála rétt að líta til framangreindra leiðbeininga flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um 1. tölul. C-liðar 1. gr. við túlkun a-liðar 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga.

Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. mars 2014, var kæranda veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til þágildandi 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002. Í þeirri ákvörðun var lagt til grundvallar að kærandi ætti yfir höfði sér 10 til 20 ára fangelsisrefsingu í heimaríki vegna þess að hann hefði gerst liðhlaupi frá hernum. Var það mat Útlendingastofnunar, að teknu tilliti til aðstæðna í alsírskum fangelsum og samverkandi þátta, að kærandi ætti á hættu að þurfa að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu í heimaríki.

Í hinni kærðu ákvörðun, dags. 15. desember 2020, kemur fram að Útlendingastofnun hafi borist upplýsingar frá lögreglunni á Suðurnesjum þann 13. október 2019 um að kærandi hafi verið stöðvaður við komu til landsins með alsírskt vegabréf sitt. Samkvæmt stimplum í vegabréfi kærandi hafi hann ferðast til og frá heimaríki með reglulegu millibili og dvalið þar svo mánuðum skipti frá því að hann hafi fengið vegabréfið útgefið árið 2016. Sem dæmi hafi kærandi dvalið um 233 daga í heimaríki árið 2019 og 204 daga árið áður. Að beiðni Útlendingastofnunar hafi lögreglan kannað ferðalög kæranda til og frá landinu síðastliðin ár og stemmi flugferðir hans við fyrrnefnda stimpla.

Í viðtali, dags. 6. október 2020, bar kærandi fyrir sig minnisleysi vegna höfuðáverka þegar hann var spurður út í ferðir sínar til heimaríkis. Síðar í viðtalinu gekkst kærandi við því að hafa farið einu sinni aftur til heimaríkis. Kærandi kvaðst ekki muna hvenær það hafi verið en tilgangur ferðarinnar hafi verið að heimsækja krabbameinssjúka móður sína. Því til stuðnings framvísaði kærandi ljósmyndum til Útlendingastofnunar sem hann kvað að væru af alsírskum sjúkragögnum. Í greinargerð, dags. 25. janúar 2021, heldur kærandi því fram að skráningar í vegabréfi hans séu ekki ótvíræð sönnun um að hann hafi ferðast til heimaríkis. Í því sambandi vísar kærandi m.a. til þess að hann hafi lagt fram gögn sem bendi sterklega til þess að miklar brotalamir séu á landamæraeftirliti í Alsír. 

Eins og áður greinir benda upplýsingar úr vegabréfi kæranda til þess að hann hafi ferðast með reglulegu millibili til og frá heimaríki frá því að hann fékk alsírskt vegabréf sitt útgefið árið 2016. Að mati kærunefndar hefur ekkert haldbært komið fram af hálfu kæranda sem styður frásögn hans um að hann hafi einungis einu sinni ferðast aftur til heimaríkis frá því að hann fékk alþjóðlega vernd hér á landi. Benda þau atriði sem rakin eru að framan þvert á móti til þess að kærandi hafi leitast við að dylja ferðir sínar til Alsír fyrir íslenskum stjórnvöldum, auk þess sem framburður hans í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi ekki verið í samræmi við áðurnefnda stimpla úr vegabréfi hans og upplýsingar lögreglu um flugferðir hans.

Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að frásögn kæranda um að hann hafi einungis farið einu sinni aftur til Alsír eftir að hann fékk alþjóðlega vernd hér á landi til að heimsækja krabbameinssjúka móður sína sé ótrúverðug. Verður því lagt til grundvallar að kærandi hafi ferðast reglulega til heimaríkis undanfarin ár og dvalið meirihluta áranna 2018 og 2019 þar í landi. Þá tekur kærunefnd enn fremur undir það mat Útlendingastofnunar að umræddar dvalir í heimaríki dragi að verulegu leyti úr trúverðugleika kæranda um þá atburði sem leiddu upphaflega til flótta hans frá landinu.

Kemur þá til skoðunar hvort heimilt sé að afturkalla alþjóðlega vernd kæranda á grundvelli a-liðar 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga. Af þeim sjónarmiðum sem koma fram í leiðbeiningum flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna má draga þá ályktun að einstaklingur, sem hefur réttarstöðu flóttamanns, geti ferðast til heimaríkis í ákveðnum tilgangi án þess að dvölin þar leiði til afturköllunar á alþjóðlegri vernd, sbr. 1. tölul. C-liðar 1. gr. flóttamannasamningsins. Sem dæmi um slíkan tilgang má meðal annars nefna ferð til heimaríkis í því skyni að sinna veikum fjölskyldumeðlimum eða aðstoða þá fjölskyldumeðlimi sem eftir urðu í heimaríki við að komast úr hættulegum aðstæðum.

Eins og áður hefur komið fram dvaldist kærandi meirihluta áranna 2018 og 2019 í heimaríki. Að teknu tilliti til trúverðugleikamats er ekki unnt að komast að annarri niðurstöðu en að tilgangur fara kæranda til heimaríkis og dvala hans þar hafi verið þess eðlis og af þeirri tímalengd að hann teljist hafa sjálfviljugur notfært sér á ný vernd heimalands síns í skilningi a-liðar 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga. Með vísan til framangreinds er því heimilt að afturkalla þá alþjóðlegu vernd sem honum var veitt hér á landi sem og dvalarleyfi hans á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga, sbr. 59. gr. sömu laga, enda eru skilyrði þess ekki lengur uppfyllt.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Í 4. mgr. 48. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ef veiting alþjóðlegrar verndar er afturkölluð skuli stjórnvald taka til athugunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. eða hvort 42. gr. eigi við.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunni að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væri ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi [...] karlmaður frá Alsír. Í framlögðum heilsufarsgögnum kemur fram að kærandi hafi verið metinn óvinnufær frá 1. janúar til 30. apríl 2018 í kjölfar vinnuslyss. Kærandi hafi náð fullri heilsu og verið metinn vinnufær frá 1. maí 2018. Kærandi hafi næst leitað til læknis þann 8. september 2020 og hafi það verið vegna kviðverkja sem læknir hafi greint sem nýrnasteina. Þá hafi hann greint lækni frá svefnvandamálum, þreytueinkennum og skjálftaköstum þann 11. september 2020. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að kærandi hafi leitast eftir heilbrigðisaðstoð frá þeim tíma.

Af framlögðum gögnum verður ekki ráðið að kærandi glími við skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm eða sé í meðferð sem óforsvaranlegt sé að rjúfa. Þá kemur í gögnum um heimaríki kæranda fram, þ. á m. skýrslu sérstaks eftirlitsmanns Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2017 (Report of the Special Rapporteur on the right of everyone to the enjoyment of the highest attainable standard of physical and mental health on his visit to Algeria), að ríkisborgurum Alsír sé tryggður endurgjaldslaus aðgangur að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Í ljósi þess telur kærunefnd að kærandi geti nálgast þá heilbrigðisþjónustu og lyf sem hann telur sig þurfa í heimaríki. Að því er varðar almennar aðstæður í heimaríki kæranda hefur kærunefnd meðal annars kynnt sér eftirfarandi skýrslur:

  • Algeria 2019 Human Rights Report (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
  • Country Policy and Information Note Algeria: Internal relocation and background information (UK Home Office, september 2020);
  • World Report 2021 – Algeria (Human Rights Watch, 23. janúar 2021) og
  • Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (https://coronavirus.jhu.edu/map.html)

Að mati kærunefndar benda ofangreindar skýrslur ekki til þess að aðstæður í heimaríki kæranda séu með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli alvarlegra almennra aðstæðna á svæðinu. Hvað varðar þær aðstæður kæranda í heimaríki, sem urðu grundvöllur alþjóðlegrar verndar hans hér á landi, telur kærunefnd að röng og villandi upplýsingagjöf hans til stjórnvalda í tengslum við þau atvik sem rakin hafa verið kippi stoðum undan frásögn hans um þá atburði.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem nái því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Sem fyrr segir hefur kærandi farið reglulega til heimaríkis frá því að hann hlaut alþjóðlega vernd hér á landi og dvalið þar meirihluta síðustu ára. Í ljósi þess og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frestur til að yfirgefa landið

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi ekki dvalarleyfi hér á landi. Kæranda er því ekki heimil áframhaldandi dvöl hér á landi. Gögn málsins benda ekki til annars en að hann sé við góða heilsu og með hliðsjón af atvikum málsins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið. Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frestsins kann að vera heimilt að brottvísa honum, sbr. a-lið 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

 

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum