Hoppa yfir valmynd
8. maí 2013 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Hjólað í vinnuna í ellefta sinn

Hleypt var af stokkunum í morgun átakinu ,,Hjólað í vinnuna” sem Íþrótta- og ólympíusamband Íslands stendur nú að í ellefta sinn. Liðlega 500 tóku þátt fyrsta árið en í fyrra voru þeir yfir 11 þúsund. Vinnustaðir voru 45 fyrsta árið en 666 í fyrra.

Átakið hjólað í vinnuna hófst í morgun.
Átakið hjólað í vinnuna hófst í morgun.

Átakinu var hleypt formlega af stað í morgun í Laugardalnum í Reykjavík að viðstöddu hjólreiðafólki og ýmsum gestum. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra var meðal þeirra sem fluttu ávarp og sagði ráðherra átakið þarft og gagnlegt. Hvatningin um að hjóla reglulega væri mikils virði þeim sem ekki hefðu enn komist á bragðið.

Ögmundur Jónasson flutti ávarp við upphaf átaksins hjólað í vinnuna.Innanríkisráðherra minnti á að samgönguyfirvöld leggðu nú sífellt meiri áherslu á að efla almenningssamgöngur um land allt og jafnframt að búa í haginn fyrir hjólreiðar og gangandi vegfarendur, til dæmis á höfuðborgarsvæðinu með lagningu göngu- og hjólreiðastíga í samstarfi við borgaryfirvöld. Þá sagðist ráðherra hafa orðið var við að í ráðuneytinu væru starfsmenn að metast milli hæða hvar væri mest þátttaka í átakinu og þakkaði hann forráðamönnum Íþrótta- og ólympíusambandsins fyrir framtakið.

Oddný Sturludóttir og Ögmundur Jónasson ræddu málin við upphaf átaksins.Auk ráðherra fluttu ávörp þau Eva Einarsdóttir, formaður íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkur, Oddný Sturludóttir, formaður skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur og Árni Davíðsson, formaður Landssamtaka hjólreiðamanna.

Þá var hjólaviðgerðarmaðurinn dr. Bæk á svæðinu og fór yfir hjól þeirra sem þess óskuðu og síðan hjólaði hópurinn af stað til að sinna verkefnum dagsins. Ýmsar uppákomur verða tengdar átakinu og þær nánar auglýstar hverju sinni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira