Hoppa yfir valmynd
26. maí 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Endurnýjar samning við Heimilisfrið

Frá undirritun samningsins - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur endurnýjað samning við Heimilisfrið um sérhæfða sálfræðiþjónustu fyrir konur og karla sem beitt hafa maka sína ofbeldi. Vegna áhrifa af Covid-19 og aukinnar umræðu í samfélaginu hefur mikil ásókn verið í þjónustu Heimilisfriðar undanfarið ár. Til að mæta aukinni eftirspurn eftir þjónustunni kveður samningurinn á um 13 milljóna króna aukafjármagn en í samningnum felst að Heimilisfriður veiti gerendum ofbeldis í nánum samböndum einstaklings- og hópmeðferð.

Félagsmálaráðuneytið hefur undanfarin ár styrkt starf Heimilisfriðar en meðferðinni er ætlað að draga úr líkum á frekari ofbeldishegðun og felst í því að þróa leiðir til að takast á uppbyggilegan hátt við ágreining og erfiðleika í samskiptum. Í meðferð Heimilisfriðar er unnið með gerendum ofbeldis og markmiðið að þeir viðurkenni ábyrgð og breyti hegðun sinni. Lögð er áhersla á að viðkomandi þiggi aðstoðina af fúsum og frjálsum vilja og hafi sjálfir frumkvæði að því að leita sér aðstoðar. Undantekningar á þessari meginreglu eru til dæmis þegar barnaverndaryfirvöld, félagsþjónusta eða lögregla vísa málum til Heimilisfriðar.

Heimilisfriður hefur lagt áherslu á að stytta biðtíma eftir viðtali, ásamt því að efla símaþjónustu sína. Starf Heimilisfriðar er orðið vel þekkt sem ásamt aukinni umræðu í samfélaginu hefur skilað sér í aukinni eftirspurn eftir þjónustunni. Heimilisfriður býður einnig upp á þjónustu á Norðurlandi.

Mörg mikilvæg úrræði eru í boði fyrir þolendur en forvarnir eru öflugasta leiðin til að fyrirbyggja ofbeldi og því er mikilvægt að vera með úrræði sem vinnur með gerendum. Þannig er ekki einungis gripið inn í þegar ofbeldi hefur verið beitt heldur er unnið með úrræði sem forvörn og reynt að koma í veg fyrir frekara ofbeldi.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Heimilisfriður vinnur afskaplega mikilvægt starf en það er gríðarlega mikilvægt að í boði sé markviss meðferð fyrir gerendur ofbeldis þannig að þeir sem beita ofbeldi fái faglega aðstoð við að ná tökum á hegðun sinni. Ofbeldi í nánum samböndum hefur alltaf alvarlegar afleiðingar, ekki síst þegar börn búa við slíkar aðstæður. Með samningnum við Heimilisfrið er þjónustan mikið niðurgreidd og þannig verður hún aðgengilegri fyrir þá sem þurfa og vilja leita sér hjálpar.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum