Hoppa yfir valmynd
17. desember 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Stóraukin framlög í þróunarsjóð innflytjendamála í þágu barna

Auglýst er eftir umsóknum um styrki úr þróunarsjóði innflytjendamála. Framlög til sjóðsins hafa verið aukin úr 10 milljónum króna í 25 milljónir króna samkvæmt ákvörðun Ásmundar Einars Daðasonar félags- og jafnréttismálaráðherra sem leggur áherslu á að veittir verði styrkir til verkefna í þágu barna og ungmenna. Umsóknarfrestur er til 31. janúar næstkomandi.

Þann 1. janúar næstkomandi tekur til starfa nýtt félagsmálaráðuneyti og embættistitill ráðherrans verður félags- og barnamálaráðherra. Ásmundur Einar segir breyttan embættistitil endurspegla áherslur hans og einbeittan vilja til að setja verkefni í þágu barna og barnafjölskyldna í forsæti: „Í því sambandi er mikilvægt að engir verði skildir eftir. Það er sérstök ástæða til að huga vel að börnum og ungmennum af erlendum uppruna og fjölskyldum þeirra sem eru að fóta sig á nýjum stað, við aðstæður sem eru þeim jafnvel mjög framandi.

Eftirfarandi er auglýsingin sem birt var í blöðum um nýliðna helgi.

Styrkir úr þróunarsjóði innflytjendamála 2018-2019

Innflytjendaráð auglýsir eftir umsóknum um styrki úr þróunarsjóði innflytjendamála. Tilgangur sjóðsins er að efla rannsóknir og þróunarverkefni á sviði innflytjendamála með það að markmiði að auðvelda gagnkvæma aðlögun innflytjenda og íslensks samfélags. Við ákvörðun um styrkveitingar verður að þessu sinni lögð áhersla á eftirfarandi:

  • Rannsóknar- og þróunarverkefni sem tengjast börnum og ungmennum af erlendum uppruna.
  • Rannsóknar- og þróunarverkefni sem tengjast vinnumarkaðsmálum innflytjenda.
  • Rannsóknar- og þróunarverkefni sem stuðla að virkri þátttöku innflytjenda í samfélaginu og auka sýnileika þeirra.
  • Rannsóknar- og þróunarverkefni sem falla vel að áherslum þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2016–2019 sem samþykkt var á Alþingi 20. september 2016.

Önnur rannsóknar- og þróunarverkefni koma einnig til álita.

Styrkir verða veittir félögum, samtökum og opinberum aðilum og eru félags- og hagsmunasamtök innflytjenda sérstaklega hvött til þess að sækja um. Einstaklingum verða að jafnaði einungis veittir styrkir til rannsókna. Að þessu sinni verða 25 milljónir króna til úthlutunar og geta styrkir að hámarki numið 75% af áætluðum heildarkostnaði verkefnis. Unnt er að sækja um jafnt á íslensku og ensku.

Umsóknarfrestur er til 31. janúar 2019. Vakin er sérstök athygli á að einungis er unnt að sækja um rafrænt og er umsóknarformið aðgengilegt á eyðublaðavef Stjórnarráðsins (minarsidur.stjr.is). Vísað er á nánari upplýsingar um þróunarsjóðinn á vef Stjórnarráðsins, meðal annars reglur þróunarsjóðs innflytjendamála með nánari upplýsingum um skilyrði fyrir styrkveitingum. Einnig er bent á framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

Í janúar mun innflytjendaráð standa fyrir opnum kynningarfundi fyrir væntanlega umsækjendur um umsóknarferlið, áherslur ársins og reglur sjóðsins. Nánar auglýst síðar.

Frekari upplýsingar fást í velferðarráðuneytinu í síma 545 8100 og með tölvupósti á netfangið [email protected]. Trúnaðar er gætt við meðferð allra umsókna.

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum