Hoppa yfir valmynd
16. ágúst 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 470/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 8. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 470/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18100045

 

Beiðni [...] um endurupptöku

I.                    Málsatvik

Þann 16. ágúst 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 12. febrúar 2018 um að synja einstaklingi er kveðst heita [...], vera fæddur [...], og vera ríkisborgara Pakistan (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 20. ágúst 2018. Þann 27. ágúst 2018 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Að ósk lögmanns kæranda var horfið frá beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa þann 3. september 2018. Þann sama dag barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins, ásamt fylgigögnum. Beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði kæranda var synjað af kærunefnd þann 4. október 2018. Þann 19. október 2018 barst kærunefnd önnur beiðni kæranda um að nefndin endurskoðaði úrskurð hans.

Kærunefnd leggur þann skilning í beiðni aðila að hann fari þar fram á endurupptöku í máli hans á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.                  Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, þar sem ákvörðun í máli hans hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Í beiðni kæranda lýsir hann óánægju sinni yfir því að mál hans hafi ekki verið endurupptekið jafnframt sem hann vilji útskýra gögn, staðfestingu læknis og FIR skýrslu, sem bárust kærunefndinni með fyrri beiðni kæranda um endurupptöku. Í staðfestingu útgefinni af lækni sem kærandi hafi þegar lagt fram hjá kærunefnd komi fram að hann hafi dvalið á spítala eftir að hann hafi orðið fyrir hnífaárás. Kærandi bendir á að læknirinn hafi ekki verið vitni af árásinni og því komi ekki fram á vottorðinu hver hafi stungið kæranda, enda sé það ekki hlutverk lækna heldur lögreglunnar. Lögreglan í heimaríki kæranda hafi átt að skrásetja atvikið, en vegna spillingar í lögreglunni hafi það ekki verið gert. Þá tekur kærandi fram að hann hafi ekki getað lagt fram FIR skýrslu í heimaríki á móti föður fyrrverandi unnustu sinnar þar sem hann sé mjög valdamikill maður.

Í ljósi alls framangreinds telji kærandi tilefni til þess að mál hans verði tekið upp að nýju og að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem ákvörðun í máli hans hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

III.                Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 16. ágúst 2018 og var úrskurðurinn birtur fyrir kæranda 20. ágúst 2018. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því eigi hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærandi byggir beiðni um endurupptöku aðallega á skjölum, sem kærunefnd tók afstöðu til í fyrri beiðni kæranda um endurupptöku, sem hann kveður styrkja frásögn sína um að hann sé þolandi heiðurstengds ofbeldis.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á þeim úrskurði ásamt þeim gögnum sem kærandi vísar í og hafi þegar borist kærunefnd með fyrri beiðni, þ.e. staðfestingu frá lækni og FIR skýrslu ásamt þýðingu. Telur kærunefnd að um sé að ræða upplýsingar sem þegar lágu fyrir þegar úrskurður í máli kæranda var kveðinn upp og voru ekki dregnar í efa af hálfu nefndarinnar. Að teknu tilliti til frásagnar kæranda og gagna málsins, þ.m.t. þeirra gagna sem lögð voru fram með fyrri beiðni kæranda um endurupptöku, er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 16. ágúst 2018 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að úrskurður kærunefndar hafi byggst á atvikum sem hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Kröfu kæranda um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd er því hafnað.

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson                                                               Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum