Hoppa yfir valmynd
16. desember 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 485/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 485/2021

Fimmtudaginn 16. desember 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 15. september 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. júlí 2021, um að synja beiðni hans um endurupptöku máls.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 17. nóvember 2020. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 14. desember 2020, var umsókn kæranda synjað þar sem vinna hans á ávinnslutímabili bótaréttar næði ekki lágmarksrétti til atvinnuleysistrygginga. Kærandi sótti á ný um greiðslur atvinnuleysisbóta 29. maí 2021 og var umsóknin samþykkt með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 21. júní 2021. Með erindi, dags. 1. júlí 2021, fór kærandi fram á endurupptöku ákvörðunar frá 14. desember 2020 með vísan til þess að hagir hans hefðu ekkert breyst frá desember 2020 til júní 2021 og að öll sömu gögn hefðu legið fyrir við afgreiðslu umsóknanna beggja. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. júlí 2021, var þeirri beiðni synjað.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 15. september 2021. Með bréfi, dags. 17. september 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 19. október 2021 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. október 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið hafnað í desember 2020 en síðan samþykkt í júní 2021. Öll þau gögn sem hafi legið fyrir í desember 2020 hafi verið lögð óbreytt fyrir þegar umsókn hafi verið samþykkt í júní 2021. Ósk kæranda um endurupptöku hafi verið hafnað og því kæri hann þá málsmeðferð og niðurstöðu.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 17. nóvember 2020. Umsókn kæranda hafi verið synjað þann 14. desember 2020 þar sem kærandi hafi ekki náð lágmarksrétti til atvinnuleysistrygginga, sbr. 2. mgr. 15. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 54/2006. Þann 29. maí 2021 hafi kærandi sótt aftur um atvinnuleysisbætur og umsókn hans hafi verið samþykkt þann 21. júní 2021. Útreiknaður bótaréttur kæranda sé 59%.

Í framhaldinu hafi kærandi farið fram á endurupptöku á ákvörðun stofnunarinnar frá 14. desember 2020 á þeim grundvelli að sömu gögn hafi legið til grundvallar umsóknum kæranda um atvinnuleysisbætur frá 17. nóvember 2020 og 29. maí 2021 og þar af leiðandi teldi kærandi engar forsendur fyrir því að synja umsókn hans um atvinnuleysisbætur þann 14. desember 2020 en samþykkja umsókn hans þann 21. júní 2021.

Stofnunin hafi ekki talið að beiðni kæranda gæfi tilefni til endurupptöku, enda hefðu ekki komið fram upplýsingar sem gætu haft þýðingu í máli kæranda. Þann 12. júlí 2021 hafi kæranda verið tilkynnt að endurupptöku á máli hans væri hafnað þar sem ekki væri séð að ákvörðun stofnunarinnar frá 14. desember 2020 hefði verið byggð á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum. Því hafi ekki komið til endurupptöku á máli kæranda.

Vinnumálastofnun bendi á að þegar umsókn kæranda hafi borist þann 17. nóvember 2020 hafi kærandi hvorki getað nýtt nám til að sækja bótarétt aftur í tímann né til hækkunar þar sem námi hafi ekki verið formlega lokið. Fyrst hafi verið hægt að nýta heimild 25. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um geymda ávinnslu atvinnuleysisbóta þegar námi kæranda hafi sannanlega verið lokið. Þegar umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur hafi borist þann 29. maí 2021 hafði kærandi formlega lokið námi. Af þeim sökum hafi kærandi getað nýtt nám sem hafi formlega verið lokið til hækkunar á bótarétti sínum.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé heimilt að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar velferðarmála og kærufrestur sé þrír mánuðir frá dagsetningu bréfs, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Auk þess komi fram í 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga að þegar aðili óski eftir endurupptöku máls innan kærufrests rofni kærufresturinn. Hafni stjórnvald að taka mál til meðferðar á ný haldi kærufrestur áfram að líða að nýju frá þeim tíma þegar sú ákvörðun sé tilkynnt aðila. Í ljósi þess að kærandi hafi óskað eftir endurupptöku á máli sínu sem hafi verið hafnað þann 12. júlí 2021, þ.e. rúmlega sjö mánuðum eftir að ákvörðun stofnunarinnar um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur hafi verið tilkynnt kæranda telji stofnunin þriggja mánaða kærufrestinn liðinn og það sé mat Vinnumálastofnunar að vísa beri kærunni frá.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. júlí 2021, um að synja beiðni kæranda um endurupptöku ákvörðunar frá 14. desember 2020 um synjun á umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku mála. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef atvik máls eru á þann veg að eitt af eftirfarandi skilyrðum sem fram koma í 1. og 2. tölul. geti átt við:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafaverulega frá því að ákvörðun var tekin.

Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun samkvæmt 1. tölulið 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum sem ákvörðun samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því. Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann stjórnvöldum að vera skylt að endurupptaka mál á grundvelli ólögfestra reglna, til dæmis þegar fyrirliggjandi eru rökstuddar vísbendingar um verulegan annmarka á málsmeðferð stjórnvalds.

Við mat á því hvort ákvörðun hefur byggst á „ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik“, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, er horft til þess hvort fram séu komnar nýjar eða fyllri upplýsingar um málsatvik sem telja má að hefðu haft þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hafa ekki komið fram upplýsingar í málinu sem leiða eigi til þess að Vinnumálastofnun skuli taka ákvörðun sína frá 14. desember 2020 til endurskoðunar, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá verður ekki séð að aðstæður kæranda hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin á þann veg að réttlætanlegt sé að mál hans verði tekið aftur til meðferðar hjá Vinnumálastofnun, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta synjun Vinnumálastofnunar á beiðni kæranda um endurupptöku máls hans.   


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. júlí 2021, um að synja beiðni A, um endurupptöku máls, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum