Hoppa yfir valmynd
29. desember 2017 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 12/2017

Mál nr. 12/2017

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

Erindi Kvenréttindafélags Íslands

 

Skipun Alþingis í fjárlaganefnd. Aðild. Frávísun.

Kvenréttindafélag Íslands kærði skipun Alþingis í fjárlaganefnd á 148. löggjafarþingi, en í nefndina voru skipaðir átta karlar og ein kona. Kæra til kærunefndar jafnréttismála var lögð fram af félagasamtökum án þess að um væri að ræða mál tiltekins aðila sem hefði einstaklingsbundna og lögvarða hagsmuni af úrlausn þess eða að samtökin hefðu sýnt fram á fyrirsvar fyrir þá hagsmuni sem um ræddi. Var því málinu vísað frá nefndinni.

 1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 29. desember 2017 er tekið fyrir mál nr. 12/2017 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
 2. Með erindi, dagsettu 19. desember 2017, kærði Kvenréttindafélag Íslands skipun Alþingis í fjárlaganefnd á 148. löggjafarþingi 2017–2018, en í nefndina voru skipaðir átta karlar og ein kona. Kvenréttindafélagið kveður þá skipan fara í bága við 15. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

  MÁLAVEXTIR
 3. Þann 28. október 2017 fóru fram kosningar til Alþingis og að lokinni stjórnarmyndun á fyrsta fundi 148. löggjafarþings þann 14. desember 2017 fór fram kosning í fastanefndir þingsins. Ein þeirra nefnda sem kosið var í var fjárlaganefnd og voru kosnir átta karlar og ein kona. Kosning fór fram án atkvæðagreiðslu.

  SJÓNARMIÐ KVENRÉTTINDAFÉLAGS ÍSLANDS
 4. Kvenréttindafélag Íslands vísar í kæru sinni til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 10/2008 sem kveður á um að einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir eða félagasamtök geti lagt fram kæru í eigin nafni eða fyrir hönd félagsmanna sinna og telur Kvenréttindafélagið sig geta lagt fram kæru vegna meints brots á lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Kvenréttindafélagið sé félagasamtök sem hafi það að markmiði að vinna að kvenréttindum og jafnri stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.
 5. Kvenréttindafélag Íslands telur að Alþingi hafi við kosningu í fjárlaganefnd á 148. löggjafarþingi, sem sett var þann 14. desember 2017, brotið gegn 15. gr. jafnréttislaga. Í 1. mgr. þess ákvæðis sé kveðið á um að við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli gæta þess að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa sé að ræða. Í 1. málslið 2. mgr. segi að tilnefningaraðili skuli tilnefna bæði karl og konu og að heimilt sé að víkja frá skilyrði 1. málsliðar þegar hlutlægar ástæður leiði til þess að ekki sé mögulegt að tilnefna bæði karl og konu og skuli tilnefningaraðili skýra ástæður þess. Í 3. mgr. segi að skipunaraðila sé heimilt að víkja frá ákvæði 1. mgr. ef undanþáguheimild 2. mgr. eigi við.
 6. Í fjárlaganefnd Alþingis sitji átta karlar og ein kona sem þýði að konur skipi um 11% nefndarinnar sem sé ekki í samræmi við 1. mgr. 15. gr. jafnréttislaga. Í fundargerð Alþingis frá fundinum komi meðal annars fram að við kosningu í nefndir hafi komið fram listi með samtals jafnmörgum nöfnum og menn skyldi kjósa. Því hafi kosningin farið fram án atkvæðagreiðslu.
 7. Kvenréttindafélag Íslands fái því ekki séð að tilnefningaraðili hafi fylgt 2. mgr. 15. gr. jafnréttislaga með því að tilnefna fólk af báðum kynjum. Ekki verði séð að hlutlægar ástæður hafi staðið að baki skipuninni, hvorki með vísan til 1. né 2. mgr., og engin tilraun hafi verið gerð til að skýra ástæður þess að nefndin var skipuð svo.
 8. Hlutfall kvenna á Alþingi sé nú 38% og því fyrirséð að erfitt verði að uppfylla skilyrði 1. mgr. 15. gr. laganna að öllu leyti og í öllum nefndum þingsins, en Kvenréttindafélag Íslands telji augljóst að í tilviki fjárlaganefndar hafi það ekki einu sinni verið reynt og ákvæðið virt að vettugi. Kvenréttindafélag Íslands telur að Alþingi sé skylt að fylgja jafnréttislögum í öllum störfum sínum, þar á meðal við skipan í fastanefndir. Hvorki í jafnréttislögum né lögum nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, sé gerð undantekning frá því að nefndir Alþingis falli ekki undir jafnréttislög.

  NIÐURSTAÐA
 9. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna.
 10. Einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök í eigin nafni eða fyrir hönd félagsmanna, sem telja að ákvæði laganna hafi verið brotin á sér, geta leitað atbeina kærunefndar jafnréttismála, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Skýra verður ákvæði þetta svo að aðild félagasamtaka að málum fyrir nefndinni sé bundin því skilyrði að málið sé rekið fyrir hönd tiltekins eða tiltekinna félagsmanna sem hafi einstaklingsbundinna og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn ágreiningsefnisins eða í það minnsta að augljóst sé að félagasamtökin fari með fyrirsvar fyrir þá hagsmuni sem fylgt er eftir með kærunni.
 11. Mál þetta er ekki rekið fyrir hönd tiltekins eða tiltekinna einstaklinga heldur kærir Kvenréttindafélag Íslands skipan í fjárlaganefnd Alþingis á grundvelli 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga. Félagið hefur ekki sýnt fram á að það fari með fyrirsvar fyrir þá hagsmuni sem um ræðir. Með vísan til þess að skilyrði fyrir málsaðild samkvæmt fyrrnefndu ákvæði eru ekki uppfyllt er málinu vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Máli þessu er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

 

Erla S. Árnadóttir

Björn L. Bergsson

Þórey S. Þórðardóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira