Hoppa yfir valmynd
7. september 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 295/2022 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 295/2022

Miðvikudaginn 7. september 2022

 

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 8. júní 2022, kærði B lögmaður, f.h.  A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 16. maí 2022 um bætur úr sjúklingatryggingu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 16. desember 2020, vegna afleiðinga meðferðar á C X. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 16. maí 2022, var atvikið fellt undir 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu á þeirri forsendu að kærandi hefði ekki notið bestu mögulegu meðferðar á C þann X og var bótaskylda viðurkennd.

Samkvæmt niðurstöðu stofnunarinnar var stöðugleikapunktur ákveðinn X. Varanlegur miski var metinn 8 stig en varanleg örorka og þjáningabætur voru metnar engar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 8. júní 2022. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 14. júní 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. júní 2022, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Engar athugasemdir bárust.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á endurskoðun á ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands og telur að hækka beri varanlegan miska og meta beri varanlega örorku til að minnsta kosti sama hundraðshluta og varanlega miska.

Í kæru segir að Sjúkratryggingar Íslands hafi fengið til meðferðar umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu sökum afleiðinga vegna vanrækslu sjónprófana hjá C sem hafi farið fram X. Við skoðun hjá augnlækni árið X hafi komið í ljós að kærandi hafi haft verulega sjónskerðingu á hægra auga, svokallað latt auga og að of seint hafi verið að grípa inn í. Augnlæknir hafi uppgötvað að sjón kæranda væri aðeins 15% á hægra auga en með gleraugum og sjónlepp hafi sjónin lagast í 30% X. Þá hafi verið talið fullreynt um bata. Fram hafi komið í gögnum málsins að augnlæknar væru sammála um að sjónskerðing kæranda hefði ekki gerst á stuttum tíma og að óskiljanlegt væri að svona mikil skerðing hefði ekki fundist í fyrri sjónskoðunum. Enn fremur að hefði sjónskerðing uppgötvast fyrr hefði kærandi náð fullri sjón á auganu.

Niðurstaða Sjúkratrygginga Íslands hafi verið sú að kærandi hafi ekki notið bestu mögulegu meðferðar á C þann X og að atvikið væri bótaskylt samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Að beiðni Sjúkratrygginga Íslands hafi D augnlækni verið falið að meta varanlegar og/eða tímabundnar afleiðingar vegna sjúklingatryggingaratburðarins. D hafi skilað matsgerð, dags. 22. febrúar 2022. Þar segi meðal annars að kærandi sé með varanlega sjónskerðingu á hægra auga. Sjón sé þar aðeins 30%, þrátt fyrir bestu gleraugu og einnig megi ætla að þrívíddarsjón sé ekki eins og hefði getað verið. Gera megi ráð fyrir því að ástand hefði orðið stöðugt við 7-9 ára aldur en kærandi sé nú X ára. Varanlegan miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga hafi matsmaður metið til 8 stiga með vísan til miskataflna örorkunefndar. Aðspurð um varanlega örorku samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga segi matsmaður að kærandi ætti að geta unnið flest störf, en nefni þó að hún myndi aldrei uppfylla kröfur sem flugmaður eða flugumferðarstjóri. Eiginlegt mat á varanlegri örorku sé ekki í matsgerðinni og eigi heldur mat á tímabili þjáninga samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga.

Í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 16. maí 2022 sé áréttað að kærandi hafi ekki notið fullnægjandi heilbrigðisþjónustu og að atvikið eigi undir 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Jafnframt að henni beri að ákvarða bætur með tilliti til bótaþátta sem tilgreindir séu í skaðabótalögum nr. 50/1993, sbr. 5. og 15. gr. laga um sjúklingatryggingu. Kærandi geti ekki unað við ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, enda telji hún Sjúkratryggingar Íslands vanmeta afleiðingar sjúklingatryggingaratburðarins stórkostlega.

Kærandi telji ljóst að afleiðingar sjúklingatryggingaratburðarins séu verulega vanmetnar í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands. Ákvörðunin sé, að minnsta kosti að hluta, byggð á matsgerð D sem sé haldin þeim meingalla að þar sé hvorki skilað áliti um rétt til þjáningabóta né mati á varanlegri örorku. Þá sé varanlegur miski metinn of lágur að mati kæranda og miski ekki færður undir viðeigandi lið í miskatöfu, líkt og lagt hafi verið fyrir matsmann að gera.

Kærandi geri ekki ágreining um það að erfitt kunni að vera út frá hefðbundnum viðmiðunum eða aðferðafræði í mati á starfsorkuskerðingu að leggja mat á varanlega örorku barns sem sé aðeins X ára þegar matið fari fram og átta ára á stöðugleikapunkti. Í skaðabótalögunum eins og þau hafi upphaflega verið samþykkt árið 1993 hafi sagt í 1. mgr. 8. gr. að „bætur til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti nýta vinnugeta sína þannig að þeir hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur, skal ákvarða á grundvelli miskastigs skv. 4. gr.“ Það hafi verið rökstutt með því að oft væri það miklum erfiðleikum bundið að meta vinnutekjutjón vissra hópa tjónþola, þ.e. barna, ungs fólks í skóla og þeirra sem vinni heimilisstörf. Því hafi upphaflega verið miðað við 8. gr. þess efnis að örorkubætur til tjónþola, sem nýti starfsgetu sína að verulegu leyti til annars en að afla vinnutekna, skuli ákveðnar eftir miskastigi samkvæmt 4. gr.

Þó svo að sú breyting hafi verið gerð á 8. gr. með lögum nr. 37/1999 að ákvarða örorku þessa hóps á grundvelli örorkustigs samkvæmt 5. gr. þá hnígi öll rök að því að láta hina varanlegu örorku að minnsta kosti haldast í hendur við miskastigið. Miða verði við að starfsævi einstaklings nái í það minnsta til 70 ára aldurs. Þegar heilsufar kæranda hafi verið orðið stöðugt við átta ára aldur hafi ef til vill verið 15 ár í að hún hæfi atvinnuþátttöku og eftir það um 50 ár eftir af starfsævinni. Hvaða áhrif sjónskerðing hennar kunni að hafa næstu sex áratugi á nám og atvinnu sé augljóslega aðeins huglæg áætlun eða forspá um framtíðina.

Þá sé augljóst að fötlun kæranda muni alltaf þrengja starfsval hennar. Það sé ekki einungis bundið við flugmannsstarf eða flugumferðarstjórn eins og látið sé liggja að í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands. Það séu gerðar ákveðnar kröfur til sjónar til að öðlast próf til ýmissa annarra starfa, svo sem í reglugerð nr. 175/2008 um skipstjórnar- og vélstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum. Kærandi sé fædd og uppalin á sjávarútvegsstaðnum E. Þá komi fram í matsgerð að ætli megi að þrívíddarsjón (dýptarskynjun) sé ekki eins góð og verið hefði. Telja verði að skert dýptarskynjun og varanleg sjónskerðing myndi einnig hafa áhrif á möguleika viðkomandi til að sinna alls kyns iðnaðarstörfum sem og margs konar nákvæmnisvinnu.

Að ákvarða kæranda 997.040 kr. í bætur vegna sjónskerðingarinnar sé beinlínis rangt og bersýnilega ósanngjarnt. Með vísan til framangreinds telji kærandi ljóst að tjón hennar sé verulega vanmetið í hinni kærðu ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að móðir kæranda hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 fyrir hönd ólögráða dóttur sinnar með umsókn sem hafi borist Sjúkratryggingum Íslands þann 18. desember 2020. Sótt hafi verið um bætur vegna meðferðar sem fram hafi farið á C þann X. Aflað hafi verið gagna frá meðferðaraðilum. Þá hafi málið verið tekið fyrir á fundi fagteymis í sjúklingatryggingu sem skipað sé læknum og lögfræðingum Sjúkratrygginga Íslands. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 16. maí 2022, hafi verið talið að kærandi hafi ekki hlotið bestu mögulegu meðferð, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Lagt hafi verið mat á tímabundið og varanlegt tjón kæranda og henni greiddar bætur.

Í hinni kærðu ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands hafi bótaskylda verið samþykkt á grundvelli 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Tímabil þjáningabóta samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 miði við tímabil óvinnufærni í skilningi skaðabótalaga nema þegar aðstæður séu sérstakar. Ljóst sé að kærandi hafi ekki verið óvinnufær í skilningi skaðabótalaga vegna sjúklingatryggingaratburðar, enda ekki hægt að sjá samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að kærandi hafi misst úr skóla.

Varanlegur miski hafi verið metinn 8 stig. Hefði greiningu og meðferð verið háttað með fullnægjandi hætti væru allar líkur á að kærandi hefði þroskað fulla sjón á hægra auga og verið með fulla sjónskerpu með gleraugum. Þar sem kærandi hafi ekki fengið rétta greiningu og meðferð í kjölfar hennar, hafi hún ekki þroskað sjónskerpu á hægra auga og þar með sé hún með varanlega sjónskerðingu. Þessar afleiðingar hafi þó ekki áhrif á sjónsvið kæranda. Samkvæmt miskatöflum örorkunefndar (kafli B, reitur 6/24) geri þetta varanlegan miska 8%.

Varanleg örorka hafi ekki verið talin vera fyrir hendi og hafi verið vísað til þess að þær varanlegu afleiðingar sem metnar hafi verið til 8 stiga miska væru þess eðlis að þær hefðu ekki áhrif á getu kæranda til að afla tekna í framtíðinni. Tekið hafi verið fram að erfitt væri að leggja mat á varanlega örorku barns sem hafi aðeins verið X ára gamalt þegar matið hafi farið fram. Ljóst væri að kærandi uppfylli ekki kröfur einstakra starfa svo sem starf flugmanns eða við flugumferðastjórn. Þó þyrfti að líta til þess að kærandi væri enn ung að árum og hefði því þann möguleika að lágmarka tjón sitt með því að velja sér starf og menntun þar sem afleiðingar vangreiningar á lötu auga væru sem minnst til trafala.

Kærandi telji ljóst að afleiðingar sjúklingatryggingaratburðar séu verulega vanmetnar í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, bæði hvað varði varanlegan miska og varanlega örorku. Þá sé því haldið fram að matsgerð matslæknis sé haldin þeim galla að hvorki sé skilað áliti um rétt kæranda til þjáningabóta né mati á varanlegri örorku. Einnig sé bent á að varanlegur miski hafi ekki verið færður undir viðeigandi lið í miskatöflum.

Að mati Sjúkratrygginga Íslands sé ekkert í gögnum málsins sem gefi tilefni til þess að víkja frá hinni kærðu ákvörðun hvað varði mat á varanlegum miska. Í tölvupósti Sjúkratrygginga Íslands til matslæknis, dags. 4. maí 2022, hafi verið spurt til hvaða liðar í miskatöflum örorkunefndar matsmaður vísi. Í svari matslæknis til Sjúkratrygginga Íslands, dags. 4. maí 2022, komi eftirfarandi fram:

„Í miskatöflunni vísa ég til þess að hún sér 1,0 með öðru auga (sem er 6/6). Hún sér 0,3 með hinu (sem er 6/20). Í töflunni er ekki boðið upp á 6/20 heldur bara 6/24 eða 6/18. Hún sér heldur verr en 6/18 og því tek ég næsta dálk sem er 6/24 (sem samsvarar 0,25) þó hún sjái örl betur en það.“

Af framangreindu sé því ljóst að matslæknir vísi til miskataflna örorkunefndar við mat á varanlegum miska kæranda. Við röðun í töflu miskataflna örorkunefndar, sbr. kafla I.B., sé beitt ívilnandi ákvörðun þar sem kærandi sé sett í 6/24 sem gefi 8% í stað 6/18 sem gæfi 5%, þrátt fyrir að sjón kæranda sé metin 6/20.

Í framangreindum tölvupósti spyrji Sjúkratryggingar Íslands matsmann einnig nánar út í þjáningatímabil kæranda. Í svörum matslæknis til Sjúkratrygginga Íslands hafi meðal annars eftirfarandi komið fram:

„Það má mögulega segja að tjón hennar hafi orðið þegar þetta uppgötvast ekki í 4 ára skoðun og ástand er stöðugt við 7-8 ára aldur. Hún var hins vegar ekki veik í þannig skilningi og lífið hennar hélt áfram óbreytt. Um er að ræða barn svo vinnufærni kemur þarna ekki inn í og hún heldur áfram með sína skólagöngu.“

Ekki hafi verið lögð fram gögn sem sýni fram á að kærandi hafi verið veik í skilningi 3. gr. skaðabótalaga og beri því að staðfesta hina kærðu ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að þjáningatímabil kæranda sé ekkert.

Hvað varði umkvartanir kæranda þess efnis að matslæknir hafi ekki lagt mat á varanlega örorku kæranda, bendi Sjúkratryggingar Íslands á að slíkt mat fari fram á allt öðrum forsendum en mat á varanlegum miska. Mat á varanlegri örorku samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga sé ekki læknisfræðilegt heldur fjárhagslegt. Í þessu samhengi þyki Sjúkratryggingum Íslands rétt að vekja athygli á því að stofnunin leiti ekki ráðgjafar matslækna við mat á varanlegri örorku í einstaka málum. Í matsgerð sé lögð fram spurning til matsmanns um hvort tjónþoli búi við varanlega örorku samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga, þ.e. hvort viðkomandi muni búa við skert aflahæfi. Hið efnislega mat á varanlegri örorku fari hins vegar fram hjá lögfræðingum stofnunarinnar. Sjúkratryggingar Íslands taki því ekki undir það mat kæranda að galli sé á fyrirliggjandi matsgerð í ljósi þess að matslæknir hafi ekki tekið efnislega afstöðu til mats á varanlegri örorku kæranda.

Að lokum sé þess óskað í kæru að meta beri varanlega örorku kæranda að minnsta kosti til sama hundraðshluta og hinn varanlega miska. Ítrekað sé það sem fram komi í hinni kærðu ákvörðun að erfitt sé að leggja mat á varanlega örorku barns og að ljóst sé að kærandi uppfylli ekki kröfur einstakra starfa sem krefjast góðrar sjónar á báðum augum. Hins vegar megi ekki líta fram hjá því að kærandi ætti að geta unnið við flest störf. Þá sé kærandi enn ung að árum og hafi því góðan möguleika á að sinna tjónstakmörkunarskyldu sinni við val á starfi og menntun. Sjúkratryggingar Íslands telji rétt að benda á að verði ófyrirséðar breytingar á heilsu kæranda í framtíðinni þannig að ætla megi að miska- eða örorkustig sé verulega hærra en metið hafi verið í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, sé hægt að endurupptaka málið og endurmeta heilsutjón á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til framangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ágreining um varanlegan miska og varanlega örorku kæranda vegna afleiðinga sjúklingatryggingaratviks sem kærandi varð fyrir vegna meðferðar á C þann X.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu fer um ákvörðun bótafjárhæðar samkvæmt þeim lögum eftir skaðabótalögum nr. 50/1993, sbr. þó 2. mgr. 10. gr. síðarnefndu laganna. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga skal sá sem ber bótaábyrgð á líkamstjóni greiða skaðabætur fyrir atvinnutjón, sjúkrakostnað og annað fjártjón sem af því hlýst og enn fremur þjáningabætur.

Varanlegur miski

Um mat á varanlegum miska segir í 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að litið skuli til eðlis og hversu miklar afleiðingar tjóns séu frá læknisfræðilegu sjónarmiði, svo og til erfiðleika sem það valdi í lífi tjónþola. Varanlegur miski er metinn til stiga og skal miða við heilsufar tjónþola eins og það er þegar það er orðið stöðugt. Í hinni kærðu ákvörðun segir meðal annars svo um mat á heilsutjóni kæranda:

„SÍ telja að ef greining og meðferð hefði verið háttað með fullnægjandi hætti væru allar líkur á því að tjónþoli hefði þroskað fulla sjón á hægra auga og verið með fulla sjónskerpu með gleraugum. Þar sem tjónþoli fékk ekki rétta greiningu og meðferð í kjölfarið þroskaði hún ekki sjónskerpu á hægra auga og er þar með varanlega sjónskerðingu. Hafa þessar afleiðingar þó ekki áhrif á sjónsvið tjónþola. Skv. miskatöflu örorkunefndar (kafli B, reitur 6/24) gerir þetta varanlegan miska 8%. Með vísan til framangreinds er það mat SÍ að varanlegur miski vegna afleiðinga sjúklingatryggingaratburðar sé rétt metinn 8 (átta) stig.“

Í matsgerð D augnlæknis, dags. 22. febrúar 2022, segir um mat á varanlegum miska kæranda:

„Þar sem hún fékk ekki rétta meðferð þroskaði hún ekki sjónskerpuna á hægra auga og er þar með varanlega sjónskerðingu. Þetta hefur þó ekki áhrif á sjónsvið. Skv miskatöflu örorkunefndar gerir þetta varanlegan miska 8 %.“

Í svari D frá 4. maí 2022 við tölvupósti Sjúkratrygginga Íslands þar sem óskað var upplýsinga um til hvaða liðar í miskatöflunum hún vísi, kemur fram:

„Í miskatöflunni vísa ég til þess að hún sér 1,0 með öðru auga (sem er 6/6). Hún sér 0,3 með hinu (sem er 6/20). Í töflunni er ekki boðið upp á 6/20 heldur bara 6/24 eða 6/18. Hún sér heldur ver en 6/18 og því tek ég næsta dálk sem er 6/24 (sem samsvarar 0,25) þó hún sjái örl betur en það.“

Kærandi byggir á því að varanlegur miski vegna afleiðinga sjúklingatryggingaratviksins sé verulega vanmetinn hjá Sjúkratryggingum Íslands.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, hefur lagt mat á þau gögn sem fyrir liggja í málinu og telur þau fullnægjandi. Fyrir liggur að vegna afleiðinga sjúklingatryggingaratburðarins býr kærandi við skerta sjón á hægra auga, þ.e. 0,3  með mögulegum áhrifum á þrívíddarsjón. Með vísan til töflu í lið I.B. í miskatöflum örorkunefndar á sá reitur í töflunni um sjónskerðingu sem svarar til 6/24 best við um kæranda að mati úrskurðarnefndar og telur nefndin því að varanlegur miski kæranda sé 8 stig með hliðsjón af lið I.B. í miskatöflunum.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að varanlegur miski kæranda hafi réttilega verið metinn 8 stig vegna sjúklingatryggingaratviksins.

Varanleg örorka

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 á tjónþoli rétt á bótum fyrir varanlega örorku valdi líkamstjón, þegar heilsufar tjónþola er stöðugt, varanlegri skerðingu á getu til að afla vinnutekna. Við mat á varanlegri örorku skoðar úrskurðarnefndin annars vegar hver hefði orðið framvindan í lífi tjónþola hefði sjúklingatryggingaratburður ekki komið til og hins vegar er áætlað hver framvindan muni verða, að teknu tilliti til áhrifa sjúklingatryggingaratburðarins á aflahæfi kæranda.

Í hinni kærðu ákvörðun segir meðal annars um forsendur fyrir niðurstöðu matsins á varanlegri örorku:

„Erfitt er að leggja mat á varanlega örorku barns sem er aðeins X ára gamalt þegar matið fer fram. Ljóst er að tjónþoli uppfyllir ekki kröfur einstakra starfa svo sem flugmanns eða við flugumferðastjórn. Að öðru leiti er það mat SÍ að sjúklingatryggingaratburður hafi ekki áhrif á getu tjónþola til að afla vinnutekna og ætti hún því að geta unnið við flest störf. Þá ber einnig að líta til þess að tjónþoli er ung að árum og hefur því þann möguleika að lágmarka tjón sitt með því að velja sér starf og menntun þar sem afleiðingar vangreiningar á lötu auga eru sem minnst til trafala.

Er það mat SÍ að þær varanlegu afleiðingar sem metnar hafa verið til átta stiga miska hér að framan séu þess eðlis, að þær skerði hvorki möguleika tjónþola á vinnumarkaði, né hæfi hennar til að afla tekna í framtíðinni. Að öllum gögnum virtum verður ekki séð að hinn eiginlegi sjúklingatryggingaratburður hafi valdið varanlegri skerðingu á getu til að afla vinnutekna. Kemur því ekki til greiðslu bóta fyrir varanlega örorku.“

Í matsgerð D augnlæknis, dags. 22. febrúar 2022, segir um mat á varanlegri örorku kæranda:

„Þetta hefur ekki áhrif á getu til að afla vinnutekna og getur hún unnið við flest störf. Þó eru einstaka störf sem hún myndi ekki uppfylla kröfur um eins og t.d flugmaður eða flugumferðarstjórn.“

Kærandi byggir á því að hún búi við varanlega örorku vegna afleiðinga sjúklingatryggingaratviksins og telur að meti beri varanlega örorku til að minnsta kosti sama hundraðshluta og varanlega miska þar sem fötlun hennar muni alltaf þrengja starfsval hennar.

Í 1. mgr. 5. gr. skaðabótalaga kemur fram skilyrði um varanlega skerðingu á getu til að afla vinnutekna til þess að tjónþoli eigi rétt á bótum fyrir varanlega örorku. Kemur því til álita hvort þau einkenni, sem lýst hefur verið hér að framan og rakin verða til sjúklingatryggingaratviksins, hafi meiri áhrif á aflahæfi kæranda en Sjúkratryggingar Íslands hafa metið. Ljóst er að framtíð kæranda, sem er barn að aldri, er óráðin. Nú á dögum er umtalsverður fjöldi starfa, auk starfa í flugi, á sjó og við stjórnun stærri farartækja á landi, háður því að sjón og þrívíddarsjón sé góð. Þetta takmarkar þannig starfsval kæranda nokkuð og telur því úrskurðarnefnd velferðarmála að rétt sé að meta varanlega örorku vegna afleiðinga sjúklingatryggingaratburðarins. Að framangreindu virtu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að varanleg örorka kæranda vegna sjúklingatryggingaratburðar sé 8%.

Með vísan til þess, sem rakið hefur verið hér að framan, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að ákvarða varanlega örorku 8%. Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 16. maí 2022 um bætur úr sjúklingatryggingu er að öðru leyti staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um bætur til A, samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er staðfest um annað en varanlega örorku. Varanleg örorka er metin 8%.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum