Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2018 Utanríkisráðuneytið

Flótta- og farandfólki fækkar en hættum fjölgar

Þrátt fyrir að flótta- og farandfólki sem kemur til Evrópu hafi fækkað á síðasta ári hefur hættunum á leiðinni síst fækkað, jafnvel fjölgað, segir í nýrri skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) sem kom út í gær. Í skýrslunni – Desperate Journeys – kemur fram að flóttafólki á sjóleiðinni til Ítalíu, aðallega frá Líbíu, hafi fækkað verulega frá júlímánuði í fyrra. Fækkunin hafi haldið áfram fyrstu þrjá mánuði þessa ár þegar 74% færra flóttafólk lagði í þennan stórhættulega leiðangur yfir hafið.

Á síðasta ári fórst einn af hverjum 29 flóttamönnum á sjóleiðinni yfir Miðjarðarhafið en það sem af er ári er hlutfallið einn á móti 14. Í skýrslu UNHCR er lýst afar bágbornu heilsufari þeirra flóttamanna sem komið hafa þessa fyrstu mánuði og þeir almennt sagðir mjög veikburða og magrir.

Þótt flótta- og farandfólki hafi í heild fækkað í samanburði við árið 2016 er bent á fjölgun þeirra sem komu til Spánar og Grikklands, einkum síðari hluta ársins 2017. Til Spánar komu alls 28 þúsund einstaklingar á síðasta ári sem er 101% fjölgun frá fyrra ári. Þróunin er svipuð þessa fyrstu þrjá mánuði og aukningin 13% miðað við sama tíma í fyrra. Marokkómönnum og Alsíringum hefur fjölgað mikið en Sýrlendingar eru þó enn stærsti innflytjendahópurinn sem ferðast yfir landamærin til Spánar, segir í skýrslunni.

Í samanburði við árið 2016 fækkaði flótta- og farandfólki á síðasta ári sem kom sjóleiðina til Grikklands. Síðari hluta ársins varð hins vegar vart við fjölgun en þá komu til Grikklands tæplega 25 þúsund flóttamenn á móti rúmlega 18 þúsund árið áður, flestir frá Sýrlandi, Írak og Afganistan, meðal annars margar fjölskyldur með börn. Þeirra beið dapurleg vist í yfirfullum búðum á grískum eyjum, að því er fram kemur í skýrslu Flóttamannastofnunar.

Talið er að 3,100 einstaklingar hafa týnt lífi á sjóleiðinni yfir Miðjarðarhafið í fyrra og 5,100 árið 2016. Það sem af er ári hefur 501 látist eða horfið á leiðinni yfir hafið, auk 75 annarra sem látist hafa á landi eftir komuna til Evrópu.

Þá kemur fram í skýrslunni að 17 þúsund fylgdarlaus börn hafi verið í hópi flótta- og farandfólks og flest hafi komið sjóleiðina alræmdu.

Nánar

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum