Hoppa yfir valmynd
14. október 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 165/2020

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 165/2020

Miðvikudaginn 14. október 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 6. apríl 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. janúar 2020 um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn 24. október 2019. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 15. janúar 2020, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Með tölvubréfi 15. janúar 2020 fór kærandi fram á rökstuðning fyrir ákvörðun Tryggingastofnunar og var hann veittur með bréfi stofnunarinnar, dags. 28. janúar 2020.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. apríl 2020. Með bréfi, dags. 7. apríl 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 29. apríl 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. maí 2020. Athugasemdir bárust 25. maí 2020 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. júní 2020. Með bréfi, dags. 15. júní 2020, barst viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. júní 2020. Athugasemdir bárust ekki. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. september 2020, var kæranda gefinn kostur á að leggja fram frekari læknisfræðileg gögn um meðferð og fyrirhugaða meðferð hjá tilteknum læknum. Læknisfræðileg gögn bárust frá kæranda þann 15. september 2020 og voru þau send Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Af kæru má ráða að þess sé krafist að ákvörðun Tryggingastofnunar verði felld úr gildi.

Í kæru er greint frá því að umsókn um örorku hafi verið synjað á grundvelli þess að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Kærandi sé búin að vera óvinnufær frá því í október 2017, hún hafi farið á Reykjalund í X 2017 og verið þar til X 2018. Þá hafi hún byrjað hjá VIRK og verið í endurhæfingu frá júlí 2018 til 11. október 2019 þar sem starfsendurhæfing hafi verið talin fullreynd.

Fyrstu viðbrögð Tryggingastofnunar við umsókn kæranda frá 24. október 2019 hafi verið að synja henni 15. janúar 2020. Kærandi hafi ekki farið í læknisskoðun heldur hafi henni verið synjað tæpum þremur mánuðum eftir að hún sótti um. Kærandi hafi ekki heilsu til að fara aftur á vinnumarkaðinn og sé búin að vera í þeirri endurhæfingu sem sé í boði. Kæranda finnist það forkastanleg vinnubrögð að synja henni án þess að fá læknisskoðun. Kærandi hafi farið til læknis í kjölfarið sem skildi ekki hvernig á þessu stæði.

Í athugasemdum frá 25. mars 2020 segir að kærandi hafi verið í markvissri og mikilli endurhæfingu hjá virtustu endurhæfingaraðilum landsins sem telji að endurhæfing sé fullreynd. Heilsa kæranda hafi frekar versnað en batnað með endurhæfingu. Kærandi sé nú hjá B taugalækni sem sé að reyna að aðstoða hana. En þetta sé ekki spretthlaup, heldur langhlaup. Það að þurfa að standa í þessari óvissu um tekjur og hafa engar tekjur sé ekki að hjálpa.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á örorkulífeyri á þeim grundvelli að endurhæfing sé ekki fullreynd.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. 

Hins vegar sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum.

Heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18-67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður séu fyrir hendi.

Þá sé í 37. gr. laga um almannatryggingar meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt þessum lögum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi sótt um örorkumat með umsókn, dags. 24. október 2019, sem hafi verið synjað 15. janúar 2020 á grundvelli þess að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Kærandi hafi fengið greiddan endurhæfingarlífeyri tímabilið 1. júlí 2019 til 31. október 2019, eða í samtals fjóra mánuði. Kærandi hafi því ekki nýtt 32 mánuði af 36 mánaða hámarkstímabili endurhæfingarlífeyris frá Tryggingastofnun.

Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi vegna örorkumats 15. janúar 2020 og hafi hann verið veittur með bréfi, dags. 28. janúar 2020.

Við örorkumat lífeyristrygginga þann 15. janúar 2020 hafi legið fyrir umsókn, dags. 24. október 2019, læknisvottorð C, dags. 18. október 2019, starfsgetumat VIRK, dags. 9. október 2019, þjónustulokaskýrsla VIRK, dags. 11. október 2019, og svör kæranda við spurningalista, mótteknum 5. nóvember 2019.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er greint því sem fram kemur í læknisvottorði, dags. 18. október 2019, starfsgetumati VIRK, dags. 9. október 2019, þjónustulokaskýrslu VIRK, dags. 11. október 2019, og svörum við spurningalista, mótteknum 5. nóvember 2019.

Í máli þessu liggi fyrir þær upplýsingar að starfsendurhæfing VIRK teljist fullreynd að svo stöddu og að kæranda hafi verið vísað í meðferð innan heilbrigðiskerfisins. Athygli kæranda sé vakin á því að meðferð/endurhæfing innan heilbrigðiskerfisins geti verið grundvöllur fyrir greiðslum áframhaldandi endurhæfingarlífeyris ef framvísað sé endurhæfingaráætlun þess efnis.

Tryggingastofnun telji að afgreiðsla umsóknar kæranda, þ.e. að synja um örorkumat á grundvelli þess að endurhæfing sé ekki fullreynd, hafi verið rétt í þessu máli.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 15. júní 2020, segir að í fyrirliggjandi upplýsingum komi fram að kæranda hafi verið vísað í meðferð innan heilbrigðiskerfisins og samkvæmt upplýsingum í athugasemdum kæranda sé hún í meðferð hjá B taugalækni. Athygli kæranda sé vakin á því að sú meðferð gæti hugsanlega verið grundvöllur fyrir áframhaldandi greiðslum endurhæfingarlífeyris, yrði endurhæfingaráætlun þess efnis framvísað ásamt umsókn og eftir atvikum öðrum viðeigandi gögnum.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. janúar 2020 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð C, dags. 18. október 2019. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„[Hypothyroidism, unspecified

Fibromyalgia

Kvíði

Brjósklos í baki]“

Um fyrra heilsufar segir í læknisvottorðinu:

„Löng saga um stoðkerfisverki sem hafa verið verulegt vandamál undanfarin rúm X ár. Greind með vefjagigt af gigtlækni fyrir 10 árum. Þunglyndiseinkenni […] árið 2010. Þá greind með postpartum thyroiditis sem smám saman þróaðist yfir í hypothyrosis. […] Lyfjameðferð vegna kvíða […]. Bakverkir til margra ára. Var til endurhæfingar á Reykjalundi fyrripart árs 2018. Þá aðalvandamálið mjóbaksverkir með leiðni niður hægri ganglim. Einnig verkir á axlarsvæði og þá sérstaklega vinstra megin með leiðni niður vinstri handlegginn. Stöðugir verkir, orkuleysi og slen. Áreynslumæði. Lengi haft svefntruflanir. […] Á Reykjalundi meðferð á verkjasviði. Þá sjúkraþjálfun, líkamsrækt, iðjuþjálfun og einkaviðtöl í hugrænni atferlismeðferð. Þáttaka í fræðslu á sviðinu.“

Um heilsuvanda og færniskerðingu kæranda segir í læknisvottorðinu:

„[…] Mjóbaksverkir […] fyrir X árum, þá leiðni niður í hægri ganglim. Myndrannsókn leiddi í ljós útbungun á liðþófum í mjóbakinu og vægar slitbreytingar, ekki brjósklos. Lengi kvartað yfir miklu orkuleysi og sleni. Kvíði og þunglyndi, verið á lyfjameðferð […]. Svefntruflanir. Var orðin óvinnufær í lok árs 2017 og í upphafi árs 2018 fór hún inn á Reykjalund til endurhæfingar og síðan vísað í starfsendurhæfingu hjá VIRK. Hjá VIRK sálfræðiviðtöl með markmið að draga úr kvíða, áráttuhegðun og minnka streitu. Einnig sjúkraþjálfun. Aðal hindranir til hreyfingu og vinnu líkamlegar, þá brjóskloseinkenni í mjóbaki og í X síðastliðnum greind með brjósklos í hálshrygg milli C6/ C7 hægra megin. Var vísað til taugaskurðlæknis og kemur aðgerð til greina. Hún á endurkomutíma hjá taugaskurðlækninum í næsta mánuði […]. Hefur mjög hamlandi orkuleysi og finnst sjálfri lítill árangur hafa orðið af markvissum tilraunum til endurhæfinga. Hún finnur einnig til svima auk ýmissa annarra óljósra einkenna svo sem þvoglumælgi og sljóleika. Hún á tíma hjá taugasjúkdómalækni fljótlega vegna þessa […] Þrátt fyrir mikla og markvissa endurhæfingu bæði hjá Reykjalundi og VIRK hefur vinnufærni ekki aukist og samkvæmt niðurstöðum VIRK er ekki fyrirsjáanlegt að frekari endurhæfing muni færa hana nær vinnumarkaði eins og staðan er nú og telst starfsendurhæfing þar fullreynd.“

Um lýsingu læknisskoðunar kæranda segir í læknisvottorðinu:

„Kemur ágætlega fyrir. […] Geðslag lækkað. Virkar eins og hún eigi stundum erfitt með að halda þræði í viðtali. Blóðþrýstingurinn verið góður og hjarta- og lungnahlustun eðlileg. Eymsli við þreifingu yfir vöðvafestum víða. Gróf neurologisk skoðun eðlileg.“

Þá segir í læknisvottorðinu að kærandi sé óvinnufær en að búast megi við að færni hennar aukist með tímanum. Í nánara áliti á vinnufærni og horfum á aukinni færni segir:

„Verið í markvissu endurhæfingarprógrammi síðan í byrjun árs 2018 með litlum eða engum árangri. Starfsendurhæfing hjá VIRK telst fullreynd.“

Í starfsgetumati VIRK, dags. 4. október 2019, segir að meginástæður óvinnufæri kæranda séu ótilgreindur bakverkur, taugaóstyrkur, lasleiki og þreyta. Fram kemur að líkamlegir þættir hafi mikil áhrif á færni kæranda. Í samantekt og áliti segir:

„[…]

A fór inn á Reykjalund í upphafi árs 2018 og þá talað um að A stefndi á vinnumarkað haustið 2018. Mælt var með stuðningi frá Virk fram að því.

Einstaklingur verið 16 mánuði í starfsendurhæfingu Virk. Verið í sálfræðiviðtölum og í núvitund á vegum Virk þar sem markmið var að draga úr kvíða, draga úr áráttuhegðun og minnka streitu. Styðja inn í starfsleit/starf. Hún hefur einnig verið í sjúkraþjálfun og verið í hreyfingu en aðalhindranir til vinnu eru nú líkamlegar þ.e. brjóskþófaeinkenni í mjóbaki og nú síðast í hálsi með leiðni niður í handlegg. Er búin að fara í tíma hjá taugaskurðlækni og hann var tilbúinn að skera hana strax. Hún óttaðist hvað hún er lengi að ná sér eftir svona aðgerðir og á að hitta hann aftur og reiknar þá með að fara í aðgerð. Einstaklingur kominn til atvinnulífstengils Virk en treystir sér ekki í vinnuprófun á næstunni, getur hvorki unnið á tölvu né beitt hendinni sem skildi. Hún er með mjög hamlandi orkuleysi […]

Mikil endurhæfing hefur farið fram bæði hjá Virk og Reykjalundi án þess að vinnufærni hafi aukist og ekki fyrirsjáanlegt að frekari endurhæfing á þessum tímapunkti muni færa hana nær vinnumarkaði og telst starfsendurhæfing því fullreynd.

[…]

Niðurstaða: Heilsubrestur til staðar sem veldur óvinnufærni. Starfsendurhæfing hjá Virk er talin fullreynd.

Raunhæft er talið að stefna á þátttöku á almennum vinnumarkaði eftir velheppnaða meðferðar innan heilbrigðiskerfis“

Í þjónustulokaskýrslu VIRK, dags. 11. október 2019, segir nánar um ástæðu þjónustuloka:

„Starfsendurhæfing er talin fullreynt á þessum tímapunkti og er henni vísað í meðferð innan heilbrigðiskerfisins.“

Undir rekstri málsins barst frá kæranda læknabréf D, dags. 19. desember 2019, og segir þar:

„A fór í SÓ skoðun af hálshryggnum þar sem ekki fundust nein merki um demyeliniserandi teikn og brjósklos C6/7 minnkað. Þetta eru jákvæðar niðurstöður […]“

Einnig var lögð fram sjúkraskrá frá 21. ágúst 2019 til 21. júlí 2020 um samskipti læknanna D, E og B vegna kæranda. Í beiðni D um sjúkraþjálfun, dags. 3. janúar 2020, segir meðal annars:

„Ný sómynd í desember sýnir að brjósklosið er mikið minna. Ekki er ábending til skurðaðgerðar.

Tegund þjálfunar

liðkun og styrking á háls, hnakka og axlarvöðvum“

Þá kemur meðal annars eftirfarandi fram í læknabréfi frá E lækni, dags. 15. júni 2020:

„Við skoðun á hægri öxlinni þá er hún með ágætis hreyfiferil. Hún er hins vegar með los í öxlinni. Jákvæðan sulcus og hún er með veiklaðan vöðvastyrk bæði í rotator cuff vöðvum, supra, infra og subscapularis en það er ekki klemmupróf við fulla fráfærslu eða Hawkins próf en Jobe test er pos, þ.e.a.s. minnkaður styrkur í supra og klemmueinkenni við fulla framhreyfingu. Afturhreyfing er góð. AC liður í lagi og við hálsskoðun þá eru talsverðir leiðniverki sem liggja niður af öxlinni og niður í handlegginn.

Álit:

Rtg. og ómun sýnir smá tendinosubreytingar en annars bara fína axlarmynd og gott pláss subacromialt. Einkenni hennar í öxlinni eru vegna þess að hún er með laus liðbönd og þegar hún fær brjósklos í hálsinn þá veikjast vöðvarnir í öxlinni og öxlin verður instabil og þá fær hún seconder klemmueinkenni.

Meðferðin við þessu er styrktarþjálfun, stöðugleikaþjálfun til þess að reyna að koma öxlinni aftur í balance. Sendi beiðni til F hér í X, hún er líka góð í hálsinum þannig að ég vonast til að hún fari þangað í meðferð.

Greining/-ar:

Frozen shoulder, M75.0

Úrlausnir:

Tilvísun til sjúkraþjálfara, 945“

Einnig barst bréf frá B lækni, dags. 14. september 2020, þar sem tekin eru samskipti hennar við kæranda frá 10. desember 2019. Í bréfinu segir meðal annars:

Saga:

A fékk sumarið brjósklos C6-C7 hægra megin með miklum taugaverk niður í handlegginn í sumar staðfest brjósklos á segulómun19.07.2019 í Hjartavernd. Þessir slæmu verkir hafa dvínað niður í handlegginn en hún finnur fyrir dofa og finnur fyrir því eins og höndin virki ekki almennilega þegar hún er að vinna á lyklaborðinu. Hún er einnig slæm af verkjum í baki og út í fótlegg, hún finnur fyrir mikilli þreytu og verður þvoglumælt. Man ekki vel hluti.

Skoðun:

Mjög líflega reflexa en Babinski er ekki til staðar, triceps reflexinn hægra megin er svolítið daufari en vinstra megin sem stemmir áætlega miðað við þetta brjósklos. Ágætis kraftur en fær þó verki í öxlina við átak hægra meign sem að gerir mat á krafti erfitt í hægri handlegg. Hún er örvhent.

Álit:

Útilokað hefur verið MS. Fer í blóðprufu. Hefur verið lág í járni og sýnist ég bið G að bæta það upp.“

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar, sem lagður var fram með umsókn kæranda um örorku, svaraði kærandi spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni sinni. Í svörum kæranda varðandi líkamlega færni kemur fram að hún eigi erfitt með ýmsar daglegar athafnir vegna verkja. Hvað varðar andlega færni kæranda greinir hún frá því að hún hafi verið að glíma við hamlandi þunglyndi og ofsakvíða ásamt áráttu- og þráhyggjuröskun og að hún þoli illa streitu og álag.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Eins og áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Þá var kæranda leiðbeint að fá ráðgjöf hjá heimilislækni um þau endurhæfingarúrræði sem væru í boði.

Fyrir liggur að kærandi býr við ýmis vandamál af andlegum og líkamlegum toga og að hún hefur verið í töluverðri starfsendurhæfingu. Samkvæmt læknisvottorði C er kærandi óvinnufær en fram kemur að búast megi við að færni hennar aukist með tímanum og vísar hann þar til hugsanlegrar aðgerðar á kæranda. Í beiðni D um sjúkraþjálfun, dags. 3. janúar 2020, segir að ekki sé ábending til skurðaðgerðar og mælti hann með liðkun og styrkingu á hálsi, hnakka og axlarvöðvum. Þá vísar E læknir kæranda í sjúkraþjálfun vegna hægri axlar, sbr. læknabréf 15. júní 2020. Í þjónustulokaskýrslu VIRK frá 11. október 2019 kemur fram að starfsendurhæfing sé talin fullreynd á þessum tímapunkti og þá var kæranda vísað í meðferð innan heilbrigðiskerfisins. Þá kemur fram í starfsgetumatmati VIRK frá 4. október 2019 að raunhæft sé talið að stefna á þátttöku á almennum vinnumarkaði eftir velheppnaða meðferð innan heilbrigðiskerfis.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráða megi af gögnum frá VIRK að endurhæfing á þeirra vegum sé fullreynd en ekki verður sú ályktun dregin af matinu að ekki sé möguleiki á frekari endurhæfingu á öðrum vettvangi, enda var vísað til þess að kærandi þyrfti frekari aðkomu heilbrigðiskerfisins. Þá telur úrskurðarnefndin að ekki verði ráðið af gögnum málsins að veikindi kæranda séu þess eðlis að frekari endurhæfing geti ekki komið að gagni. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið í endurhæfingu og fengið greiddan endurhæfingarlífeyri vegna þess í fjóra mánuði, en heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á frekari endurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kemur.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. janúar 2020 um að synja kæranda um örorkumat.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkumat, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum